Verkefnisstjórn 3. áfanga

Fulltrúar í verkefnisstjórn 2013-2017

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar var skipuð af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, í mars 2013.

Í verkefnisstjórninni sátu: 

 • Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, formaður, skipaður án tilnefningar 
 • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, skipuð án tilnefningar 
 • Helga Barðadóttir, sérfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (t.o.m. 1. september 2016). Sigurður St. Arnalds tók við af Helgu og sat til loka skipunartíma verkefnisstjórnarinnar.
 • Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
 • Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af forsætisráðuneyti 
 • Elín R. Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

 

Varamenn þeirra voru, í sömu röð,

 • Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, varamaður formanns, skipuð án tilnefningar 
 • Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, skipaður án tilnefningar 
 • Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
 • Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
 • Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, tilnefndur af forsætisráðuneyti 
 • Guðjón Bragason, sviðsstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:

 

Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar var Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

 

Erindisbréf verkefnisstjórnar

Hér fer á eftir texti erindisbréfs verkefnisstjórnar, dagsett hinn 25. mars 2013:

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar yður hér með í verkefnisstjórn rammaáætlunar til næstu fjögurra ára, sbr. lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Verkefnisstjórnin er þannig skipuð:

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, formaður, skipaður án tilnefningar
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur, varamaður formanns, skipuð án tilnefningar

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, skipuð án tilnefningar
Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, til vara, skipaður án tilnefningar

Tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:
Helga Barðadóttir, sérfræðingur, aðalfulltrúi,
Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, til vara,
Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, aðalfulltrúi,
Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, til vara.

Tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti:
Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, sérfræðingur, aðalfulltrúi,
Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur, til vara.

Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Elín R. Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi, aðalfulltrúi,
Guðjón Bragason, sviðsstjóri, til vara.

Verkefnastjórn starfar samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir verndar- og orkunýtingaráætlun, sbr. 8.-11. gr. laganna. Markmið laganna er að tryggja að nýting landsvæða þar sem möguleikar eru á orkuvinnslu byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Verkefnisstjórnin fjallar um virkjunarhugmyndir og landsvæði í samræmi við beiðnir þar um og getur einnig endurmetið virkjunarhugmyndir og landsvæði gildandi áætlunar.

Samkvæmt lögum nr. 48/2011 ber verkefnisstjórn að skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum til að fara yfir virkjunaráform og skal hún að fengnum niðurstöðum faghópa vinna drög að tillögum um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða. Að loknu samráðs- og kynningarferli og umhverfismati í samræmi við lög nr. 105/2006 ber verkefnisstjórn að leggja fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun landsvæða.

Verkefnisstjórnin skal hafa til hliðsjónar ábendingar sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi um rammaáætlun, sem og þær ábendingar sem koma fram í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar. Í því sambandi leggur ráðuneytið áherslu á eftirfarandi atriði;

 1. Verkefnisstjórnin vinni með þætti sem liggja til grundvallar mats á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu, þ.á m. sjálfbærni orkuvinnslunnar, áhrif nýtingar á grunnvatn, mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og annarra lofttegunda, hugsanleg áhrif á lýðheilsu og jarðskjálftavirkni í tengslum við niðurdælingu og nýtingarhlutfall jarðvarma til raforkuframleiðslu. Í þessu sambandi er m.a. bent á tillögu Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) í skýrslunni „Rannsóknir á jarðrænum auðlindum á Íslandi“, þar sem fjallað er um ýmis atriði til að bæta grundvöll að nauðsynlegri ákvarðanatöku um vernd og nýtingu jarðvarmaauðlinda.
 2. Verkefnisstjórn afli gagna og meti hagsmuni annars konar nýtingar en til orkuframleiðslu. Skal því við skipan faghópa lögð áhersla á þverfaglega nálgun og að fjallað sé um gildi landsvæðanna frá hagsmunum náttúruverndar, ferðaþjónustu og útivistar, sem og að metið sé verðmæti landslags og landslagsheilda, samlegð virkjana og flutningskerfa raforku, gildi jarðminja og samfélagsleg áhrif virkjana.
Ráðuneytið leggur ennfremur fyrir verkefnisstjórn að vinna greiningu á því hvort verkefni rammaáætlunar ættu hugsanlega að taka til eftirfarandi atriða og sú greining liggi fyrir samhliða áfangaskýrslu verkefnisstjórnar:

 • Rammaáætlun taki til smærri virkjana en 10 MW.
 • Hvort rammaáætlun ætti einnig að taka til annarrar orkuvinnslu en úr vatnsafli og jarðvarma, s.s. vindorku, líforku og sjávarfallaorku.
 • Hvort æskilegt sé að endurmeta ónýttar virkjunarhugmyndir í orkunýtingarflokki að tilteknum tíma liðnum.
 • Hvernig tengja megi vinnu og ákvarðanatöku rammaáætlunar við orkuáætlun eða orkustefnu stjórnvalda.
 • Önnur atriði sem verkefnisstjórnin telur mikilvæg í þessum sambandi.

Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að verkefnisstjórnin starfi með þeim hætti að tryggt sé að almenningur hafi virka aðkomu og félagasamtök taki virkan þátt í öllu starfi við rammaáætlun.

Ráðuneytið hefur í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga nr. 48/2011 falið vinnuhópi sérfræðinga í Háskóla Íslands að vinna tillögu um hvernig standa eigi að greiningu á verðmati náttúrugæða. Gert er ráð fyrir að greinargerð vinnuhópsins liggi fyrir 1. júní 2013 og verður hún þá aðgengileg verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Tillögum um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun landsvæða skal skilað til ráðherra innan fjögurra ára frá skipun verkefnisstjórnar. Verkefnisstjórn skal einnig skila áfangaskýrslu um stöðu mála fyrir 1. mars 2014, sem ráðherra mun kynna á Alþingi. Þar skal sérstaklega gera grein fyrir þeim svæðum sem tilgreind eru sérstaklega í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ráðuneytin bera sjálf kostnað af sínum fulltrúum í verkefnisstjórninni, en laun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga ákvarðast af Þóknananefnd.

Verkefnisstjórnin tekur þegar til starfa.

Undirritað: Svandís Svavarsdóttir, Sigríður Auður Arnardóttir

Viðauki við erindisbréf

Hér fer á eftir texti viðauka við erindisbréf verkefnisstjórnar, dagsett þann 12. júlí 2013:

Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til verkefnisstjórnar verndar og orkunýtingar landssvæða að forgangsraða vinnu sinni þannig að hún framkvæmi, eins fljótt og auðið er, faglegt mat, sbr. ákvæði laga nr. 48/2011, á eftirfarandi þáttum:

 1. Þeim sex orkukostum sem færðir voru úr nýtingarflokki í biðflokk eftir umsagnarferli tillögunnar sl. vetur, þ.e. Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun, Skrokköldu, Hágöngum I og Hágöngum II. Álitaefnið vegna þessara kosta er fyrst og fremst áhrif Þjórsárvirkjana á laxastofna og svo áhrif hinna kostanna á víðerni og nálægð við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. fyrirliggjandi gögn (ítarlegri umfjöllun um þessa þætti er í 12. kafla nefndarálits um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða).
 2. Þeim tveimur orkukostum, þ.e. Hagavatni og Hólmsá v/ Atley, sem ekki fengu fullnægjandi mat í meðförum fyrri verkefnisstjórnar.

Ráðuneytið  telur jafnframt áhugavert að skoða sérstaklega þá möguleika sem felast í stækkun núverandi virkjana, ekki síst á þeim svæðum sem eru þegar röskuð. Mun ráðuneytið láta vinna úttekt á þeim möguleikum og kynna fyrir verkefnisstjórninni til upplýsingar.

Til að tryggja skilvirka miðlun upplýsinga um stöðu og framvindu vinnu verkefnisstjórnarinnar skulu formaður verkefnisstjórnar og ráðherra umhverfis- og auðlindamála funda reglulega um framgang verkefnisins.

Tillögur verkefnisstjórnar að flokkun umræddra virkjunarkosta skulu liggja fyrir eigi síðar en 15. febrúar 2014 með það að markmiði að unnt verði að leggja fram nýja tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi á næsta löggjafarþingi.

Undirritað: Sigurður Ingi Jóhannsson, Stefán Thors

 

Fundargerðir verkefnisstjórnar 2017

Fundargerðir verkefnisstjórnar 2016

Fundargerðir verkefnisstjórnar 2015

Fundargerðir verkefnisstjórnar 2014

Fundargerðir verkefnisstjórnar 2013

Vettvangsferðir verkefnisstjórnar