1. fundur, 22.05.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

1. fundur, 22.5.2013, 10:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG) formaður, Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir (RHÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS) starfsmaður verkefnisstjórnarinnar. Jón Geir Pétursson (JGP), skrifstofustjóri skrifstofu landgæða (SL) í Umhverfis- og auðlindaráðuneyti (UAR) heimsótti fundinn í upphafi fundar. HHS skrifar fundargerð.

  1. SG setur fund, fundarmenn kynna sig stuttlega.
  2. Aðkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytis: JGP fer yfir málin, fylgir úr hlaði. Vinna verkefnisstjórnarinnar heyrir undir SL, HHS er starfsmaður verkefnisstjórnarinnar, SL sér um að útvega verkefnisstjórninni það sem þarf til vinnunnar, t.d. ritaraþjónustu (ef þarf), lögfræðilega sérþekkingu o.s.frv. HHS er tengiliður verkefnisstjórnarinnar inn í ráðuneytið. Aðstaða verkefnisstjórnarinnar til funda verður í UAR, líka aðstaða fyrir faghópa. UAR hýsir verkefnið og hefur mikinn metnað til að gera það vel og vera öflugur bakhjarl. Að þessu sögðu yfirgefur JGP fundinn.
  3. Erindisbréf og lög: SG fer stuttlega yfir erindisbréf verkefnisstjórnarinnar með áherslu á verksvið hennar og hlutverk. Vinna verkefnisstjórnarinnar byggir á lögum 42/2011 og þingsályktun um rammaáætlun (þskj 89. á 141. löggjafarþingi). Hugsanlegt er að beiðni berist um að endurmeta fyrri vinnu og voru möguleg vinnubrögð verkefnisstjórnarinnar í því tilfelli rædd. Lögin um rammaáætlun eru góður rammi utan um vinnuna, mjög traustur. Þingsályktunin hefur lagalegt gildi því lögin vísa í hana, segir skýrt til um hvernig kostir færast milli flokka. Skýr og skilmerkilegur rammi sem ætti að vera auðvelt að vinna eftir.
  4. Faghópar: Eitt aðalhlutverk verkefnisstjórnarinnar er að skipa nýja faghópa til að meta virkjanahugmyndir í biðflokki. Ekki er ákveðinn fjöldi faghópa tiltekinn í lögum eða erindisbréfi. Næsti fundur verkefnisstjórnarinnar mun að stórum hluta fjalla um hve marga faghópi þurfi, hvert samband þeirra við verkefnisstjórnina eigi að vera, stórt viðfangsefni að átta sig á því. Til dæmis þarf að ákveða hvort fulltrúar hagsmunaaðila ættu að taka þátt í faghópunum, hvaða kerfi skuli nota til að velja fólk í faghópana og hver verkefnaskiptingin milli faghópanna sjálfra og milli faghópa og verkefnisstjórnarinnar verður. Þingsályktunartillagan og nefndarálitið sem henni fylgir eru mikilvægur leiðarvísir í þessari vinnu. ÞEÞ útskýrir hvernig þetta var í 1. áfanga (iðnaðarráðuneytið óskaði eftir tillögum í faghópa).Síðast voru formenn faghópa skipaðir af ráðherrum, Formenn faghópa gerðu tillögu um aðra og það var síðan samþykkt af verkefnisstjórn. Í 3. áfanga ber verkefnisstjórn að skipa faghópa og ræður hvaða faghópar eru myndaðir. Bent á að það er óljóst stjórnskipunarlega hver skipar í hópana, sérkennilegt að verkefnisstjórn sjái um það.
  5. Kynningarmál og samskipti við almenning: Kynningarmál verkefnisins eru mjög mikilvægur hluti af starfi verkefnisstjórnarinnar. Vefsvæðið www.rammaaaetlun.isvar notað í 2. áfanga til að miðla upplýsingum til almennings og hagsmunaaðila. HHS lýsir í stuttu máli vinnu sem er farin af stað innan ráðuneytisins við að endurskipuleggja þessa vefsíðu til að gera hana aðgengilegri og bæta notagildi hennar fyrir almenning sem vill fræðast um orkunýtingu og vernd náttúrusvæða. Önnur tæki til upplýsingamiðlunar rædd, t.d. opnir fundir og efnisútgáfa. Mikilvægt er að aðkoma almennings sé alltaf tryggð og miðlun upplýsinga gangi snurðulaust og hratt fyrir sig.
  6. Fjárhagur verkefnisins: HÞ veltir upp hugleiðingum um samspil faghópa og fjárhags verkefnisins. HB nefnir laun fyrir meðlimi faghópa og veltir upp þeirri spurningu hvort greiðslugeta verkefnisstjórnar takmarki það hverja sé hægt að biðja um að vinna í faghópunum – getur verkefnisstjórnin bara beðið fólk sem getur unnið án þess að fá sérstakar greiðslur fyrir (þ.e., sem er starfsmenn e-a stofnana ráðuneytisins) að starfa í faghópunum? ÞHÞ minnir á að þó fundartími hafi verið borgaður þá hafi langmesta vinnan átt sér stað utan fundanna.
  7. Starfsreglur: Verkefnisstjórn þarf, samkvæmt lögum 42/2011, að setja sér starfsreglur. Í þeim reglum þarf m.a. að skilgreina verklag við að rita, samþykkja og birta fundargerðir vstj. Þetta þarf að ræða sem fyrst. Skoða hvort starfsreglurnar geti líka verið rammi utan um vinnuframlag meðlima faghópa, tímaskráningu og þess háttar. Eins þarf að setja reglur um aðkomu varamanna og að hve miklu leyti þeim beri að fylgjast með starfi verkefnisstjórnarinnar. ÞEÞ vekur athygli á því að aðilar geta beðið verkefnisstjórn að meta aðrar virkjanahugmyndir en þær sem eru til meðferðar í þessum áfanga og að ekki sé ljóst hvernig nákvæmlega eigi að bregðast við slíkum óskum. HB leggur til að við setjum tímamörk á beiðnir um mat m.v. að skila í þessum áfanga. Í lögum segir að reglugerð skuli mæla nánar til um þetta.
  8. Forgangsröðun verkefna og fjármuna: Rætt hvaða verkefni eigi að hafa forgang í vinnu verkefnisstjórnarinnar og hvernig eigi að forgangsraða fjármunum á verkefnin. Verkefnisstjórninni er falið bæði að láta gera frekari rannsóknir á hugmyndum í biðflokki og að sinna öðrum verkefnum sem merkt eru a-e í erindisbréfinu. Þessum verkefnum verður að forgangsraða og skipuleggja. ERL bendir á að það er yfirlýst stefna nýrrar ríkisstjórnar að breyta röðun í þingsáætluninni og hvetur ERL til að sumarið verði notað  í rannsóknir vegna virkjanahugmynda í neðri Þjórsá. Leitað verði álits m.a.Veiðimálastofnunar á hvort og þá hvaða rannsóknir þurfi að gera þar sem augljós skoðanamunur er um áhrif á fiskgengd að lokinni virkjun Urriðafoss.
  9. Tímaáætlanir: Fyrsta afurð verkefnisstjórnarinnar er áfangaskýrsla sem á að skila fyrir 1. mars 2014.  Í erindisbréfi er ekki farið fram á að sú skýrsla innihaldi neinar tillögur um flokkun á fullmetnum virkjanahugmyndum, en tiltekið að gera skuli grein fyrir þeim svæðum sem tilgreind eru sérstaklega í 12. kafla álits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Endanleg niðurstaða úr vinnu þessarar verkefnisstjórnar á að liggja fyrir ekki síðar en 25. mars 2017.
  10. Næsti fundur ákveðinn 3. júní 2013 kl. 9:00. Efni þess fundar verða annars vegar faghópar og hins vegar rannsóknavinna við Urriðafoss. Rætt um að þriðji fundur verkefnisstjórnarinnar verði opinn kynningarfundur. Best væri ef hægt væri að halda slíkan fund fyrir sumarfrí (ca. 20. júní). Fram kom að raunhæfara væri að stefna að slíkum fundi með haustinu.
  11. Fundi slitið.