Störf verkefnisstjórnar og faghópa í 1. áfanga

Jökulár hálendisins og háhiti nærri byggð

Þegar verkefnisstjórnin hóf störf 1999 setti hún sér það markmið að ljúka 1. áfanga áætlunarinnar í ársbyrjun 2003 með mati og samanburði á 20-25 virkjunarkostum vatnsafls og jarðvarma. Þar yrði fjallað um helstu kosti í virkjun vatnsafls í jökulám á hálendinu og jarðvarma á háhitasvæðum nærri byggð. Markmið rammaáætlunarinnar var 

að leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu, jafnt vatnsafls og háhita, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.

Hvaða kosti átti að skoða?

Nokkur umræða varð um hvort meta ætti allar virkjunarhugmyndir eða undanskilja einhverjar þeirra. Verkefnisstjórnin leitaði álits iðnaðarráðherra og var það skoðun ráðuneytisins að almennt bæri  „...ekki að undanskilja neinar þær virkjunarhugmyndir sem hafa á undanförnum áratugum verið til skoðunar hjá Orkustofnun og áður embætti raforkumálastjóra, svo og hin síðustu ár einnig hjá Landsvirkjun, og einhver haldbær gögn liggja fyrir um að geti verið raunhæfir virkjunarkostir í framtíðinni.“ Hins vegar var ekki talið eðlilegt að fjalla um virkjunaráform sem bæði Alþingi og ráðherra hefðu heimilað (þá Fljótsdalsvirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar). Umhverfisráðherra tók í sama streng. 

Í ljósi þessa undirbjó verkefnisstjórnin mat á virkjunarhugmyndum í Jökulsá á Dal en gerði ekki ráð fyrir mati á hugmyndum um virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Þegar Landsvirkjun ákvað síðar að stefna að virkjun beggja ánna með Kárahnjúkavirkjun varð að ráði að sú virkjunarhugmynd yrði metin og Fljótsdalsvirkjun til samanburðar.

Verkefnisstjórnin ræddi einnig hvort taka ætti til umfjöllunar hugsanlegar virkjunarhugmyndir sem hefðu áhrif á friðlýst svæði eða mikilvæg náttúruvætti svo sem Gullfoss, Dettifoss eða Geysi. Hún taldi rétt að slíkir kostir yrðu teknir með til samanburðar þótt ekki væri skynsamlegt að eyða miklu fé í áætlanir þeim tengdum. Treysta yrði því að matsaðferðir skiluðu þeirri umsögn um áhrif virkjana sem þessum stöðum bæri.

Virkjunarkostir í 1. áfanga

Þegar upp var staðið voru teknir fyrir 19 virkjunarkostir í 10 vatnsföllum og 24 virkjunarkostir á 11 háhitasvæðum. Þar af voru 35 nýjar hugmyndir en einnig voru teknar til samanburðar 3 jarðvarmavirkjanir (Svartsengi, Nesjavellir og Krafla) og 5 vatnsaflsvirkjanir (Búðarhálsvirkjun, Norðlingaölduveita, Villinganesvirkjun, Kárahnjúkavirkjun og Fljótsdalsvirkjun) sem höfðu áður gengið í gegnum ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Í töflunum að neðan er yfirlit yfir þær virkjanir sem metnar voru í 1. áfanga. Í fyrri töflunni er yfirlit yfir virkjunarkosti í jarðvarma og í þeirri seinni er yfirlit yfir virkjunarkosti í vatnsafli. 

 Jarðvarmavirkjanir  Orkugeta
(GWh/ár)
        Reykjanes  840
 KRÍSUVÍKURSVÆÐI  
        Sandfell  840
        Trölladyngja  840
        Seltún  840
        Austurengjar  840
        Brennisteinsfjöll  840
 HENGILSSVÆÐI  
        Hellisheiði  840
        Innstidalur  840
        Grændalur  840
        Þverárdalur  840
        Ölkelduháls  840
 TORFAJÖKULSSVÆÐI  
        Reykjadalir vestari  840
        Reykjadalir austari  840
        Reykjadalir (Kaldaklof)  840
        Háuhverir  840
        Brennisteinsalda  840
Hágöngusvæði  840
Þeistareykir  840
Bjarnarflag  560
Krafla Vestursvæði  840
Krafla Leirhnjúkur  840
 Metin orkugeta í jarðvarma  17.360
 Til samanburðar:  
 Svartsengi - stækkun  140
 Nesjavellir - stækkun  210
 Krafla I - stækkun  280
 Samanburður alls  630

 Metin orkugeta í jarðvarma alls (GWh/ár)

 17.990


 Vatnsaflsvirkjanir Orkugeta
(GWh/ár) 
Skatastaðavirkjun a  1.046
Skatastaðavirkjun b  (1.290)
Fljótshnjúksvirkjun  405
Hrafnabjargavirkjun a  575
Hrafnabjargavirkjun b  (618)
Jökulsá á Fjöllum  4.000
Skaftárvirkjun  904
Hólmsárvirkjun  438
Skaftárveita  450
Markarfljót a  735
Markarfljót b  (855)
Núpsvirkjun a  1.001
Núpsvirkjun b  (1.019)
Urriðafossvirkjun  920
 Metin orkugeta í vatnsafli  10.474
 Til samanburðar:  
 Villinganesvirkjun  190
 Kárahnjúkavirkjun  4.670
 Fljótsdalsvirkjun  (1.390)
 Norðlingaölduveita (575 m)  650
 Búðarhálsvirkjun  630
 Samanburður alls  6.140

 Metin orkugeta í vatnsafli alls (GWh/ár)

 16.614

Í 1. áfanga rammaáætlunar voru þannig metin alls 34.604 GWh/ár.

Öflun gagna

Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja létu Orkustofnun í té gögn um þær virkjunarhugmyndir sem þær höfðu undirbúið. Þar var mat á náttúrufarsgildum og áhrifum í flestum tilvikum byggt á skýrslum um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi virkjana en þær voru mun ítarlegri en skýrslur um aðrar virkjanir þar sem undirbúningur var skemmra á veg kominn. 

Orkustofnun reiddi fram eldri gögn um aðrar virkjanir og stýrði undirbúningsrannsóknum þar sem gögn skorti. Náttúrufræðistofnun Íslands gegndi hins vegar lykilhlutverki í rannsóknum á náttúrufari virkjanasvæðanna og studdist þar m.a. við eldri gögn í fórum stofnunarinnar. Vatnamælingar Orkustofnunar önnuðust öflun gagna um rennsli og aurburð vatnsfalla og margar verkfræði- og ráðgjafarstofur tóku þátt í gerð frumáætlana um virkjanir.

Aðferðafræði

Eitt fyrsta verkefni verkefnisstjórnarinnar var að hrinda af stað gagnaöflun fyrir matsferlið, bæði um virkjanahugmyndirnar sjálfar og náttúrufar viðkomandi svæða. Í tengslum við það verkefni tók Náttúrufræðistofnun að sér að vinna tilraunaverkefni sem miðaði að því að þróa aðferðir til að skrá og meta náttúruverndargildi fyrirhugaðra virkjanasvæða.

Áður en vinna við mat á mismunandi virkjunarkostum hófst snerist starf verkefnisstjórnar og faghópa um þróun aðferða sem beita mætti í matinu og um val á viðföngum og viðmiðum slíks mats. Áhersla var lögð á skýrt og gagnsætt verklag og vinnureglur. Opin umfjöllun um aðferðafræðina var víðtæk með opnum málþingum og sérstökum fundum með orkufyrirtækjum og stofnunum sem málið varðaði sérstaklega. 

Gögn um virkjunarkosti voru lögð fyrir fjóra faghópa verkefnisstjórnar. Þeir mátu gögnin hver frá sínum sjónarhóli og skiluðu niðurstöðum til verkefnisstjórnar. Samantekt á helstu niðurstöðum faghópa er sýnd í töflum í 5. kafla niðurstöðuskýrslunnar ásamt túlkun verkefnisstjórnar með skýringarmyndum. 

Tilraunamat 2002 

Sumarið 2000 óskaði iðnaðarráðuneytið eftir því að verkefnisstjórnin flýtti mati og samanburði á virkjunarkostum í jökulám sem bera mætti saman við fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Verkefnisstjórnin taldi gerlegt að skila bráðabirgðaáliti með slíkum samanburði í byrjun árs 2002, þó með þeim fyrirvara að fleiri sumur þyrfti til að ljúka rannsóknum á náttúrufari sumra virkjunarsvæðanna. Þar yrði í fyrstu að styðjast við eldri gögn um náttúrufar og frumáætlanir um virkjanir sem endurskoðaðar yrðu á árinu 2002 áður en til endanlegs mats kæmi í ársbyrjun 2003. Verulega vinnu þyrfti einnig við skilgreiningu á þeim verðmætum og áhrifum virkjana sem meta skyldi og hafa til samanburðar. Því yrði að líta á þetta mat og samanburð sem tilraun með þau viðföng og viðmið sem faghópar og verkefnisstjórn veldu til samanburðar og þær aðferðir sem beitt yrði til að vega saman óskylda þætti í heildarsamanburði.

Til þessa tilraunamats voru valdir virkjunarkostir í Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði, Skjálfandafljóti, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Dal, Jökulsá á Fljótsdal, Skaftá, Hólmsá og Markarfljóti, ásamt veitu úr Skaftá um Langasjó í Tungnaá og veitu Þjórsár frá Norðlingaöldu í Þórisvatn, alls 15 kostir. Þetta úrtak náði til flestra stærstu virkjunarkostanna í jökulám og gert var ráð fyrir að í úrtakinu hafi einnig verið flestir hagkvæmustu kostirnir. Úrtakið var hins vegar ekki dæmigert fyrir heild allra virkjunarhugmynda um vatnsafl. Enn fremur vantaði samanburð við jarðvarmavirkjanir.

Niðurstöður tilraunamatsins voru kynntar með skýrslu, „Tilraunamat á 15 virkjunarkostum í vatnsafli“, í apríl 2002. Þar var að finna lýsingu á aðferðafræði allra faghópa og kynningu á niðurstöðum faghópa I, II og IV um 15 vatnsaflsvirkjanir. Niðurstöður faghóps III um efnahagsleg áhrif voru hins vegar ekki tiltækar fyrr en með greinargerð um tilraunamat á 10 virkjunarkostum haustið 2002. Þótt upphaflegur tilgangur tilraunamatsins hafi verið að fá samanburð við Kárahnjúkavirkjun var tilraunamatið ekki síður gert til að kynna þær aðferðir sem faghóparnir höfðu þróað og kalla eftir leiðbeinandi gagnrýni sem nýst gæti við endanlegt mat. Við þróun aðferða og framkvæmd matsins var lögð áhersla á gegnsæi svo að hver sem áhuga hefði gæti rakið hvernig matið var unnið og fengið skýringar á þeim ályktunum sem af því voru dregnar. 

Þessi skýrsla er ekki til á rafrænu formi en er aðgengileg á ýmsum bókasöfnum.