Fyrirmynd rammaáætlunar

Noregur og Samlet plan for vassdrag

Eftir því sem næst verður komist er Noregur eina landið í heiminum sem hefur unnið rammaáætlun um nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda sinna á svipaðan hátt og gert hefur verið á Íslandi. Reyndar er íslenska rammaáætlunin byggð á þeirri norsku. Vinna við norsku rammaáætlunina (sjá hér og hér) hófst á níunda áratug 20. aldar og fólst í faglegu mati á hagsmunum ýmiss konar landnýtingar á svæðum þar sem til voru hugmyndir um virkjanir. Einnig var hagkvæmni virkjunarkostanna könnuð. Stórþingið tók svo afstöðu til niðurstöðu fagfólksins og afgreiddi þær í þingsályktunum sem samþykktar voru 1973, 1980, 1986 og 1993. Síðan þá hefur ekki farið fram heildstætt mat á virkjunarkostum í Noregi. 

Kröfur um frekari nýtingu vatnsafls hafa þó alltaf verið á lofti og  árið 2005 ákvað Stórþingið að opna fyrir umsóknir um nýtingarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með allt að 1 MW uppsett afl, þar sem sett var skilyrðið að virkjunarkostirnir rýrðu ekki verndargildi svæðanna. Á sama tíma var 46 vatnasviðum bætt norsku áætlunina og mörk nokkurra verndarsvæða lagfærð. Þeirri vinnu lauk með þingsályktun árið 2009.

Árið 2016 samþykkti norska Stórþingið nýja orkustefnu. Í þeirri stefnu fólst m.a. að leggja niður rammaáætlun um vatnsorku. Norska rammaáætlunin rann þar með sitt skeið á enda.

Alþingi Íslands fór þá leið að setja lög um rammaáætlun. Lögin voru samþykkt í maí 2011 og tóku að fullu gildi í janúar 2013. Þar með hefur niðurstaða rammaáætlunar lögformlegt gildi og m.a. er sveitarstjórnum skylt að laga skipulag sitt að niðurstöðum áætlunarinnar. 

Eitt af mikilvægustu atriðunum sem greinir íslensku rammaáætlunina frá þeirri norsku er að í lögunum um þá íslensku er kveðið á um reglubundna endurskoðun áætlunarinnar. Umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði og samvinnu við ráðherra þann sem fer með orkumál, ber að leggja fram á Alþingi tillögu um flokkun virkjunarkosta eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Lögin gera auk þess ráð fyrir að unnt sé að endurmeta virkjunarhugmyndir úr fyrri áföngum til að bregðast við nýjum aðstæðum og/eða nýrri tækni, að því gefnu að ekki sé búið að reisa virkjun eða friða svæðið. Í greinargerð með frumvarpinu er þetta útskýrt með eftirfarandi hætti (II. kafli):

Einnig þarf áætlunin að skapa svigrúm til ákvarðana um friðlýsingu ákveðinna svæða gagnvart orkuvinnslu. Til þess að svo megi verða þarf áætlunin að ná til hæfilega langs tíma. Á sama tíma verður þó að veita ákveðið svigrúm til aðlögunar með tilliti til breyttra forsendna. Í því sambandi getur m.a. þurft að taka tillit til nýrra virkjunarkosta. Einnig þarf að vera unnt að taka tillit til nýrra rannsókna og nýrrar þekkingar og tækni. Þá má nefna að aðferðir við nýtingu viðkomandi orkulinda hafa breyst og nýjar aðferðir verið þróaðar við mat á áhrifum nýtingar og verndargildis viðkomandi svæða.

Íslenska rammaáætlun er unnin af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þessu fyrirkomulagi svipar til þess norska, þar sem rammaáætlunin var í umsjón tveggja ráðuneyta, annars vegar loftslags- og umhverfisráðuneytisins og hins vegar olíu- og orkumálaráðuneytisins.