5. fundur, 28.08.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

5. fundur, 28.08.2013, 14:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.

 1. Fundur settur kl. 14:18.
 2. Fulltrúi forsætisráðuneytis, Hildur Jónsdóttir, boðin velkomin.
 3. Stöðufundur, koma sér í startholur eftir sumarið.
 4. Viðauki við erindisbréf verkefnisstjórnar var gefinn út 12. júlí. Í viðaukanum er hnykkt á atriðum sem áður höfðu verið rædd en ekki skjalfest:
  1. Verkefnisstjórn skal setja vinnu við átta tiltekna virkjunarkosti í forgang.
  2. Ráðuneytið lætur vinna úttekt á möguleikum sem felast í stækkun núverandi virkjana.
  3. Skilvirk miðlun upplýsinga milli vstj. og ráðherra verður tryggð með reglulegum fundum formanns og ráðherra.
 5. Staða mála
  1. Vettvangsferð var farin dagana 8.-10. júlí. Skoðaðar voru aðstæður í grennd við þá átta orkukosti sem verkefnisstjórn var falið að setja í forgang sbr. viðauka við erindisbréf. Hér er um að ræða þá sex orkukosti sem færðir voru úr nýtingarflokki í biðflokk eftir umsagnarferli tillögunnar sl. vetur, þ.e. Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjanir, Skrokköldu, Hágöngur I og Hágöngur II, svo og Hagavatn og Hólmsá v/ Atley. Tilgangurinn var að verkefnisstjórn kynntist staðháttum og áformum virkjunaraðila. Fulltrúi frá Landsneti var einnig með í för til að gera grein fyrir fyrirhuguðum línulögnum í tengslum við þessar virkjunarhugmyndir. Ekki voru kallaðir til aðrir aðilar á þessu stigi málsins.
  2. Vinna við yfirferð yfir fyrirliggjandi gögn um laxinn í Þjórsá er komin í fullan gang. Skúli Skúlason prófessor við Hólaskóla-Háskólann á Hólum sér um það og skrifar skýrslu á ensku svo erlendir fagaðilar geti tekið að sér ritrýni. Skilafrestur á skýrslu Skúla var lengdur til 25. september. Þar sem tíminn er mjög knappur sér Skúli sjálfur um að senda skýrslu sína til erlendra fagaðila til rýni. Verkefnisstjórn mun fá aðgang að öllum athugasemdum sem berast Skúla frá kollegum erlendis.
  3. HHS hefur verið í sambandi við LV varðandi ný og ítarlegri gögn um hönnun á seiðafleytum. HHS og SG eiga bókaðan fund með LV þann 9. september nk. til að fara yfir þessi mál og fá athent frekari gögn fyrir Skúla.
  4. HB: Skýrsla um jarðstrengi verður kynnt á Alþingi í haust, viðbúið að umræðan verði á pólitískum nótum.
  5. Hinar fimm virkjanirnar: SG: Engin vinna farin af stað, bíður faghópanna. ERL veltir fyrir sér hvort það sé gerlegt tímalega að bíða eftir faghópunum, kannski betra að finna aðra lausn til að klára þessar fimm, t.d. kalla til sérfræðinga sbr. laxinn í Þjórsá. Mikið sé til af gögnum um þessa kosti og því e.t.v. ekki nauðsynlegt að setja heilu faghópana í verkið. SG telur að vstj. beri í lengstu lög að fá faghópa til að leysa úr málum, enda séu ekki allir kostir jafneinfaldir meðferðar og Þjórsá. Gott sé líka að hafa vinnubrögðin eins stöðluð og hægt er upp á seinni tíma vinnu við aðra virkjunarkosti. Rætt hve mikil þörf er fyrir frekari rannsóknir, sérstaklega á sviði fornminja.
  6. HHS lýsir vinnu við vefsíðu – grunnur gömlu síðunnar notaður.
  7. Skýrsla Brynhildar Davíðsdóttur og félaga um verðmat náttúru er væntanleg á næstu vikum. SG lýsir niðurstöðu skýrslunnar stuttlega.
 6. Fjármál: Ekkert nýtt um þau að segja. Vegna innanhússvandamála í UAR hefur ekki gefist tækifæri til að klára umræðu um fjármálin. Mjög óþægilegt fyrir alla aðila.
 7. Faghópar: Óvissa um fjármál, heildarramminn nokkurn veginn tilbúinn. Þrír faghópar. Skv. lögum um rammaáætlun fellur verkssvið faghóps IV í 2. áfanga nú undir Orkustofnun. Því verður sá faghópur lagður niður.
 8. Reglugerð, upplýsingamiðlun. Öll gögn frá virkjunaraðilum eiga að koma í gegnum OS, öll önnur gögn eiga að koma í gegnum faghópana og/eða eftir öðrum leiðum, til að viðhafa góða stjórnsýslu. Þetta er mikilvægt í ljósi t.d. fundarpunkts 5.c), þar sem LV lætur verkefnisstjórn beint gögn í té. Um skil gagna skal nánar fjallað í reglugerð skv. 9. gr. laga um verndar- og nýtingaráætlun. HB lagði áherslu á að mikilvægt sé að reglugerðin verði sett sem fyrst, sem og starfsreglur verkefnisstjórnar skv 10. gr. laganna.
 9. Áhyggjuraddir komu fram á fundinum um að ómögulegt gæti reynst að klára mat á virkjunarhugmyndunum átta á settum tíma, m.a. vegna óvissu um hvernig og hve mikið fólki verði greitt fyrir vinnu sína. HHS tók að sér að bera þetta atriði upp í yfirstjórn ráðuneytisins hið fyrsta.
 10. Umræða um hvernig vinnunni skuli háttað fram að skilum. Samkvæmt viðauka við erindisbréf skulu tillögur verkefnisstjórnar að flokkun umræddra átta virkjunarkosta liggja fyrir eigi síðar en 15. febrúar 2014. Þetta þýðir í reynd, að teknu tilliti til lögbundins kynningarferlis, að tillögurnar þurfa að vera nánast tilbúnar 15. október. Tíminn er því mjög knappur.
 11. Fundi slitið kl. 16:05.