Aðferðafræði rammaáætlunar

Öll vinna við rammaáætlun miðar að einu marki - að flokka virkjunarkosti í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokka. Virkjunarkostur er skilgreind framkvæmd til að virkja ákveðinn orkugjafa (vatnsafl, jarðhita, vind) á ákveðnum stað. Aðferðafræði rammaáætlunar er að einhverju leyti í stöðugri þróun og er aðlöguð að viðfangsefnum á hverjum tíma. Grunnurinn er þó ætíð hinn sami. Hér verður vinnulag faghóps 1 í 2. áfanga tekið sem dæmi. Mun ítarlegri lýsingu á aðferðafræðinni má finna í niðurstöðuskýrslu 2. áfanga.

Frá upphafi hafa bæði faghópar og verkefnisstjórn rammaáætlunar leitast við að nota gegnsæja aðferðafræði við vinnu sína, til að tryggja sem best trúverðuga og rökstudda niðurstöðu, svo skoða megi matsferlið eftir á og rekja niðurstöður til baka. Því var nauðsynlegt að þróa aðferðafræði og forsendur matsins strax í upphafi - þ.e. að útbúa sameiginlega mælistiku -  áður en einstakir virkjunarkostir voru teknir til umfjöllunar. Með því móti var tryggt að ólíkir virkjunarkostir væru metnir á sama hátt.

Aðferðir faghópa

Faghópar afmarka áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar og meta verðmæti fjölmargra þátta innan svæðisins með einkunnagjöf miðað við ástand svæðisins fyrir virkjun. Í þeirri vinnu er fengist við svokölluð viðföng, t.d. lífverur og jarðminjar, og undirviðföng, t.d. fiska og fugla. Í faghópi 1 í 2. áfanga voru fimm viðföng tekin fyrir. Einkunnum fyrir undirviðföng var steypt saman í eina fyrir hvert viðfang og síðan var einkunnum fyrir öll viðföng steypt saman í eina heildareinkunn fyrir verðmæti viðkomandi svæðis. Áhrif sem framkvæmdin myndi hafa á þessi viðföng voru einnig metin á sambærilegan hátt.

Faghópar 1 og 2 í 1. og 2. áfanga rammaáætlunar notuðust við svokallaða þrepagreiningu (Analytical Hierarchy Process, AHP) til að raða virkjunarkostum eftir verðmætum.

Aðferðir verkefnisstjórnar

Eins og gefur að skilja verður röðun virkjunarkosta ekki eins í öllum faghópum enda meta faghóparnir mismunandi viðföng. Hlutverk verkefnisstjórnar er að samþætta gögn faghópanna þegar þeir hafa lokið störfum og sameina röðun þeirra á virkjunarkostum í eina endanlega röð. Í 2. áfanga lagði verkefnisstjórnin röðun faghópa 1 og 2 til grundvallar í sinni röðun en notaði álit faghópa 3 og 4 sem viðbótarupplýsingar.

Stöðug þróun

Rammaáætlun er ákveðið frumkvöðlastarf og þegar hafist var handa var engin fullbúin aðferðafræði til sem hentaði íslenskum aðstæðum. Aðferðafræðin hefur því verið í stöðugri þróun og mun væntanlega halda áfram að taka einhverjum breytingum, þó flestar þeirra verði líklega smávægilegar.