55. fundur, 02.12.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða

55. fundur, 02.12.2015, 10:00-14:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Þorleikur Jóhannesson verkfræðingur frá Verkís sat fundinn kl. 10:10-11:40. Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka orkusveitarfélaga og Valur Rafn Halldórsson, starfsmaður samtakanna, sátu fundinn frá kl. 13:00.

 1. Fundur settur kl. 10:10.
 2. Nýtingarhlutfall jarðvarma: Þorleikur Jóhannesson frá Verkís heimsótti verkefnisstjórn f.h. Íslenska jarðvarmaklasans til að ræða nýtingarhlutfall jarðvarma til raforkuframleiðslu, en þetta atriði er meðal þeirra sem verkefnissstjórn er ætlað að fjalla sérstaklega um samkvæmt erindisbréfi. Alla jafna nýtast aðeins um 15% jarðvarmaorku á háhitasvæðum til raforkuframleiðslu og takmarkast þetta af varmafræðilegum lögmálum. Á heitustu svæðum getur nýtingin farið upp í 20%, en í kaldara vatni, t.d. við 120°C, er hlutfallið einungis um 8%. Þannig versnar nýtnin eftir því sem reynt er að vinna raforku úr kaldara vatni. Hægt er að nota vökva með lægra suðumark sem varmaskipti, eða bæta nýtingu vökvans með öðrum hætti, en það er áhættusamt og hefur ekki reynst vel hérlendis. Tæknilega er auðvelt að nýta varmaorkuna í vatni sem er of kalt til raforkuframleiðslu og bæta þannig nýtingu jarðvarmaauðlindarinnar, t.d. til fiskeldis (sbr. Reykjanes), fyrir böð eða ylstrendur (sbr. Nauthólsvík) o.s.frv. Samþykkt var að óska eftir því að Þorleikur taki saman einfaldan texta um þetta efni, að fengnum ábendingum verkefnisstjórnar um efnistök.
 3. Vinnulag verkefnisstjórnar við úrvinnslu á niðurstöðum faghópa: Málið var rætt, m.a. í framhaldi af umræðum á síðasta fundi þar sem Daði Már Kristófersson kynnti greiningar sem hann hefur unnið á gögnum faghóps 2 úr 2. áfanga. M.a. var rætt hvort beita skuli e.s. konar „ítrunaraðferð“ við flokkun virkjunarkosta, þar sem ráðstöfun eins virkjunarkostar getur haft áhrif á einkunnir þeirra sem eftir standa. Með þessu móti væri ákvörðun um röðun virkjunarkosta ekki afgreidd í einu skrefi. Mótun vinnulagsins verður haldið áfram í samráði við formenn faghópa.
 4. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir 1.-7. fundar faghóps 3 liggja nú fyrir á vefnum og voru þær lagðar fyrir fundinn.
 5. Heimsókn Samtaka orkusveitarfélaga: Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps og Valur Rafn Halldórsson komu á fundinn til að kynna sjónarmið Samtaka orkusveitarfélaga. Samtökin hafa m.a. velt fyrir sér mikilvægi þess að raforkuflutningar séu skoðaðir samhliða umfjöllun um virkjunarkosti, enda hafi raforkuflutningar ekki síður áhrif á samfélög en virkunarkostirnir sjálfir, og þá m.a. á samfélög sem eru fjarri virkjunarkostunum sem um ræðir. Einnig var m.a. rætt um vindmyllur og skort á stefnumótun stjórnvalda í þeim málaflokki.
 6. Önnur mál:
  • HB bar fram ósk um að kort af virkjunarkostum verði endurunnið þannig að þar komi fram sú flokkun virkjunarkosta sem þegar liggur fyrir. Samþykkt var að láta útbúa slíkt kort.
  • Ákveðið var að 56. fundur verkefnisstjórnar verði haldinn 16. desember kl. 9:00-17:00 með fundarhléi kl. 11:00-13:30.
 7. Fundi slitið kl. 13:57.

 

Herdís H. Schopka