Aðdragandi á alþjóðavettvangi

Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins árið 1972 markaði tímamót í umhverfismálum. Hún var fyrsta stóra alþjóðaráðstefnan sem snerist fyrst og fremst um umhverfismál og leiddi m.a. til stofnunar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Programme, UNEP) sem hefur allar götur síðan verið leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.

Árið 1989 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ) að halda alþjóðlega ráðstefnu um umhverfi og þróun á árinu 1992 og var ráðstefnunni valinn staður í borginni Ríó de Janeiro. Þá voru liðin 20 ár frá Stokkhólmsráðstefnunni sem fyrr var getið. Aðdragandi þessarar samþykktar var sú mikla umræða sem farið hafði fram innan og utan stofnana SÞ í kjölfar skýrslu Brundtlandnefndarinnar svokölluðu (kennd við formann nefndarinnar, Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs). Skýrslan, „Sameiginleg framtíð okkar“ ("Our Common Future"), kom út árið 1987 og beindi sjónum manna að þeim vanda sem við veröldinni blasti í umhverfismálum. Skýrslan vakti umræðu um nauðsyn þess að láta verkin tala og hrinda í framkvæmd hugmyndum um sjálfbæra þróun. 

Heimsráðstefna SÞ um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro 1992 markaði önnur tímamót í umhverfismálum. Á ráðstefnuna mættu um 100 þjóðarleiðtogar og aldrei fyrr höfðu jafnmargir leiðtogar mætt á einn fund. Þetta segir sitt um hve mjög áhersla á umhverfismál hafði aukist en til samanburðar má nefna að aðeins tveir þjóðarleiðtogar (Svíþjóðar og Indlands) sátu Stokkhólmsráðstefnuna árið 1972. Á ráðstefnunni var Ríóyfirlýsingin samþykkt en hún hefur að geyma grundvallarreglur í umhverfismálum. Einnig var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21 (Agenda 21) sem m.a. endurspeglast hérlendis í Staðardagskrám sveitarfélaga (Local Agenda 21). Hugtakið „sjálfbær þróun“ var sett í öndvegi í samþykktum Ríóráðstefnunnar en í því felst að efnahagsleg og félagsleg velferð mannsins sé byggð á vernd umhverfisins og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda (sjá nánari umfjöllun um sjálfbæra þróun annars staðar á vefsíðunni). Í Ríó var að auki skrifað undir tvo grundvallarsamninga um umhverfismál; Rammasamning um loftslagsbreytingar og Samning um líffræðilega fjölbreytni.