Siðfræði náttúruverndar

Skiptir viðhorf til náttúrunnar máli?

Í almennri umræðu á Íslandi eru hugtökin umhverfi og náttúra oft notuð jöfnum höndum. Hér verður leitast við að fara eftir skilgreiningu Páls Skúlasonar í bók hans Umbreytingu: „Náttúran er sá hluti veruleikans sem er til óháð vitund okkar og vilja, en umhverfið er sá hluti veruleikans sem við mótum með athöfnum okkar og framkvæmdum.“ (bls. 40). Á öðrum stað segir hann: „Náttúran er [...] allt í senn: eðli sem býr í öllum sköpuðum hlutum, öflin sem ráða gerð allra hluta, og heildin sem birtir eðli og öfl hinna sköpuðu hluta.“ (bls. 34) og „Umhverfið er þá hin ytri náttúra umsköpuð af tæknilegu valdi mannsins. Segja má að efnið, sem umhverfið er gert úr, sé fengið frá náttúrunni, en form þess komi frá mönnum.“ (bls. 35).

Í íslenskum lögum er annar skilningur á þessum hugtökum. Þar er orðið umhverfi notað yfir heildina, bæði náttúrulega og mannlega þætti, en náttúra er notað um þau fyrirbæri náttúrunnar sem eru ósnortin af mannlegum þáttum. 

Siðferðilegt gildi náttúrunnar

Sýn fólks á náttúruna stjórnast af ákveðnum grundvallaratriðum sem hafa gríðarleg áhrif á alla umræðu um náttúruvernd. Mest ber á tveimur mismunandi viðhorfum til þess hvað gefi náttúrunni gildi eða hvaðan gildi hennar sé sprottið. Páll Skúlason lýsir þeim svona í bók sinni, Umhverfing (bls. 14):

Skiptir einvörðungu réttur manna og hagsmunir máli þegar umhverfis- og náttúruvernd er í húfi - eða má tala um rétt og hagsmuni lífvera og jafnvel heilla vistkerfa? Með öðrum orðum, mega menn siðferðilega séð gera hvað sem þeim sýnist í náttúrunni svo fremi þeir skaði ekki aðra menn - eða höfum við beinar siðferðisskyldur gagnvart náttúrunni og fyrirbærum hennar öðrum en manninum?

Þarna er lýst í fyrsta lagi svokölluðum mannhverfum gildum (e. anthropocentric value) og í öðru lagi visthverfum gildum (e. ecocentric value). Samkvæmt mannhverfum gildum felst verðmæti náttúrunnar í því hvernig hún nýtist eða þjónar manninum (t.d. sem uppspretta matar og hráefna til iðnaðar og bygginga). Vistkerfi og lífverur jarðarinnar eru sett í öndvegi í visthverfri sýn á verðmæti náttúru, þannig að þarfir mannsins eru látnar víkja fyrir þörfum hinnar lifandi náttúru. Í þriðja lagi ber að nefna að í hugum margra hefur náttúran eigingildi (e. intrinsic value) sem felst í því að gildi náttúrunnar er óháð manninum og þörfum hans eða þörfum annarra lífvera - hún hefur gildi í sjálfri sér og tilvistarréttur hennar þarfnast engra réttlætinga. Þetta síðastnefnda viðhorf felur ekki í sér að alla náttúru beri að vernda eða að náttúran sé skyni gædd - einungis að hún hafi eigingildi sem er alveg óháð notagildi fyrir menn og lífverur.

Afstaða Íslendinga til náttúrunnar og umhverfisins

Samkvæmt rannsóknum Dr. Þorvarðar Árnasonar, heimspekings og líffræðings, á umhverfisvitund Íslendinga eru Íslendingar stoltir af náttúru landsins og telja hana vera helsta sameiningartákn þjóðarinnar, umfram bæði fánann og tungumálið. Um 90% Íslendinga telja sig tilheyra einhverjum hópi umhverfisverndarsinna. Þar af skilgreina um 30% sig sem landgræðslusinna og önnur rúm 20% skilgreina sig sem náttúruverndarsinna.

Samanburður á umhverfisvitund Íslendinga, Svía og Dana leiðir í ljós að hún er nokkuð svipuð hjá þjóðunum þremur. Umhverfisvitund Íslendinga er öflug en þekking fólks á umhverfismálum hins vegar yfirleitt nokkuð slæleg. Íslendingar eru mun líklegri en Svíar og Danir til að sjá náttúru lands síns sem ófrjósama, óblíða og hættulega, og þarf sú niðurstaða ekki að koma mikið á óvart í ljósi ólíks náttúrufars í þessum löndum.

Íslendingar telja í sama mæli og frændur þeirra að tilgangur náttúruverndar sé fyrst og fremst að tryggja lífsgæði og afkomu mannkyns. Hins vegar eru Íslendingar töluvert ólíklegri en frændurnir til að telja manninn sem tegund hafa rétt til að nota auðlindir jarðar eins og honum sýnist. Íslendingar eru einnig líklegri en Danir og Svíar til að telja náttúruna hafa eigingildi. Hins vegar eru Danir og Svíar líklegri en við Íslendingar til að finna til samhygðar með náttúrunni og Íslendingar eru mun líklegri en Danir og Svíar til að telja manninn hafa meiri rétt en aðrar lífverur jarðarinnar. Þarna má greina ákveðna þversögn í viðhorfum Íslendinga til náttúrunnar.

Ein af athyglisverðari niðurstöðum Þorvarðar varðandi umhverfisvitund Íslendinga er sú að hvað umhverfismál snertir eru hegðun og skoðanir fólks í samræmi við það gildi sem fólk telur náttúruna hafa - mannhverf gildi, visthverf gildi eða eigingildi. Þetta gildismat reyndist hafa miklu meiri forspárgildi um hegðun og skoðanir fólks á umhverfismálum en efnahagsleg og fjárhagsleg staða, menntun eða stjórnmálaskoðanir. Samanburður á niðurstöðum fimm kannana á umhverfisvitund Íslendinga yfir tímabilið 1987-2003 leiddi svo í ljós að bein fylgni er milli atvinnuleysis og þess hve miklu máli þátttakendur telja umhverfismál skipta - þegar betur árar var fólk almennt jákvæðara út í umhverfisvernd.

 

Heimild: Þorvarður Árnason. 2005. Views of Nature and Environmental Concern in Iceland. Linköping Studies in Arts and Science 339. Linköping, Sweden: Institutionen för Tema, Linköpings universitet. 175 s.