37. fundur, 21.01.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

37. fundur, 21.01.2015, 12:00-13:30

Orkustofnun

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Elín R. Líndal (ERL) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

  1. Fundur settur kl. 12:17.   
  2. Fundargerðir faghópa: Fundargerð 4. fundar faghóps 2 var lögð fram. Þar kom m.a. fram að   Jóhannes Sveinbjörnsson hefði sagt sig úr hópnum vegna anna.  
  3. Fjármál faghópa: SG gerði grein fyrir gangi viðræðna milli UAR og formanna faghópanna. Þær standa enn yfir, en vonast er til að lausn sé í sjónmáli. Óvissa um fjármál faghópanna hefur komið sér illa fyrir starf verkefnisstjórnar og valdið talsverðum töfum.  
  4. Ferðamennska eða ferðaþjónusta: Á 34. fundi verkefnisstjórnar 9. des. sl. var tekin fyrir ábending frá Önnu Dóru Sæþórsdóttur, formanni faghóps 2, um að skerpa þyrfti á orðalagi í skipunarbréfi faghóps 2 varðandi það hvort hópnum sé aðeins ætlað að fjalla um virkjunarkosti út frá „ferðaþjónustu“ eða hvort umfjöllunin eigi að taka til „ferðamennsku“ almennt. Hugtakið „ferðaþjónusta“ nái yfir atvinnugreinina sem þjónustar ferðamenn en hugtakið „ferðamennska“ sé mun víðtækara og nái yfir athafnir ferðamanna. Anna Dóra hefur einnig óskað eftir svari verkefnisstjórnar við því hvort faghópi 2 sé ætlað að leggja mat á hlunnindi, en hlunnindi eru ekki sérstaklega tilgreind í skipunarbréfi hópsins. Á fundinum 9. des. var endanlegri afgreiðslu frestað til næsta fundar. Verkefnisstjórn er sammála um að umfjöllun faghóps 2 eigi að taka til ferðamennsku almennt, þ.m.t. ferðaþjónustu og útivistar, svo og um að fjalla beri um hlunnindanýtingu. Hins vegar telur verkefnisstjórn ekki ástæðu til að breyta skipunarbréfi hópsins, enda gefi orðalag skipunarbréfsins færi á víðri túlkun.  
  5. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Formaður lagði fram minni háttar breytingartillögur við drög að starfsreglum í framhaldi af umræðu á fundi verkefnisstjórnar 9. des. sl. Samþykkt var að yfirfara orðalag 5. og 6. gr. enn frekar áður en starfsreglurnar verða samþykktar, einkum m.t.t. verklags við gagnaöflun varðandi náttúrufar og menningarminjar.  
  6. Erindi Suðurorku um meint vanhæfi ÞEÞ við umfjöllun um Búlandsvirkjun: Lagt var fram bréf frá Suðurorku ehf., dags. 18. des. 2014, þar sem óskað er eftir því að Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjalli ekki um Búlandsvirkjun við vinnslu 3. áfanga rammaáætlunar, þar sem hún sé vanhæf með vísan til töluliðar 1 og 6 í 3. gr. Stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samþykkt var að fela formanni að taka málið upp við UAR. 
  7. Næstu skref: Listi Orkustofnunar yfir 88 virkjunarkosti sem stofnunin leggur fram til umfjöllunar í þriðja áfanga rammaáætlunar var birtur á heimasíðu stofnunarinnar 20. janúar, ásamt með gögnum fyrir 50 þessara kosta. Verkefnisstjórn mun funda með OS um gagnaafhendinguna strax að þessum fundi loknum. Verkefnisstjórn telur ólíklegt að takast megi að fjalla á fullnægjandi hátt um svo marga kosti á þeim tiltölulaga skamma tíma sem til ráðstöfunar er, en tillögur verkefnisstjórnar þurfa að liggja fyrir í því sem næst endanlegri mynd á fyrstu vikum næsta árs. Samþykkt var að fela formanni að móta tillögu um hugsanlega forgangsröðun virkjunarkostanna í samráði við sérfræðinga UAR og leggja hana fram á næsta fundi verkefnisstjórnar 29. janúar nk. Í framhaldi af þessu var rætt hvort ekki væri ástæða til þess á þessum tímamótum að halda blaðamannafund til að kynna starfið framundan og gera grein fyrir því sem á undan er gengið.  
  8. Fundi slitið kl. 13:35.


Herdís H. Schopka