16. fundur, 22.11.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

16. fundur, 22.11.2013, 08:00-10:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Guðni A. Jóhannesson (GAJ) varamaður Helgu Barðadóttur, Elín R. Líndal (ERL), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

  1. Fundur settur kl. 08:15.
  2. Umsagnir stofnana um fyrirliggjandi gögn voru teknar til meðferðar á fundinum. Efnislega sögðu tvær umsagnanna að gögnin væru næg til að framkvæma mat á öllum þremur virkjunarkostunum. Náttúrufræðistofnun Íslands taldi fyrirliggjandi gögn nægileg til að leggja mat á Hvammsvirkjun en ekki til að leggja mat á Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. Ferðamálastofa hins vegar taldi gögnin ekki vera næg enda hafi algjörlega skort gögn um ferðamennsku. Eftir nokkrar umræður komst verkefnisstjórnin að þeirri niðurstöðu að telja yrði fyrirliggjandi gögn nægjanleg, í það minnsta hvað Hvammsvirkjun varðar. Ekki væri nauðsynlegt að afla frekari gagna um ferðamennsku á þessu stigi, enda hefði verkefnisstjórninni eingöngu verið falið að taka afstöðu til áhrifa virkjananna á laxinn í Þjórsá. 
  3. Tillaga um flokkun: SG lagði til, með vísan í fyrirliggjandi gögn og niðurstöðu faghópsins, að Hvammsvirkjun yrði sett í orkunýtingarflokk en að ekki yrði gerð tillaga á þessu stigi málsins um hina tvo virkjunarkostina. GAJ lýsti þeirri skoðun sinni að gögnin væru nægileg til að setja Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk en til að setja hina tvo virkjunarkostina í orkunýtingarflokk þyrfti Landsvirkjun að bæta markmiðum við gögn sín, þ.e., hvaða markmiðum um viðgang laxfiskastofna fyrirtækið ætlaði sér að ná og hvernig ætti að bregðast við ef þau markmið næðust ekki. ÞEÞ og SG bentu á að einnig vantaði grunnupplýsingar um náttúrufar í ánni, þ.e. botngerð og búsvæði. ÞEÞ minnti  á ábendingar Skúla Skúlasonar og Haraldar Invarssonar um að áætlanir um mótvægisaðgerðir hefðu tekið breytingum og að endurskoðun og viðbætur sem finna mætti í ýmsum skýrslum hefðu ekki allar skilað sér í formlegar tillögur Landsvirkjunar. GAJ benti í því samhengi á að ekki væri skynsamlegt að yfirvöld gerðu of strangar kröfur um nákvæmlega hvaða tæknilegu lausnir yrðu notaðar, heldur bæri að setja þá ábyrgð á herðar framkvæmdaraðila að nota BAT (Best Available Technology). Að loknum umræðum var tillaga formanns samþykkt af öllum fulltrúum í verkefnisstjórn að ERL frátalinni. Hún lagði fram sérálit þess efnis að allir virkjunarkostirnir þrír fari í orkunýtingarflokk. 
  4. Greinargerð: Ákveðið var að skrifa greinargerð með drögum að tillögunni þar sem lýst væri ferlinu sem leiddi til hennar, svo og því ferli sem hæfist með birtingu draganna. HHS var falið að skrifa þá greinargerð í samvinnu við SG. 
  5. Drög að reglugerð og umsögn verkefnisstjórnar um hana: Frestað til næsta fundar.
  6. Ákveðið var að halda næsta fund fimmtudaginn 28. nóvember kl. 13-16.
  7. Fundi slitið kl. 10:15.

 

Herdís H. Schopka