Milli 2. og 3. áfanga, 2011-2013

Rammaáætlun í meðferð Alþingis

Verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar skilaði niðurstöðu sinni til iðnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra í júní 2011. Lauk þar með störfum verkefnisstjórnarinnar. Við tók gerð tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun. Tillöguna unnu starfsfólk iðnaðarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, með liðsinni formanna faghópa úr 2. áfanga. Tillagan var unnin á grundvelli niðurstöðuskýrslu verkefnisstjórnar og laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. 

Drög að þingsályktunartillögu voru send í 12 vikna opið kynningarferli sem hófst 19. ágúst og lauk 11. nóvember 2011. Alls bárust 225 umsagnir. Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli, í samvinnu við þann ráðherra sem fer með orkumál, leggja fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eftir að umsagnarferlinu lauk höfðu þessir tveir ráðherrar samráð við ýmsa fagaðila, svo og þingmenn stjórnarflokkanna, um úrvinnslu umsagnanna og endanlegan frágang þingsályktunartillögunnar.

Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun var lögð fram á Alþingi 31. mars 2012. Ekki náðist að afgreiða hana fyrir þinglok og hún var því flutt aftur á næsta þingi þar sem hún var samþykkt þann 14. janúar 2013. Efni þingsályktunarinnar er kynnt hér.

Samkvæmt 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 48/2011 lét ráðherra "skipa vinnuhóp til að skoða og gera tillögu um aðferðafræði við að meta verðgildi náttúrunnar". Hópurinn, sem skipaður var þeim Brynhildi Davíðsdóttur, Daða Má Kristóferssyni og Sigurði Jóhannessyni, skilaði skýrslu síðla árs 2013.