24. fundur, 20.03.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða

24. fundur, 20.03.2014, 10:40-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Hildur Jónsdóttir (HJ), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

 1. Fundur settur kl. 10:40. 
 2. Umsagnir um tillögu verkefnisstjórnar: 
  1. Verkefni fundarins var að fara í gegnum umsagnir um tillögu verkefnisstjórnar frá 19. desember 2013 um flokkun virkjunarkosta, taka afstöðu til þess hvort eitthvað kæmi fram í umsögnunum sem gæfi tilefni til að endurskoða tillöguna áður en hún yrði afhent ráðherra, og að lokum að vinna drög að endanlegri tillögu. Skilafrestur tillögu til ráðherra var á hádegi föstudag 21. mars 2014 samkvæmt skilaboðum frá aðstoðarmanni ráðherra. 
  2. Alls bárust 33 umsagnir í almennu umsagnarferli sem hófst 19. desember 2013 og lauk á miðnætti 19. mars 2014. Ákveðið var að taka umsagnir fyrir í stafrófsröð og svara þeim á grunni efnisatriða frekar en hverri umsögn fyrir sig. Fundarmenn fóru sameiginlega yfir hverja og eina umsögn, greindu helstu efnisatriði og tóku afstöðu til þeirra. 
  3. Á fundinum var ákveðið að byggja greinargerð með endanlegri tillögu á greinargerðinni frá 19. desember, að viðbættri umfjöllun um innsendar umsagnir og afstöðu verkefnisstjórnar til þeirra. HHS og SG var falið að laga greinargerðina að þessu og koma henni til verkefnisstjórnar snemma næsta morgun. Fulltrúar í verkefnisstjórn fengju svo tíma fram til kl. 10:00 til að leggja til breytingar í skjalinu áður en frá því yrði gengið til endanlegrar afhendingar til ráðherra stundvíslega kl. 12 á hádegi. 
  4. Meginniðurstaða verkefnisstjórnar var sú að í umsögnum hefðu ekki komið fram upplýsingar sem gæfu tilefni til efnislegrar endurskoðunar tillögunnar. 
 3. Næsti fundur verður haldinn í byrjun apríl. Fundartími verður ákveðinn með doodle-könnun, t.d. 2.-4. apríl eða dagana þar á eftir. 
 4. Fundi slitið kl. 16:00.


Herdís H. Schopka