59. fundur, 18.02.2016

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

59. fundur, 18.02.2016, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Skúli Skúlason og Anna Dóra Sæþórsdóttir, formenn faghópa 1 og 2, sátu fundinn kl. 10.00-11:50.

 1. Fundur settur kl. 09:10.
 2. Breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar: Umhverfisráðuneytið hefur lagt fram tillögur til breytinga á starfsreglum verkefnisstjórnar. Tillögurnar voru birtar á heimasíðu ráðuneytisins 2. febrúar sl. og frestur gefinn til 12. febrúar til að skila inn umsögnum. Sá frestur hefur nú verið framlengdur til 22. febrúar. Breytingarnar sem lagðar eru til eru í nokkrum tilvikum mjög frábrugðnar þeim sem kynntar voru fyrir verkefnisstjórn þann 11. janúar sl. og sem verkefnisstjórn gaf umsögn um 15. janúar, sjá einnig fundargerð 58. fundar. Munar þar mestu um gjörbreytt ákvæði 8. greinar starfsreglnanna um forsendur fyrir endurmati virkjunarkosta sem gildandi áætlun nær til. Samkvæmt lögfræðiáliti dags. 7. febrúar, sem Áslaug Árnadóttir hdl. vann fyrir verkefnisstjórn, leikur vafi á að þetta og önnur tiltekin ákvæði í breytingartillögunum hafi stoð í lögum. Verkefnisstjórn gerir verulegar athugasemdir við fyrirliggjandi breytingartillögur og óskar eftir að vera höfð með í ráðum við endanlegan frágang starfsreglnanna.
 3. Aðferðafræði við lokafrágang: Rifjaðar voru upp fyrri umræður og ákvarðanir um aðferðafræði við lokafrágang. Engar nýjar tillögur um aðferðafræðina lágu fyrir fundinum.
 4. Niðurstöður faghópa: Skúli Skúlason og Anna Dóra Sæþórsdóttir, formenn faghópa 1 og 2, komu á fund verkefnisstjórnar kl. 10. Faghópar skiluðu drögum að niðurstöðum sínum 17. febrúar. Rætt var um niðurstöðurnar og kosti og galla aðferðafræðinnar sem faghóparnir notuðu. Verkefnisstjórn mun ljúka úrvinnslu úr niðurstöðunum fyrir 30. mars nk.
 5. Hagkvæmni virkjunarkosta: Lagt var fram erindi frá Samorku, dags. 29. janúar 2016, þar sem fram kemur að á vegum samtakanna sé unnið að samantekt á vegnum meðalkostnaði orkukosta (e. levelized cost of energy (LCOE)) sem ætlað er að dýpka samanburð á hagkvæmni mismunandi virkjanakosta, án þess þó að um sé að ræða nýjar upplýsingar frá orkufyrirtækjunum. Vinnan við samantektina er á lokastigi og hefur Samorka boðið verkefnisstjórn kynningu á niðurstöðunum. Samþykkt var að þiggja boð um að fulltrúi samtakanna komi á fund verkefnisstjórnar á næstunni til að kynna niðurstöðurnar.
 6. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir nr. 26-29 frá faghópi 2 liggja fyrir á heimasíðu rammaáætlunar og voru lagðar fram á fundinum.
 7. Fundaáætlun næstu vikna: Samþykkt var eftirfarandi fundaáætlun fyrir næstu vikur: 
  • 60. fundur, miðvikudag 24.02. kl. 13-17
  • 61. fundur, þriðjudag 01.03. kl. 13-17
  • 62. fundur, fimmtudag 03.03. kl. 09-22
  • 63. fundur, föstudag 04.03. kl. 09-14
  • 64. fundur, mánudag 14.03. kl. 09-12
  • 65. fundur, þriðjudagur 22.03. kl. 09-22 
  • 66. fundur, miðvikudag 30.03. kl. 13-17.
 8. Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.
 9. Fundi slitið kl. 12:05.


Herdís H. Schopka