Sjálfbær þróun

Lykilhugtak í hugmyndafræði rammaáætlunar

Samkvæmt 1. grein laga um rammaáætlun ber að hafa „... sjálfbæra þróun að leiðarljósi“ í allri vinnu við rammaáætlun. Hugtakið „sjálfbær þróun“ er íslensk þýðing á enska orðasambandinu „sustainable development“. Í stuttu máli má segja að sjálfbær þróun sé viðleitni til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Eða, eins og þetta er orðað í skýrslu Brundtland-nefndarinnar:

Development that meets the needs of the present without compromising the ability of future generations to meet their own needs.

— úr skýrslu Brundtland-nefndarinnar, Our Common Future (Oxford: Oxford University Press, 1987).

Sjálfbær þróun er lykilhugtak í allri umræðu samtímans um þróunar- og umhverfismál. Hér verða þessu mikilvæga hugtaki ekki gerð tæmandi skil en rétt er að gera örlitla grein fyrir því, enda lykilhugtak í allri hugmyndafræði rammaáætlunar.

Sjálfbærni í alþjóðlegu samhengi - seinni hluti 20. aldar

Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins árið 1972 markaði tímamót í umhverfismálum. Hún var fyrsta stóra alþjóðaráðstefnan sem snerist fyrst og fremst um umhverfismál og leiddi m.a. til stofnunar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Programme, UNEP) sem hefur allar götur síðan verið leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.

Árið 1989 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ) að halda alþjóðlega ráðstefnu um umhverfi og þróun á árinu 1992 og var ráðstefnunni valinn staður í borginni Ríó de Janeiro. Þá voru liðin 20 ár frá Stokkhólmsráðstefnunni sem fyrr var getið. Aðdragandi þessarar samþykktar var sú mikla umræða sem farið hafði fram innan og utan stofnana SÞ í kjölfar skýrslu Brundtlandnefndarinnar svokölluðu (kennd við formann nefndarinnar, Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs). Skýrslan, „Sameiginleg framtíð okkar“ ("Our Common Future"), kom út árið 1987 og beindi sjónum manna að þeim vanda sem við veröldinni blasti í umhverfismálum og vakti umræðu um nauðsyn þess að láta verkin tala og hrinda í framkvæmd hugmyndum um sjálfbæra þróun. 

Heimsráðstefna SÞ um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro 1992 markaði önnur tímamót í umhverfismálum. Á ráðstefnuna mættu um 100 þjóðarleiðtogar og aldrei fyrr höfðu jafnmargir leiðtogar mætt á einn fund. Þetta segir sitt um hve mjög áhersla á umhverfismál hafði aukist en til samanburðar má nefna að aðeins tveir þjóðarleiðtogar (Svíþjóðar og Indlands) sátu Stokkhólmsráðstefnuna árið 1972. Á ráðstefnunni var Ríóyfirlýsingin samþykkt en hún hefur að geyma grundvallarreglur í umhverfismálum. Einnig var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21 (Agenda 21) sem m.a.  endurspeglast hérlendis í  Staðardagskrám sveitarfélaga (Local Agenda 21). Hugtakið „sjálfbær þróun“ var sett í öndvegi í samþykktum Ríó-ráðstefnunnar en í því felst að efnahagsleg og félagsleg velferð mannsins sé byggð á vernd umhverfisins og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Í Ríó var að auki skrifað undir tvo grundvallarsamninga um umhverfismál; Rammasamning um loftslagsbreytingar og Samning um líffræðilega fjölbreytni.

Stoðir sjálfbærrar þróunar

Í hugtakinu „sjálfbær þróun“ felst meira en einungis áhersla á umhverfismál og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda. Oft er talað um þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar. Þær eru samfélagsmál, efnahagur og náttúra. Þessar stoðir tengjast allar innbyrðis.

Áður en sjálfbær þróun kom fram sem hugmyndafræði var efnahagslegum sjónarmiðum yfirleitt gefið meira vægi en samfélags- og umhverfislegum sjónarmiðum í ákvarðanatöku fyrirtækja og stjórnvalda. Á fyrstu árum umræðunnar um sjálfbæra þróun var lögð áhersla á að þessir þrír þættir væru allir jafnmikilvægir en nú til dags er almennt viðurkennt að náttúran og umhverfið setji umsvifum mannfólks mjög ákveðnar skorður bæði í samfélagslegu og efnahagslegu tilliti. Eins og lýst er í samantekt á heimasíðu Háskóla Íslands stendur mannkyn allt „...frammi fyrir flóknu samfélagslegu verkefni ef takast á að sætta hugmyndir fólks og væntingar um „hið góða líf“ við takmörk náttúrunnar.“

Það sem helst greinir sjálfbæra þróun frá annars konar hugmyndafræði um æskilega framvindu samfélaga er áhersla á heildarsýn og langtímahugsun. 

Sterk og veik sjálfbærni

Sjálfbærni er víðfeðmt hugtak og áherslur mismunandi. Þannig er oft greint á milli veikrar og sterkrar sjálfbærni. 

Í sterkri sjálfbærni felst að athöfn eða framkvæmd sú sem um ræðir hafi engin neikvæð áhrif á neina af hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. hvorki á samfélag, efnahag né náttúru.

Veik sjálfbærni felur hins vegar í sér að athöfnin eða framkvæmdin megi hafa neikvæð áhrif á eina af stoðunum þremur, svo framarlega sem verulegur ávinningur fylgi fyrir hinar tvær. Í framkvæmd þýðir þetta t.d. að umhverfisgæði megi rýrna ef hagnaðurinn af framkvæmdinni er notaður til að styrkja efnahag eða samfélagsinnviði. 

Heildarsýn og langtímahugsun

Sjálfbær þróun kallar á að við íhugum afleiðingar gjörða okkar í mun stærri samhengi en flest okkar gera dags daglega - hún kallar eftir heildarsýn, þ.e. að við skoðum málin frá sem allra flestum hliðum og reynum að sjá fyrir afleiðingar ákvarðana sem við tökum í sem víðustu samhengi. Efnisleg gæði Jarðar eru ekki til í óendanlegu magni (hreint vatn, víðerni, málmar, jarðefnaeldsneyti o.s.frv.) og því mun neysla okkar á einhverjum þessara gæða óhjákvæmilega leiða til þess að einhver annar geti ekki notið þeirra, hvort sem það er í dag eða í fjarlægri framtíð. Þannig hefur neysla okkar á náttúruauðlindum áhrif á möguleika annarra til að neyta þeirra síðar. Þetta heildræna sjónarmið er einn af grunnþáttunum í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Mannkynið er nú, í upphafi 21. aldarinnar, orðinn að því náttúruafli sem hefur mest áhrif á yfirborð Jarðar. Öll rofferli náttúrunnar samanlögð (ár, jöklar, skriðuföll o.s.frv.) flytja minna magn efnis um yfirborð Jarðar en maðurinn með sínum tækjum og tólum. Allar plöntur Jarðarinnar samanlagt ná ekki að binda jafnmikið magn köfnunarefnis úr andrúmsloftinu og áburðarverksmiðjur gera. Fjöldamörg önnur dæmi má nefna þar sem manngerð ferli hafa tekið fram úr náttúrulegum ferlum bæði hvað hraða og umfang snertir. Manngerð efni sem við dælum út í umhverfið bæði viljandi og óviljandi hafa mikil áhrif, ekki síst á lífríkið. Æ færri landsvæði eru ósnortin af athöfnum okkar. Áhrif okkar á Jörðina eru því gríðarmikil og þeirra mun verða vart um tugþúsundir ára, jafnvel þótt mannfólkið hyrfi af yfirborði Jarðar á morgun. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að gera langtímahugsun hátt undir höfði þegar ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið.


Ríkisvaldið hefur mjög komið að innleiðingu og kynningu á sjálfbærri þróun í íslensku samfélagi. Á vef umhverfisráðuneytisins er m.a. að finna sérstakan verkefnaflokk um sjálfbæra þróun og nokkur rit og skýrslur sem fjalla á einn eða annan hátt um sjálfbæra þróun, m.a. ritin Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til ársins 2020 og Velferð til framtíðar - sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Áherslur 2006-2009.