Afdrif 3. áfanga rammaáætlunar

Þegar verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar var skipuð hafði þingsályktunartillaga byggð á tillögu að flokkun virkjunarkosta frá verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar verið lögð fyrir Alþingi í tvígang en ekki hlotið afgreiðslu. Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða fyrir Alþingi þann 1. september 2016. Ekki náðist að afgreiða tillöguna áður en stjórnarskipti urðu í janúar 2017. Björt Ólafsdóttir sem tók við lagði tillöguna fram fyrir 146. löggjafarþingið 2016-2017. Aftur urðu stjórnarslit áður en Alþingi hafði afgreitt tillöguna.

Þegar verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar hóf störf vorið 2017 var ekki von á öðru en að Alþingi afgreiddi niðurstöður 3. áfanga rammaáætlunar sem þingsályktunartillögu áður en langt um liði. Ekki kom þó til þess. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði tillögu til þingsályktunar um flokkun virkjunarkosta fyrir Alþingi á haustþingi 2020. Svo fór að skipunartíma verkefnisstjórnar 4. áfanga lauk án þess að tillögur verkefnisstjórnar 3. áfanga hlytu afgreiðslu Alþingis. Þessi staða setti óneitanlega sterkan svip á allt starf við 4. áfanga áætlunarinnar.