25. fundur, 03.04.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

25. fundur, 03.04.2014, 14:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Hildur Jónsdóttir (HJ), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

1. Fundur settur kl. 14:03.

2. Tillaga til þingsályktunar sem unnin var upp úr tillögu verkefnisstjórnar frá 21. mars sl. var lögð fram á Alþingi 31. mars sl. og verður tekin á dagskrá þingsins fyrir sumarfrí ef tími leyfir.

3. Lögfræðiálit UAR, dags. 12. mars 2014, um álitaefni varðandi auglýsingu Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar var rætt, ekki síst í samhengi við lista Orkustofnunar yfir virkjunarkosti frá 10. mars sl.

4. Listi Orkustofnunar yfir virkjunarkosti í 3. áfanga:  Ræddur var listi Orkustofnunar sem sendur var til verkefnisstjórnar með bréfi dags. 10. mars 2014. Samkvæmt listanum leggur Orkustofnun samtals 91 virkjunarkost fyrir verkefnisstjórn til umfjöllunar í 3. áfanga. Á þessu stigi inniheldur erindi Orkustofnunar aðeins grunnupplýsingar, enda enn beðið eftir leiðsögn í formi reglugerðar um þær forsendur sem leggja skuli til grundvallar umfjölluninni. Af virkjunarkostum á listanum eru 49 í vatnsafli, 38 í jarðvarma og fjórir í vindorku. Alls höfðu virkjunaraðilar sent inn beiðni um umfjöllun um 42 virkjunarkosti, en Orkustofnun hafði bætt við 49 öðrum kostum. Á listanum eru m.a. 13 virkjunarkostir í orkunýtingarflokki skv. gildandi rammaáætlun og 19 kostir í verndarflokki. Þá eru á listanum 30 kostir í biðflokki, auk 29 nýrra kosta.

Í umræðum kom fram að erfitt gæti reynst að ljúka umfjöllun um svo mikinn fjölda virkjunarkosta á starfstíma núverandi verkefnisstjórnar.  Fundarmenn veltu því m.a. fyrir sér hvort rétt sé undir slíkum kringumstæðum að fjalla um og meta virkjunarkosti sem enginn virkjunaraðili er á bak við. Ekki verður þó séð að verkefnisstjórn geti neitað að fjalla um slíka kosti. Hvernig sem á málið er litið telur verkefnisstjórn líklegt að grípa þurfi til einhvers konar forgangsröðunar. Einnig er mögulegt að óskir eða fyrirmæli um slíka forgangsröðun komi frá ráðherra.

SG minnti á að hugsanlega gætu einhverjir virkjunarkostir fallið út af lista Orkustofnunar vegna ófullnægjandi gagna þegar væntanleg reglugerð um virkjunarkosti liggur fyrir. Endanlegur listi virkjunarkosta muni ekki verða til fyrr en ljóst er hvaða virkjunarkostir uppfylli gagnakröfur reglugerðarinnar. Þegar hinn endanlegi listi liggi fyrir þurfi verkefnisstjórn að ákveða, m.a. með hliðsjón af lögfræðiáliti UAR, hvort allir kostirnir á þeim lista verði teknir til mats eður ei.

Rætt var um aðferðafræði faghópa og mikilvægi röðunar, m.a. með hliðsjón af þeirri stöðu sem upp mun koma einhvern tímann í framtíðinni að öllum virkjunarkostum hafi verið raðað í orkunýtingarflokk eða verndarflokk, þannig að engir kostir verði eftir í biðflokki. Ef fram kæmu á þeim tíma óskir um að t.d. tveir nýir virkjunarkostir yrðu teknir til umfjöllunar væri verkefnisstjórn þess tíma vandi á höndum, þar sem ekki er mögulegt að raða tveimur eða mjög fáum kostum með þeim aðferðum sem beitt var við röðun hinna kostanna. Bent var á þann möguleika að skilgreina þá einhvera tiltekna virkjunarkosti í nýtingarflokki og verndarflokki sem „vörður“, sem hægt væri að meta nýja kosti út frá.

5. Reglugerð um virkjunarkosti: Uppfærð drög að reglugerð með athugasemdum frá ANR voru yfirfarin og gerð tillaga um minni háttar breytingar.

6. Starfsreglur verkefnisstjórnar: SG kynnti ný drög að starfsreglum. Ákveðið var að hann myndi halda áfram vinnu við drögin og leggja þau fyrir næsta fund verkefnisstjórnar.

7. Erindisbréf verkefnisstjórnar: ÞEÞ vakti athygli á fyrsta punkti á bls. 2 í erindisbréfi verkefnisstjórnar. Hann hljóðar svo:

Verkefnisstjórnin vinni með þætti sem liggja til grundvallar mats á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu, þ.á m. sjálfbærni orkuvinnslunnar, áhrif nýtingar á grunnvatn, mengun lofts af völdum bennisteinsvetnis og annarra lofttegunda, hugsanleg áhrif á lýðheilsu og jarðskjálftavirkni í tengslum við niðurdælingu og nýtingarhlutfall jarðvarma til raforkuframleiðslu.

Ekki liggur fyrir hvernig verkefnisstjórn hyggst vinna með þessa þætti. Ákveðið var að taka málið upp aftur við fyrsta tækifæri.

8. Verklag verkefnisstjórnar við frágang á tillögu hennar 21. mars sl.: HB lýsti óánægju sinni með verklag við frágang á greinargerð með tillögu verkefnisstjórnar. Á síðustu stundu hefði verið bætt inn í greinargerðina ákveðnu atriði sem oft hefði verið rætt á fundum og enginn samhljómur var um innan hópsins. Formaður rifjaði upp að á fundi verkefnisstjórnar 20. mars hefði verið ákveðið að fulltrúar í verkefnisstjórn myndu skila breytingartillögum við greinargerðina til formanns í síðasta lagi kl. 10:00 21. mars. Umrædd viðbót hefði verið sett inn í skjalið fyrir þann tíma með sama hætti og allar aðrar breytingartillögur sem bárust. Athugasemdir við viðbótina hefðu hins vegar ekki komið fram fyrr en 15 mínútum fyrir endanleg skil. Vegna tímaskorts var þá ekki mögulegt að leita eftir samþykki allra í verkefnisstjórninni á endanlegum texta.

Fundarmenn voru sammála um að afar óheppilegt væri að tími til að ganga frá mikilvægum skjölum frá verkefnisstjórn til yfirvalda væri jafnskammur og raun bar vitni og skyldi allt kapp lagt á að slík tímapressa myndi ekki endurtaka sig.

9. Næsti fundur var ákveðinn þriðjudaginn 15. apríl kl. 14-16.

10. Fundi slitið kl. 16:03.

 

Herdís H. Schopka