1. fundur faghóps 4, 04.07.2019

Fundarfrásögn

Faghópur 4

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

1. fundur , 4. júlí 2019, kl. 2 eftir hádegi 

í húsnæði Hagfræðistofnunar, st. 312 í Odda.


Fundargerð.

Á fundinum var allur faghópurinn: Brynhildur Davíðsdóttir, Daði Már Kristófersson og Sigurður Jóhannesson, sem ritaði fundargerðina.

Dagskrá:

  1. Starfið í sumar og haust. Rætt var um að sumar og haust yrði notað til þess að lýsa aðferð við efnahagslegt mat á virkjunarkostum, sem nýtast mundi í starfi rammaáætlunar í framtíðinni. Sigurður lagði fram yfirlit um aðferðir. Efni þess var rætt og framsetningu breytt í nokkrum atriðum. Samþykkt að leggja það fyrir verkefnisstjórn. Yfirlitið fer hér á eftir í þeirri mynd sem faghópurinn gekk frá því.

  1. Önnur mál: Engin.

Fundi lauk um klukkan 3. Annar fundur ekki boðaður.


Mat á efnahagslegum áhrifum virkjunar, aðferðir

Skjal lagt fram á fundi faghóps 4., 4. júli 2019.

Efnahagslegu mati af virkjun má í stórum dráttum skipta í þrennt:

Mat á umhverfiskostnaði.

Arðsemismat þar sem umhverfiskostnaður er einn kostnaðarliðurinn.

Mat á áhrifum framkvæmdar á hagsveiflu. 

Hægt er að leggja mat á alla þessa þætti. 

Umhverfiskostnaður: Aðferðum við mat á umhverfiskostnaði er lýst víða, en hér er stutt yfirlit á íslensku http://www.ramma.is/media/beinleid/Hagraent-mat-a-natturugaedum-final.pdf. 

Slík plögg ná aldrei til alls sem huga þarf að í matinu.  Við leggjum til að við setjum upp verklag og aðferðafræði til að meta umhverfiskostnað sem hægt væri að beita á framlagða kosti í Rammaáætlun. Okkar lýsing yrði nákvæmari, en líka sértækari borið saman við almennar lýsingar á aðferðafræði. Við mundum skoða tiltekinn virkjunarkost, bera saman mismunandi aðferðir til mats og ákveða hvaða aðferð hentar best til þess að meta umhverfiskostnað af honum (sem nýtist fyrir aðra kosti einnig í Rammaáætlun) og meta þann kostnað til að sýna framá hvernig aðferðafræðin virkar. Útkoman sýnir umhverfiskostnað við framkvæmdina að öllu öðru óbreyttu. Ef ráðist yrði fyrst í nýja virkjun í nágrenninu gæti kostnaðurinn breyst. 

Arðsemismat: Í framhaldi af mati á umhverfiskostnaði væri hægt að áætla tekjur út frá mati á afli og framleiðslugetu virkjunar og nýta jafnframt áætlanir um framkvæmdakostnað til þess að útbúa arðsemismat fyrir virkjunina (best væri ef hægt væri að láta staðar numið við mat á umhverfiskostnaði og láta þann sem virkjar borga hann í ríkissjóð). 

Mat á áhrifum á hagsveiflu: Við mat á hagsveiflu myndum við styðjast að öllum líkindum við langtímajafnvægislíkan (e. DSGE) sem Marías Gestsson lektor í hagfræðideild HÍ hefur unnið að og notað hefur verið í mati á þjóðhagslegum áhrifum rafbílavæðingar, svo dæmi séu tekin.

Ekki hefur verið rætt um hvaða virkjunarkost væri best að skoða, en best er að hann sé nú þegar í biðflokki eða nýtingarflokki, því að fyrir liggja grunnupplýsingar um slíka kosti, til dæmis tölur um afl virkjana í MW og áætlun um framkvæmdakostnað.

Markmiðið verkefnisins er því að setja fram aðferðafræði til að meta efnahagsleg áhrif virkjanakosta, og sýna framá hvernig henni er beitt á ákveðinn virkjanakost. Hafa ber þó í huga að hver virkjanakostur hefur sín sérkenni, og því er viðbúið að aðlaga þurfi einstök smáatriði að hverjum kosti - en heildarmyndin er ætíð sú sama. 

Afurð verkefnisins fyrir verkefnisstjórnina er skýrt framsett aðferðafræði til að meta hagræn áhrif virkjanakosta sem hægt er að beita á þá kosti sem Rammaáætlun hefur til meðferðar, sem og prófun á framlagðri aðferðafræði til stuðnings.