Vettvangsferð RÁ4 að Vindheimavirkjun, 8.12.2020

Þriðjudaginn 8. desember fór undirritaður, Einar Torfi Finnsson, fyrir hönd faghóps 2 í 4. áfanga rammaáætlunar í skoðunarferð að fyrirhuguðu virkjunarstæði Vindheimavirkjunar. Með í för var Þórgnýr Dýrfjörð sem situr í verkefnisstjórn RÁ4. Fórum við til fundar við Andra Teitsson hjá Fallorku ehf og fengum kynningu á virkjuninni. Í framhaldi af því sýndi Andri okkur fyrirhugað virkjanastæði og útsýni að því frá nokkrum stöðum í Hörgárdal.

Mynd 1. Hluti virkjanasvæðisins.

Mynd 2. Hluti af virkjanasvæðinu.

Vindheimavirkjun er vindorkuver sem stendur á samnefndri jörð í Hörgárdal. Fyrirhuguð staðsetning er í 200- 300 m hæð í aflíðandi hlíð eða á hjöllum, austan þjóðvegar 1 og er í landi Vindheima. Vindmyllugarðurinn verður um 1 km frá veginum þar sem næst er. Hjallarnir sem um ræðir eru undir hlíð Bægisárfjalls og Vindheimajökuls þar fyrir ofan. Fossárdalur liggur til austurs ofan virkjanasvæðis og er þekkt skíðaleið fjallaskíðamanna.

Fyrirhugaðar vindmyllur eru 150m m.v. hæstu stöðu spaða en í gögnum frá Fallorku er nefndur sá möguleiki að stækka þær í allt að 200m.

Þar sem þjóðvegurinn liggur undir brekku má gera ráð fyrir takmörkuðum sjónrænum áhrifum vindorkuversins frá veginum næst virkjunarsvæðinu. Þeir sem koma akandi eftir þjóðvegi 1 að norðan munu lítið verða varir við virkjunina þar sem svæði hennar er í hvarfi þar til komið er fram hjá Vindheimabæjunum. Hins vegar blasa vindmyllurnar við þeim sem aka í norður eftir þjóðvegi 1 allt frá bænum Bakka í Öxnadal á um 11 km leið. Mikill sýnileiki er á vindorkuverið frá vesturhluta Hörgárdals og fjöllunum þar í kring. Þó ber að hafa í huga að vindmyllurnar munu ekki standa á fjallshrygg eða hæð og verða því minna áberandi frá ákveðnum sjónarhornum.

Mynd 3. Séð til suðurs. Öxnadalur fyrir miðri mynd og Hörgárdalur til hægri.

Mynd 4. Frá gatnamótum þjóðvegar 1 og Hörgárdalsvegar.. Horft til norðurs að virkjanasvæði. .Frá þessu sjónarhorni myndi vindmyllur bera við himin.

Verkefnið virðist ekki hafa verið mikið kynnt, t.d. virðist ekki hafa verið haldin formleg kynning fyrir sveitarstjórn Hörgársveitar.

Svæðið sem vindorkuverið myndi standa á er ekki mikið notað til útvistar en er hins vegar á jaðri svæðis sem er mikið notað til skíðaferða. Þar er fyrst og fremst um að ræða skíðamennsku á Tröllaskaga, skíðasvæðið í Hlíðarfjalli og fjallaskíðaferðir út frá því. Hlíðarfjall er hluti af fjallinu austan virkjanasvæðisins. Eitthvað er um að fjallaskíðahópar noti svæðið en ekki vitað hve mikið. Ef horft er á Tröllaskaga og Eyjafjörð sem heild er ljóst að virkjunin er á svæði þar sem bæði ferðaþjónusta og útivist eru mikið stunduð og hefur farið vaxandi á undanförnum áratug.

Þorvaldsdalsskokk er eitt elsta óbyggðahlaup landsins. Leiðin liggur eftir endilöngum Þorvaldsdal og er hlaupið frá bænum Forhaga í Hörgárdal og norður á Árskógsströnd. Vindmyllurnar myndu blasa við hlaupurunum í um 3,5-4 km fjarlægð þann tíma sem dvalið er við rásmarkið. Síðan yrðu hlaupararnir með þær í bakið.

Mynd 5. Horft frá vesturhluta Hörgárdals til vesturs, yfir til virkjanasvæðis. Frá þessu sjónarhorni myndi vindorkuverið sjást vel.

Ég læt hér fylgja með nokkrar myndir en bendi á að í skýrslu Eflu, sem send var inn í 4. áfanga rammaáætlunar, eru ljósmyndir og kort sem sýna m.a. áætlaða hljóðvist og sýnileika.

- ETF