Vettvangsferð RÁ4 að Alviðru við Grjótháls, Borgarfirði, 27. október 2020

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur frá vori 2020 ítrekað skipulagt vettvangsferðir faghópa og stjórnar til að skoða þá virkjunarkosti sem Orkustofnun sendi verkefnisstjórn til umfjöllunar í febrúar og apríl 2020. Í hvert sinn hefur heimsfaraldurinn COVID-19 sett strik í reikninginn, þegar ný bylgja sýkinga hefur brostið á.

Faghópar hafa í ár unnið að mati á þeim 10 orkukostum, sem nægileg gögn bárust um til að hægt væri að hefja matið. Vatnaflsvirkjanirnar eru hátt á heiðum og úr alfaraleið. Verða farnar aðrar leiðir til að fá yfirsýn yfir það umhverfi sem þær hafa mest áhrif á. Jarðhitakosturinn er stækkun á virkjun í fullum rekstri. Þá standa eftir 5 vindorkukostir. Tveir þeirra voru heimsóttir sumarið 2019, Garpsdalur og Sólheimar. Hróðnýjarstaðir voru líka skoðaðir, en þeir hafa ekki verið sendir RÁ4 til mats. Landsvirkjun hefur útbúið vandað kynningarefni um Búrfellslund sem dregur úr þörf á að fara í vettvangsferð þangað við núverandi aðstæður. Þá stendur eftir að heimsækja tvö svæði, Alviðru við Grjótháls í Borgarfirði og Vindheima í Hörgárdal. Ákveðið var að formaður verkefnisstjórnar og sérfræðingur/-ar faghóp(-a) heimsæktu þessi svæði í samráði við virkjanaaðila.

Þann 27.október 2020 skoðuðu Einar Torfi Finnsson fulltrúi faghópa og Guðrún Pétursdóttir formaður verkefnisstjórnar fyrirhugað virkjunarsvæði Alviðru við Grjótháls á mörkum Þverárhlíðar og Norðurárdals. Helgi Hjörvar, sem stendur að virkjunarkostinum, tryggði þeim akstur um hálsana og leiðsögn Einars Örnólfssonar bónda á Sigmundarstöðum í Þverárhlíð.

Mynd 1: Radar sem nemur fuglaumferð á Grjóthálsi. Þarna stendur til að reisa tilraunamastur (mynd: ETF)

Var m.a. gengið að þeim stað þar sem til stendur að reisa tilraunamastur, sjá mynd 1. Á myndum 2-4 má sjá útsýni frá áætlaðri staðsetningu vindorkuversins.

Baula-Eiriksjokull

Mynd 2: Samsett mynd sem sýnir útsýni til norðurs og austurs af fyrirhuguðu virkjunarsvæði á Grjóthálsi. Vinstra megin á myndinni má sjá Baulu og Litlu-Baulu, svo tekur Holtavörðuheiðin við og lengst til hægri ber Eiríksjökul við himin (myndir: ETF)

Eiriksjokull-Ok-Botnsulur

Mynd 3: Horft áfram til austurs og suðurs frá fyrirhuguðu virkjunarsvæði á Grjóthálsi. Til vinstri er Eiríksjökull, svo taka við Geitlands- og Þórisjöklar, Ok og loks Botnsúlur í fjarska hægra megin á myndinni (myndir: ETF)

Botnsulur-Skardsheidi

Mynd 4: Hér er horft til suðurs frá fyrirhuguðu virkjunarsvæði á Grjóthálsi. Í fjarska ber Skarðsheiði við himin (myndir: ETF)

Síðar um daginn óku Guðrún og Einar Torfi fram og tilbaka um Norðurárdal í því skyni að átta sig á sýnileika myllanna þaðan, sjá myndir 5 og 6.

Í ferðinni fékkst allgóð mynd af umfangi fyrirhugaðra framkvæmda og sýnileika þeirra. Mun þessi vinna nýtast faghópi 2 í frekara mati á virkjunarkostinum.

Hafthorsstadir-fra-Dyrastodum-Grjothals-i-bakgrunni

Mynd 5: Séð heim að Hafþórsstöðum í Norðurárdal. Grjótháls ber við himin í bakgrunni (mynd: ETF)

Mynd 6: Horft að Dýrastöðum í Norðurárdal, Baula í bakgrunni. Myndin er tekin á nánast sama stað og mynd 5 en horft í norðurvestur í stað suðausturs á mynd 5 (mynd: ETF)