Innsend umsögn

Nafn: Hjördís Finnbogadóttir
Númer umsagnar: 352
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Almennt
Umsögn: Efni: Athugasemd vegna tillögu VR um flokkun Skjálfandafljóts, Svartár og Suðurár í Bárðardal í verndarflokk.
Lýsi ánægju með þá niðurstöðu Verkefnisstjórnar Rammaáæltunar að setja Skjálfandafljót, Suðurá og Svartá í verndarflokk enda sýnir stjórnin fram á verndargildi þessara vatnsfalla og Skjálfandafljóts sem heildar. Gjalda ber varhug við öllum hugmyndum um virkjun Svartár og Suðurár – þótt ekki séu endilega mjög stórar í sniðum. Á þessu svæði er „vatn á lausu“ sem hægt væri að krækja í og stækka síðar virkjun sem nú virðist ekki svo stór. Ráðherra umhverfismála áformar að koma á fót starfshópi til að skoða hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu. Gangi slík áform eftir munu Svartá og Suðurá og Skjálfandafljót að verulegu leyti verða hluti af þeim þjóðgarði og aðdráttarafli hans. Virkjun myndi draga úr verndargildi svæðisins. Meðan hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu eru í gerjun ætti því ekki að hreyfa við neinu á þessum slóðum.
Suðurá og Svartá eru mjög fallegar litlar ár í hálendisjaðrinum og það væri skemmdarverk að leggja þessar perlur í stokk til að framleiða lítilræði af rafmagni. Rétt væri að friðlýsa þessar ár báðar, Svartárvatn og Suðurárbotna til að varðveita þannig að komandi kynslóðir fái notið þessa svæðis í þeirri mynd sem það er. Jarðmyndanir, gróður, dýralíf og lifandi vatnið á þessu svæði er einstakt á heimsvísu. Svartá er mjög vinsæl urriðaá og í Suðurá þrífst bæði urriði og bleikja. Landið er nánast ósnortið og rómað fyrir fegurð sem að verulegu leyti hyrfi með óafturkræfum breytingum sem áformuð virkjun myndi valda. Rannsókn sem Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands gerði bendir til þess að áformuð virkjun í Svartá myndi draga mjög úr áhuga manna á að ferðast um svæðið.
Verulegur hluti þess rennandi vatns og lands sem fyrirhuguð Svartárvirkjun myndi byggja á tilheyra Stórutungu, sem er í ríkiseigu. Nauðsynlegt er að varpa ljósi á hvernig það gat gerst að Ríkiseignir, eða aðrir aðilar sem véla um þessa verðmætu eign almennings, komust að þeirri niðurstöðu að 9,8 MW virkjun væri viðeigandi meðferð á þessum náttúrugæðum. Hvorki þjóðhagslegir né svæðisbundnir hagsmunir kalla á slíka virkjun og því er nauðsynlegt að upplýst verði hverjar voru forsendur þeirrar ákvörðunar að heimila virkjunina.
Fylgigögn: