Innsend umsögn

Nafn: Jonas Gudmundsson
Númer umsagnar: 330
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Blöndulundur - R3302A
Umsögn: Kópavogi 2. ágúst 2016

Vegna lokaskýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar um 3. áfanga verndar- og orkunýtingar-áætlunar vil ég koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri varðandi það sem fram kemur um vindmyllugarða, sérstaklega Blöndulund, í skýrslunni:

1. Vindmyllugarðar eru nýjung í íslenskri orkumálaumræðu. Því verður varla haldið fram að nægileg opinber umræða hafi farið fram í landinu um áhrif vindmylla, staðsetningu þeirra og annað þei tengt.Vindmyllur munu hafa mikil umhverfisáhrif, eins og tekið er fram í skýrslu verkefnisstjórnar, þó ekki sé hægt að leggja skýrt mat á hver þau verða (sjá síðar). Almenningur hefur hins vegar ekki tekið þátt í þeirri umræðu. Ástæða er til að ætla að fólk hafi almennt ekki gert sér grein fyrir hversu nálægt framkvæmdastigi þessar hugmyndir eru komnar. Fjölmiðlaumræða um uppsetningu vinmylla hefur verið hverfandi. Ekki er hægt að finna nema einn leiðara í íslenskum fjölmiðli um málið.

2. Að gefnu því efni sem fyrir liggur er alls ekki tímabært að flokka vindmyllugarða í bið- eða nýtingaflokk virkjunarkosta. Mat á umhverfisáhrifum er af skornum skammti, gróðurkort af rannsóknasvæðum liggja ekki fyrir, aðeins liggur fyrir lauslegt mat á dýralífsáhrifum, engar kostnaðartölur sem styðja eitt staðarval umfram annað hafa verið lagðar fram. Skortur á raunhæfu mati á kostnaðarþáttum vekur sérstaka undrun.

3. Sérstaklega skortir forsendur fyrir að setja vindgarð á Auðkúluheiði í nýtingarflokk, enda segir í skýrslu verkefnastjórnar að ekki liggi einu sinni fyrir nákvæm staðsetning væntanlegra vinmylla („öll reiknuð og sýnd umhverfisáhrif á kortum ... gefa ekki endanlega mynd af sjónrænum áhrifum og hljóðvist vegna Blöndulundar þar sem endanlegar staðsetningar og tegund vindmylla hefur ekki verið ákveðin“). Hvernig er hægt að meta umhverfisáhrif þegar endanleg staðsetning liggur ekki fyrir?

4. Báðir vindmyllugarðarnir eru á mörkum svæðisskipulags miðhálendisins. Þeir munu hins báðir hafa áhrif langt inn á miðhálendið. Er það fyrst og fremst vegna þess að þeir verða einstaklega áberandi í landslagi, enda hver vindmylla á við tvo Hallgrímskirkju¬turna að hæð. Eðlilegt væri því að taka við mótun afstöðu verkefnastjórnar í þessum virkjunaráformum tillit til hugmynda sem komið hafa fram um friðlýsingu miðhálendisins, sem 60% landsmanna eru fylgjandi samkvæmt skoðanakönnunum.

5. Algjörlega skortir umfjöllun um staðarval fyrir vindmyllurnar, umfram það sem Landsvirkjun sjálf heldur fram varðandi nýtingu innviða. Þó er t.d. vitað að flutningur raforku Blönduvirkjunar er annmörkum háð. Af þeim sökum hefur ekki verið hægt að ráðast í byggingu hagkvæmrar rennslivirkjunar á Auðkúluheiði. Sýna þyrfti fram á að hve miklu leyti hægt er að spara vegi, línur og tengivirki, svo eitthvað sé nefnt, með samnýtingu við eldri vatnsaflsvirkjanrir. Bera þyrfti saman nokkra staðarvalskosti og meta alla þætti í samanburðinum. Í öðrum vestrænum löndum hefur vindmyllum í vaxandi mæli verið valinn staður fyrir utan strendur landanna.

6. Í skýrslu verkefnisstjórnar er fjallað um áhrif virkjana á ferðaþjónustu. Getið er um að ferðaþjónustan muni þurfa mun meira svigrúm á næstu árum en hingað til. Af þeim ástæðum er vindmyllugarður við Búrfellsháls settur í biðflokk frekar en nýtingarflokk. Hins vegar er ekki gert mikið úr ferðamálum á Auðkúluheiði, þó þar liggi Kjalvegur, sem um 200 þúsund Íslendingar hafa farið um og þar sem verður án efa ein helsta samgönguæð miðhálendisins á næstu áratugum. Vegna mikillar umferðar um hálendisvegi á Suðurlandi er brýnt að takast megi að dreifa fermönnum meira til annarra landshluta, ekki síst Norðurlands. Því sker það mjög í augun að ekki sé tekið meira tillit til ferðamála í mati á vindmyllugarði á Auðkúluheiði.

7. Samkvæmt könnunum sem Landsvirkjun hefur kynnt leggja ferðamenn á Íslandi mikið upp úr ósnortnum víðernum á ferðalögum sínum. Ein könnun sýnir að 87% ferðamanna finnist ósnortin víðerni mikilvæg á ferðalögum. Vart er hægt að hugsa sér mannvirki sem skemma þessa upplifun ferðamanna meira en trölllegar vindmyllur í landslaginu. Má finna ótal vitnisburði ferðamanna í öðrum löndum sem vísa mætti til í þessum efnum. Skaði sem vindmyllur valda á ferðaþjónustunni, sem er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar, er óafturkræfur og kemur fram í lægri þjóðartekjum og gjaldeyristekjum þegar til lengri tíma er litið.

8. Að öllu samanlögðu verður ekki séð að tímabært sé að flokka vindmyllugarða sem eignlega virkjunarkosti. Til þess skortir of margar forsendur í áætlanir Landsvirkjunar.
Fylgigögn: