Innsend umsögn

Nafn: Sveitarfélagið Skagafjörður
Númer umsagnar: 325
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Villinganesvirkjun - R3108A
Umsögn: Eftirfarandi umsögn var samþykkt á 751. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 3. ágúst 2016.

"Umsögn um drög að lokaskýrslu Verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar.
Þann 31. mars sl. lagði verkefnisstjórn rammaáætlunar fram drög að lokaskýrslu 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í kjölfarið fylgdi þriggja vikna kynningar- og samráðsferli sem lauk 20. apríl sl. Verkefnisstjórn vann úr þessum umsögnum og lagði fram endurskoðaða lokaskýrslu þann 11. maí sl. þar sem gerðar voru tillögur um flokkun 26 virkjunarkosta og landsvæða. Í tillögunum er m.a. lagt til að í verndarflokk fari eftirtaldir virkjanakostir í Skagafirði: Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjanir C og D.
Um leið og verkefnisstjórnin lagði fram tillögur sínar hófst lögbundið 12 vikna umsagnarferli þar sem almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gafst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Hér á eftir koma fram sjónarmið og athugasemdir Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er ekki fylgt.
Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (48/2011) segir að markmið laganna sé:
”að tryggja að nýting landssvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati....“
Jafnframt er skýrt kveðið á um í lögunum að taka beri tillit til fleiri þátta en ”verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja“ eins og segir í sama texta. Þar kemur fram að horfa skuli einnig og ekki síður til þátta eins ”hagkvæmni og arðsemi ólíkra virkjanakosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag svo og hagsmuni þeirra sem nýta þessi sömu gæði“.
Skipaðir voru 4 faghópar sem hver og einn átti að fjalla um afmarkaða efnisþætti viðfangsins og þannig saman mynda einhvers konar heildarmynd af hverjum virkjunarkosti og meta út frá því.
Ekki er hægt að sjá að vinnubrögð sem kveðið er á um í fyrrgreindum lögum hafi verið ástunduð af verkefnisstjórninni, heldur einungis horft til niðurstöðu faghópa 1 og 2 sem fjölluðu um náttúru og menningaminjar annars vegar og auðlindanýtingu aðra en orkuöflun hins vegar. Á áliti þessara tveggja hópa er mögulegum virkjunarkostum skipað í flokka. Það ættu allir að geta séð að slík vinnubrögð eru algerlega óásættanleg og ekki í anda gildandi laga. Verkefnisstjórn ber að skoða aðra þætti einnig, s.s. þjóðhagsleg og efnahagsleg áhrif mögulegra virkjana jafnt sem möguleg staðbundin efnahagsleg áhrif. Með öðrum orðum, kanna ber hvort slík mögulega jákvæð áhrif vegi upp hugsanleg neikvæð áhrif. Þessir þættir virðast hins vegar ekki hafa verið vegnir og metnir og vigtaðir saman.
Þá er verulega ámælisvert að mat fyrrgreindra faghópa á áhrifum mögulegra virkjana í Skagafirði virðist í mörgum tilfellum ekki studd rökum heldur byggð á einhvers konar huglægu mati.

Rangt farið með fjölmargar staðreyndir.
Eins og bent hefur verið á að ýmsum aðilum er í skýrslu verkefnisstjórnar farið rangt með fjölmargar staðreyndir sem lúta að mögulegri nýtingu virkjanakosta í Skagafirði. Má þar nefna að sífrerarústum er hlíft, ekki er hægt að fullyrða að verðmætum í nágrenni við virkjunarkosti verði raskað og sambýli við virkjunarkost útilokar ekki að hægt sé að njóta náttúruverðmæta.
Í ágætri rýni Orkustofnunar á drögum að skýrslu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar frá 11. maí 2016, sem birt var á vef stofnunarinnar þann 27. júlí sl., er bent á margvísleg dæmi um undarlega aðferðafræði við mat á Skatastaðavirkjunum í Skagafirði. Meðal þess sem Orkustofnun bendir á er hve víða fullyrðingum er slengt fram án þess að rökstyðja þá með nokkrum hætti. Á þetta m.a. við um neikvæð áhrif á vistgerðir, spillingu stórra minjaheilda, skerðingu á sjónrænni fjölbreytni, rýrnun á fágæti berggrunns, fjölbreytni jarðgrunns, áhrifum á fuglalíf, rýrnun veiði o.s.frv. Bendir Orkustofnun á að allt gagnsæi og rekjanleika skorti við mat faghópa þannig að hægt sé að sannreyna það og tekur Sveitarfélagið Skagafjörður undir þau orð. Nánar má lesa um þetta á bls. 34-44 í rýni Orkustofnunar (http://os.is/media/raforka/ryni_drog_skyrsla_orkunytingaraaetlunar_11052016.pdf).

Neikvæð og jákvæð áhrif mögulegra virkjana á ferðaþjónustu í Skagafirði.
Verkefnastjórn gerir mikið úr áhrifum mögulegra virkjana á ferðaþjónustu í Skagafirði og metur þær mjög á neikvæða veru. Er þar einkum tiltekið mikilvægi flúðasiglinga fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Nú skal ekki lítið gert úr jákvæðum áhrifum flúðasiglinga á ferðaþjónustu og atvinnulíf í Skagafirði. Sveitarfélagið Skagafjörður saknar hins vegar staðreynda og tölfræði í þessu sambandi til faglegrar ákvarðanatöku. Hefur verkefnisstjórn til að mynda tekið saman tölfræðiefni yfir fjölda gistinátta ár hvert í Skagafirði, þróunina þar á liðnum árum og hlutfall gistinátta vegna flúðasiglinga þar af? Hefur verkefnisstjórn tekið saman hlutfall tekna vegna þjónustu við flúðasiglingar af heildartekjum vegna þjónustu við ferðamenn í Skagafirði og hvernig sú þróun hefur verið á liðnum árum? Hefur verkefnisstjórn metið fjölda starfa sem með beinum eða óbeinum hætti tengjast flúðasiglingum í Skagafirði og hlutfall þeirra af heildafjölda starfa sem tengjast ferðaþjónustu á svæðinu, jafnt beinum sem óbeinum störfum? Hafa útsvarsgreiðslur til sveitarfélaga í Skagafirði og tekjur ríkisins af greininni verið metnar? Hefur verkefnisstjórn metið hversu mikið flúðasiglingar munu dragast saman við mögulegar virkjanaframkvæmdir og jafnframt metið mögulegar mótvægisaðgerðir í þeim efnum?
Aðra þætti sem tengjast ferðaþjónustu mætti nefna einnig, t.d. tölugildi þess efnis að verðmæti hestaferða um Skagafjarðardali rýrni úr 10 niður í 3 vegna Skatastaðavirkjunarkostanna beggja, án þess að rökstuðningur fylgi sem útskýrir einkunnagjöfina á fullnægjandi hátt.
Furðu vekur að aðrar breytur, s.s. samgöngubætur og önnur innviðauppbygging sem tengist mögulegum virkjanaframkvæmdum, hafa ekki verið metnar til áhrifa á ferðaþjónustu eða samfélagið á svæðinu. Spurt er hvort verkefnisstjórn geti sýnt fram á með óyggjandi rökum að ferðamönnum muni fækka verulega í Skagafirði við mögulegar virkjanaframkvæmdir á svæðinu ? þegar reynslan sýnir að ferðamennska hefur þvert á móti víða aukist í kjölfar samgöngubóta sem fylgt hafa virkjanaframkvæmdum? Felast mögulega tækifæri fyrir ferðaþjónustu á svæðinu í slíkri uppbyggingu?
Benda má á að í umsögn Ferðamálastofu um nægjanleika gagna í 3. áfanga rammaáætlunar er talað um að talsvert skorti á að nægjanlegra gagna hafi almennt verð aflað til að tryggja ásættanlegar forsendur matsvinnu í þessum áfanga rammaáætlunar.

Ekki hlustað á sjónarmið heimamanna.
Verkefnisstjórn virðist horfa algjörlega framhjá mögulegum samfélagslegum áhrifum virkjana í Skagafirði og viðhorfa heimamanna til nýtingar orku á svæðinu.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir faghóp 3 í 3. áfanga rammaáætlunar er meirihluti íbúa í Skagafirði, eða 54%, óánægður með það samráð sem haft hefur verið við íbúa í Skagafirði vegna virkjunarkosta á svæðinu. Aðeins 19% íbúa í Skagafirði eru frekar eða mjög ánægð með samráðið. Í skoðanakönnun á landsvísu kemur fram að 60% aðspurðra eru sammála því að almenningur eigi að hafa meiri áhrif á ákvarðanir um raforkuframleiðslu á Íslandi en 16% eru því ósammála.
Skoðanakannanir í Skaftárhreppi og Skagafirði sýna jafnframt að það hefði jákvæð eða mjög jákvæð áhrif á stuðning mikils meirihluta íbúa við virkjanir ef raforkan yrði nýtt til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélögunum. Þá kemur fram í landskönnun að 65% þátttakenda telja að sveitarfélög eigi að fá hluta af orku eða hagnaði af raforkuframleiðslu innan þeirra marka.
Þá má einnig benda á að niðurstöður þeirra rannsókna sem faghópur 3 gekkst fyrir sýna að mikill meirihluti íbúa í nærsamfélögum virkjunarkosta sem og þjóðarinnar í heild telur mikilvægt að tekið sé tillit til samfélagslegra áhrifa virkjunarkosta ekki síður en umhverfislegra og efnahagslegra áhrifa þeirra.
Ekki virðist eiga að hlusta á þessi sjónarmið meginþorra íbúa þegar tekin er ákvörðun um að setja virkjanakosti í Skagafirði í verndarflokk. Það er ólíðandi með öllu að íbúar fái ekkert um framtíð sína eða síns svæðis að segja!

Möguleg nýting skiptir miklu máli fyrir tækifæri í atvinnuuppbyggingu
Á þetta leggur Sveitarfélagið Skagafjörður áherslu og að ekki megi útiloka mögulega nýtingu vatnsafls í Skagafirði án víðtæks og faglega rökstudds mats. Sveitarfélagið Skagafjörður vill þannig að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sé fylgt í hvívetna.
Nefna má að í Skagafirði hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að því að laða að fjárfestingu á sviði koltrefja- og basalttrefjaframleiðslu og í því skyni verið unnið að margvíslegum undirbúningi, rannsóknum á iðnaðinum og byggingu tengslanets í greininni. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið til verksins. Jafnframt hefur verið unnið að þróun umhverfisvænna lausna við framleiðsluferlið, m.a. með notkun rafmagns við eyðingu skaðlegra efna sem verða til við framleiðslu koltrefja í stað þess að eyða þeim með bruna af völdum náttúrugass eða olíu.
Framleiðsla á koltrefjum og basalttrefjum er hátækniiðnaður sem krefst aðgengis að menntuðu starfsfólki og orku. Orkunotkunin er þó lítil í samanburði við margan annan orkufrekan iðnað, auk þess sem umhverfisáhrif eru takmörkuð. Þá yrði starfsmannafjöldi slíkrar framleiðslu bundinn við tugi starfa en ekki hundruð, sem hentar samfélagsgerðinni í Skagafirði vel. Basalttrefjar og þó einkum koltrefjar eru smám saman að hasla sér völl og leysa af hólmi þekkt smíðaefni í iðnaði eins og stál, ál og timbur ? sérstaklega í greinum þar sem léttleiki og styrkur eru höfð að leiðarljósi.
Yrði um kærkomna iðnaðaruppbyggingu að ræða á atvinnusvæði sem hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum.
Einnig hefur verið unnið að öðrum kostum í atvinnuuppbyggingu á svæðinu en þeir eiga margir það sammerkt að vera orkufrekir. Má þar nefna uppbyggingu í gagnaversiðnaði en mikill kostur er að staðsetja margvíslegan iðnað á Íslandi utan eldsumbrotasvæða.

Fylgja ber lögum og rannsaka víðtæk áhrif til hlítar.
Sveitarfélagið Skagafjörður krefst þess að þau virkjunaráform í Skagafirði sem sett hafa verið í verndarflokk verði í það minnsta flutt í biðflokk enda er þeirri greiningarvinnu sem liggja á til grundvallar ábótavant svo að ekki sé meira sagt. Útilokað er að setja mögulega virkjanakosti í Skagafirði í verndarflokk án þess að ráðist sé í mun viðameiri rannsóknir og mat á áhrifum þeirra á náttúru og samfélag í Skagafirði og nágrenni og að þar séu rekjanlegar og gagnsæjar niðurstöður allra faghópa hafðar til hliðsjónar."
Fylgigögn: