Innsend umsögn

Nafn: Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Númer umsagnar: 89
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd:
Umsögn: Reykjanesskaginn eitt merkilegasta svæði heims
Margar ritgerðir og skýrslur hafa verið skrifaðar um Reykjanesskagann og Reykjanesfólkvang. Gerðar hafa verið fræðilegar úttektir, t.d. í tengslum við fyrirhugaða jarðhitanýtingu. Náttúra og söguminjar mynda sterka heild á þessu svæði og mörg rit fjalla um hvort tveggja. Þá hafa aðilar eins og Landvernd og Ferðamálasamtök Suðurnesja kynnt hugmyndir um eldfjallagarð eða jarðminjagarð (GeoPark) á Reykjanesskaga. Slíkur garður hefur nú verið stofnsettur á Suðurlandi, þ.e. Kötlugarðurinn. Þar sjá heimamenn fram á talsverða atvinnuuppbyggingu tengda því verkefni.
Ljóst er að sú eldvirknináttúra sem Reykjanesskaginn hefur að geyma bíður upp á ótal tækifæri af þessum toga og ýmis konar tengingar við ferðaþjónustu, útivist og fræðslustarf. Helgi Páll Jónsson skrifaði nýlega lokaritgerð til meistraraprófs í jarðfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Rigerðina kallar hann Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga.
Í ritgerðinni er fjallar Helgi um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins eru gerð góð skil og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem Helgi segir að muni gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu.
Niðurstöður Helga eru þær helstar að Reykjanesskagi henti vel sem eldfjallagarðssvæði fyrir jarðfræðitengda ferðaþjónustu vegna legu sinnar nálægt höfuðborg og alþjóðaflugvelli en ekki síður vegna hinna fjölbreyttu eldvarpa og gosminja. Þau séu fjölbreytt hvað varðar eldvirkniferli og ná allt frá Reykjanesi austur í Reykjanesfólkvang.
Í niðurstöðum sínum segir Helgi orðrétt:
Reykjanesskagi myndar suðvesturhorn Íslands og er eitt merkilegasta svæði heims hvað varðar eldvirkni og jarðhnik. Þar rís Atlantshafshryggurinn úr sjó. Landslag á Reykjanesskaga er mótað af rekhreyfingum, eldvirkni og samspili þessara innrænu afla við útræn öfl..Eldvörp eru afar fjölbreytt á Reykjanesskaga og þar koma fyrir flestar gerðir eldvarpa sem þekkjast. Á skaganum eru einnig menningarminjar sem sýna sambúð mannsins við eldvirknina allt frá landnámi“.
Fylgigögn: