Innsend umsögn

Nafn: Guðbjörg Friðriksdóttir
Númer umsagnar: 52
Landsvæði: Suðurland - Þjórsá (Vatnasvið)
Virkjunarhugmynd: Hvammsvirkjun (29)
Umsögn: Fólk og samfélag hundsað við Þjórsá.



Fyrir rúmu ári sóttum við fund um rammaáætlun á Selfossi. Þar voru sýndar margar töflur og línurit um jarðfræði, hagfræði, líffræði og orkuvinnslumöguleika. Margir sérfræðingar útskýrðu fyrir fundargestum Á fundinn kom fjöldi fólks sem dvelur og býr í einstæðri náttúru við Þjórsá. Þetta fólk hafði áhyggjur af framtíðinni, umhverfi sínu og náttúru við Þjórsá.



En það var engin tafla um fólk. Og það voru engin svör um hvaða áhrif virkjanirnar við Þjórsá myndu hafa hvorki á samfélag, né daglegt líf og líðan þeirra sem kosið hafa að lifa sínu lífi nálægt ánni.



Í fyrsta og síðasta lagi vil ég því átelja harðlega að mannlega þáttinn vantar alveg í rammaáætlun. Það er forkastanlegt vegna þess að allir vita að deilur um virkjanir hafa verið deilur um líf og líðan fólks í samfélagi. Mín vegna mega sérfræðingar rammaáætlunar rannsaka hraunmyndanir og örverur eins og þeir vilja. En ég hlýt að spyrja, kemur engum við hvað fólki finnst um þessar virkjanir? Eru þessar virkjanir ekki á dagskrá vegna hagsmuna einhverra manna? Vegna hagsmuna samfélagsins. Og af hverju eru þá ekki teknir með hagsmunir neinna annarra en þeirra sem ætla að græða á framkvæmdunum? Eru þeirra hagsmunir ríkari en okkar hinna sem eigum allt undir því að umhverfi okkar verði ekki eyðilagt? Það ætti að vega hagsmuni okkar upp á móti hagsmunum hinna, en það hefur ekki verið gert í rammaáætlun.



Það kom svo skýrt fram á fundinum á Selfossi forðum, að engin svör voru til um nein mannleg álitamál, um stjórnsýslu, aðferðafræði orkugeirans og hvernig sveitarstjórnir eru notaðar til að pína upp á fólk framkvæmdum sem það vill ekki sjá. Það kom líka skýrt fram á fundinum að jafnvel umhverfisþættir eru enn órannsakaðir. Allir vita að umhverfismat er meira og minna fyrirfram pantað plat, fegrunaraðgerð fyrir framkvæmdaaðilann, og fjallar helst aðeins um aðra hluti en þá sem síðan ógna umhverfinu. Það er stórfurðulegt að ferðamennsku í Þjórsárdal, einu elsta ferðamannasvæði Íslands frá gamalli tíð skuli ekki hafa verið gerð nein skil. Hér liggur vegurinn inn á Sprengisand og í Þjórsárdal sjálfum eru óviðjafnanlegar náttúruperlur sem liggja svo þétt að fá ef nokkur önnur útivistarsvæði bjóða upp á jafn fjölbreytt útsýni og viðkomustaði. Þetta á að eyðileggja vitandi vits og í rammaáætlun er helst að sjá að fórn Þjórsárdals sé ekki talin koma málinu við.



Við finnum ekki neitt í rammaáætlun sem útskýrir hve mikið hitastig muni lækka við lónbrún Hagalóns vegna Hvammsvirkjunar. En þar eigum við aðsetur. Mun standa kaldur gustur af lóninu þar sem áin rann áður? Kemur dæling upp úr lóninu inn á okkar svæði, fyllist allt af drullu og mold við stofugluggan hjá okkur þegar vegurinn verður hækkaður um á annan metra? Landsvirkjun hefur ekki upplýst okkur um neitt í sambandi við þessa virkjun, þótt óumdeilanlega snerti hún okkur bæði beint og óbeint. Það verða miklar framkvæmdir á okkar landi, en við okkur talar enginn. Hjá okkur þarf að taka eignarnám því við ætlum ekki að semja. En þeir virðast ekki telja um neitt að tala við landeigendur en peninga. Við viljum ekki selja, við viljum ekki þessar framkvæmdir en við hljótum samt að eiga fullan rétt á því að fá að vita hvaða afleiðingar þær munu hafa fyrir okkur og okkar dvalarstað í Fagralandi við Þjórsá. Við hljótum líka að eiga rétt á að vita hvernig staðið var að rannsóknum og af hverju mannlegi þátturinn var ekki rannsakaður. Okkur sýnist ennfremur að rannsóknum á landslagi sé verulega ábótavant. Það er gjörsamlega útilokað að rannsóknir á landslagi leiði til þeirrar niðurstöðu að litlu sé til fórnað við að sökkva anddyri Þjórsárdals, Búðafossi og Urriðafossi, vatnsmesta fossi landsins. Það er líka útilokað að rannsóknir á landslagi sýni að hólmar og sker í Þjórsá séu svo ómerkileg að þeim megi bara sökkva eða taka frá þeim ána þannig að þau standi uppi á þurru landi. Minnanúpshólmi var friðaður, vegna einstaks gróðurfars, eftir að skýrsla Rammaáætlunar leit dagsins ljós. Sú friðun byggði á allt öðrum rannsóknum en þeim sem vísindamenn rammaáætlunar unnu. Eins og heimafólki er kunnugt um verður vatnið í Þjórsá leitt í stokk og Minnanúpshólmi verður á þurru landi og friðun hans í náttúrunni þar með rofin. Skiptir það máli?



Þannig er mörgum spurningum um náttúruna og umhverfið algjörlega ósvarað þrátt fyrir rammaáætlun. Hitt er þó langverst að engar rannsóknir liggja fyrir né eru fyrirhugaðar á því hver áhrifin eru á fólk og samfélag þegar svona framkvæmdir eru undirbúnar. Það er nefnilega allt upp í loft í þessum samfélögum fyrir austan af völdum Landsvirkjunar. Það eru svo miklar deilur að fólk getur ekki talað saman. Aldrei tölum við um þetta við nokkurn mann á þeirri jörð þar sem við höfum sett niður okkar frístundahús. Við nefndum andstöðu okkar einu við einn af ábúendum hér og hann kom aldrei til okkar oftar. Líklega af því hann var hræddur, en ekki af því hann hafi verið hlynntur virkjunum sem eyðileggja náttúruna sem hann sjálfur hafði lifað og starfað í mestalla ævi. Við gengum í gegnum miklar deilur í sambandi við skipulagsmál fyrir nokkrum árum og rekjum það til áforma Landsvirkjunar að því leyti til að enginn virðist treysta sér í opin samskipti um neitt sem varðar landnot eða framtíðina meðan framkvæmdirnar vofa yfir. Og það hafa þær nú gert í meira en áratug. Sem dæmi um samskiptin urðum við einnig vitni að því að vini okkar sem var á leið á mótmælafund vegna Þjórsár var áreittur og nánast hent út úr sveitaversluninni af stuðningsmanni oddvitans og framkvæmdanna. Við höfum ekki farið í þá búð síðan og vitum að svo er um fleiri. Þannig þekkjum við fullt af fólki sem ekkert þorir að segja af ótta við útskúfun í samfélaginu. Við þekkjum líka fólk sem hefur misst atvinnu sína, verið lagt í einelti, elt með málaferlum og sett út úr nefndum vegna þessara virkjuna. Svona andrúmsloft á ekki að eiga sér stað í neinu samfélagi og við lýsum þungum áhyggjum af því að engin tilraun sé gerð í rammaáætlun til að kanna hversvegna fólki er att saman á þann hátt sem gert er við undirbúning umdeildra framkvæmda.



Samkvæmt okkar heimildum er þetta að minnsta kosti þriðji umsagnarhringurinn sem settur er af stað vegna Þjórsárvirkjana í byggð. Ætli þær skipti ekki orðið mörgum hundruðum athugasemdirnar sem gerðar hafa verið við umhverfismat, skipulag, skýrslu rammaáætlunar og nú við þingmál iðnaðarráðuneytis. Fólk sem hefur gert athugasemdir veit ekki til þess að nokkurn tímann hafi verið á þær hlustað, eða farið eftir einu einasta atriði sem í þeim hefur staðið. Við vitum ekki einu sinni hvort þær hafa verið lesnar af þeim sem taka við þeim. Við vitum hinsvegar að umsagnirnar sem gerðar voru til sveitarstjórnar fóru beinustu leið í hendurnar á Landsvirkjun sem svaraði þeim eftir sínu höfði. Það er því með þungum huga sem við leggjum vinnu í enn eina athugasemdina sem enginn hefur sagt okkur hvað um verður. Við hljótum þó alltaf að mega vona að hún verði lesin, metin og spurningum svarað. Það væri framför, því hingað til höfum við ekki verið virt viðlits í undirbúningi að þeim virkjunum sem við viljum að verði aldrei að veruleika.



Með kveðju

Sigurður L. Einarsson og Guðbjörg Friðriksdóttir, frístundafólk í Fagralandi í mynni Þjórsárdals.
Fylgigögn: