Innsend umsögn

Nafn: Hafnarfjarðarbær
Númer umsagnar: 21
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd:
Umsögn: Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða – umsögn Hafnarfjörður 27.10.11.
Hafnarfjarðarbæ hefur borist erindi iðnaðarráðuneytisins dags. 19.08.11 þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Umsagnarfrestur er til 11.11.11.
Í áætluninni er fjallað um fjögur svæði í Krýsuvík. Eitt þessara svæða, Austurengjar, er innan lögsögu Hafnarfjarðar, en þrjú svæði, Sandfell, Sveifluháls og Trölladyngja eru innan lögsögu Grindavíkur. Hafnarfjarðarkaupstaður á þó mikilla hagsmuna að gæta varðandi öll þessi svæði sem eigandi jarðhitaréttinda í Krýsuvíkurlandinu öllu, jafnt eignarlandi bæjarins sem þess hluta sem er í lögsögu Grindavíkur.
Nýtingarflokkur.
Sandfell og Sveifluháls eru sett í nýtingarflokk, virkjanahugmyndir sem talið er að ráðast megi í að uppfylltum öðrum skilyrðum.
Hafnarfjarðarbær gerir ekki athugasemd við flokkun Sandfells.
Nokkuð er óljóst hvað átt er við með Sveifluhálsi, sem er mjög stórt svæði, og þarf nánari skilgreiningar við. Hafnarfjarðarbær bendir á að HS-Orka hefur fengið framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarborholur í Seltúni, sem er að hluta raskað svæði á Sveifluhálssvæðinu, og er lagt til að það svæði verði sett í biðflokk, þar til nánari ákvörðun hefur verið tekin um það í auðlindastefnu Hafnarfjarðar.
Biðflokkur.
Trölladyngja og Austurengjar eru sett í biðflokk - virkjanahugmyndir sem þurfa frekari skoðunar með betri upplýsingum svo skoða megi hvort þær ættu að raðast í verndunarflokk eða nýtingarflokk.
Hafnarfjarðarbær vekur athygli á að í viðræðum við HS-Orku setti Hafnarfjarðarbær sig alfarið á móti rannsóknarborunum við Austurengjahver, þar sem það þótti of viðkvæmt svæði frá náttúruverndarsjónarmiði. Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 - 2025 Krýsuvík, er Austurengjahver og svæðið umhverfis hann hverfisverndað. Í viðræðum við HS-Orku kom fram sú hugmynd að skábora niður í hverinn, en því hefur ekki verið fylgt nánar eftir, og þyrfti þá að skoða hvaða áhrif dæling hefði á hverinn, þó svo að svæðinu kringum hann yrði ekki raskað. Svæðið getur verið í biðflokki þar til nánari ákvörðun hefur verið tekin um það í auðlindastefnu Hafnarfjarðar.
Varðandi Trölladyngju bendir Hafnarfjarðarbær á að á því svæði eru nú þegar tvö borplön og vegur inn á svæðið.
Verndunarflokkur
Virkjanahugmyndir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsagagnvart orkuvinnslu:
Ekkert svæði í Krýsuvík er sett í þennan flokk.

Uppfærð umsögn 11. nóv,
Fylgigögn: