Innsend umsögn

Nafn: Elín Erlingsdóttir
Númer umsagnar: 192
Landsvæði: Suðurland - Þjórsá (Vatnasvið)
Virkjunarhugmynd: Holtavirkjun (30)
Umsögn: Sem íbúi við Þjórsá, landeigandi og eigandi vatnsréttinda, geri ég athugasemdir við niðurstöður Rammaáætlunar 2. Sem íbúi sem horfir yfir ána úr gluggunum í húsinu mínu, horfi á og hlusta á ána af bæjarhlaðinu mínu þar sem forfeður mínir og nánasta fjölskylda hafa búið í 100 ár, hlustað eftir sunnanhljóðinu í ánni til að spá fyrir um veður, vitað af öruggu vatni við ána fyrir búsmalann, horft á gæsir sem flytja sig milli staða með ánni haust og vor, riðið út á bökkum árinnar, veitt fisk og étið, vaðið, sullað á sumrum, skoðað klakabönd og fylgst með vorleysingum við ána. Já, það sem af er æfi minnar hefur Þjórsá verið hluti af lífi mínu, þannig mun það verða ævi mína á enda. Ég hlýt að mótmæla niðurstöðum Rammaáætlunar 2, þar sem virkjanir við Neðri Þjórsá eru settar í nýtingarflokk og Norðlingaölduveita í. Áform um þessar stóru framkvæmdir fylla mig og mitt fólk og sveitunga mín vanlíðan, vegna allra þeirra neikvæðu náttúrufarslegu breytinga sem virkjanaframkvæmdir munu hafa í för með sér og samfélagslegu áhrifa sem áætlanir þessar hafa haft og samskipti fólks og munu hafa á lífsgæði þess. Fólks sem hingað til hefur búið saman í sátt og samlyndi og við lífsgæði sem að einhverjum hluta má rekja til nábýli við ána. Mér finnst allt of margir veikir hlekkir í þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fram fyrir íbúa svæðisins. Þeir sem skipuleggja framkvæmdirnar fara of hratt. Taka þarf lengri tíma til rannsókna og skoða fleiri valkosti, virða niðurstöður vísindamanna, hlusta á raddir fólksins. Það er rangt að reka í gegn ákvörðun með ólýðræðislegum aðferðum og án skoðunar fleiri valkosta. Ég skora á Stjórn Rammaáætlunar að færa Holtavirkjun og einnig Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun úr nýtingarflokki í biðflokk, rasa ekki um ráð fram, láta staðar numið, endurskoða ákvarðanir. LÁTUM NÁTTÚRUNA NJÓTA VAFANS.
Fylgigögn: