Innsend umsögn

Nafn: Orkusalan ehf.
Númer umsagnar: 16
Landsvæði: Suðurland - Hólmsá (Vatnasvið)
Virkjunarhugmynd: Hólmsárvirkjun neðri við Atley (21)
Umsögn: Orkusalan fagnar því að nú hilli undir lok hinnar viðamiklu vinnu sem liggur að baki annars áfanga rammaáætlunar og vonar að með þeirri vinnu verði hægt að nálgast sátt um orkuöflun og nýtingu í landinu. Þær niðurstöður sem sjá má í þeim drögum að tillögu til þingsályktunar sem nú liggja frammi til umsagnar komu þó forsvarsmönnum Orkusölunnar verulega á óvart, en eini virkjanakosturinn sem Orkusalan ehf. er með í undirbúningi, Hólmsárvirkjun neðri við Atley (nr. 21), er þar settur í biðflokk.

Orkusalan telur með vísan til þessa að röðun á virkjanakosti Hólmsár með miðlunarlóni við Atley í biðflokk sé byggð á misskilningi eða mistökum við vinnslu matsins sem liggur til grundvallar þeirri röðun og væntir þess að það mat verði endurskoðað og leiðrétt áður en að tillagan til þingsályktunar verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar. Það er mat Orkusölunnar að ekkert hafi komið fram í vinnu rammaáætlunar sem gefi tilefni til annars en að þessi virkjunarkostur, sem hentar sérstaklega vel til að virkja fyrir almennan markað með mjög takmörkuðum umhverfisáhrifum, verði settur í nýtingarflokk.
Fylgigögn: