Samráðsferli

Til að sátt megi nást um verndun og orkunýtingu er nauðsynlegt að öllum aðilum sem láta sig málið varða sé boðið að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar. Samráð er þess vegna stór hluti af vinnulagi við rammaáætlun og hefur verið frá upphafi.

Samráð getur tekið á sig ýmsar myndir. Í lögum um rammaáætlun er sérstaklega tekið fram að skylt sé að hafa formleg samráð við hagsmunaaðila á ákveðnum stigum í ferlinu.Verkefnisstjórn og faghópar hafa einnig haft frumkvæði að því að halda opna kynningarfundi um störf sín, þau hafa gefið út skýrslur og annað efni og boðið fulltrúum fjölmargra hagsmunaaðila til fundar við sig. Einnig er nokkuð algengt að samtök og aðrir hagsmunaaðilar fái formenn faghópa og verkefnisstjórnar á fundi til að kynna starfsemina.

Lögbundin samráðsferli

Samkvæmt lögum um rammaáætlun ber verkefnisstjórn að viðhafa tvö samráðsferli vegna vinnu við tillögur sínar að flokkun virkjunarkosta. Einnig ber ráðherra að hafa samráð við almenning og hagsmunaaðila áður en hann leggur tillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun fyrir Alþingi en þá og því aðeins ef hann kýs á því stigi að breyta tillögum verkefnisstjórnar að flokkun virkjunarkosta

Eftir að faghópar ljúka vinnu sinni við röðun virkjunarkosta tekur verkefnisstjórn við þeim niðurstöðum og vinnur drög að tillögu um flokkun virkjunarkosta. Verkefnisstjórn leitar samráðs við almenning og umsagna um drögin hjá stofnunum, stjórnvöldum, sveitarfélögum, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Að þessu fyrra samráðsferli loknu vinnur verkefnisstjórn úr innkomnum umsögnum og breytir tillögu sinni ef ástæða þykir til. Ekki er tekið fram í lögunum hve langt fyrra samráðsferlið skuli vera.

Þegar verkefnisstjórn hefur gengið frá tillögu sinni að loknu fyrra samráðsferlinu loknu tekur seinna samráðsferlið við en það stendur að lágmarki í 12 vikur í samræmi við ákvæði laganna. Þar kynnir verkefnisstjórnin tillögur sínar um flokkun virkjunarkosta á opinberum vettvangi, með þeim breytingum sem kunna að hafa orðið í fyrra samráðsferlinu. Almenningi og hagsmunaaðilum er gert kleift að senda inn umsagnir um tillögur verkefnisstjórnarninnar og að tólf vikum liðnum fer verkefnisstjórn yfir innkomnar umsagnir og breytir tillögu sinni ef talin er ástæða til. Þar næst afhendir verkefnisstjórn umhverfis- og auðlindaráðherra rökstudda tillögu sína um flokkun virkjunarkosta og afmörkun svæða.

Ráðherra tekur tillögur verkefnisstjórnar til skoðunar og gengur frá tillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun til að leggja fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar. Ef ráðherra vill breyta flokkun verkefnisstjórnar þarf að hefja nýtt samráðsferli áður en tillagan er lögð fram á Alþingi. Í þriðja samráðsferlinu er leitað samráðs við almenning og umsagna um tillöguna hjá stofnunum, stjórnvöldum, sveitarfélögum, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Kjósi ráðherra að leggja tillögu verkefnisstjórnar fyrir Alþingi óbreytta er ekki þörf á þriðja samráðsferlinu.

Annað samráð

Verkefnisstjórn rammaáætlunar boðar öðru hvoru til opinna kynningarfunda um störf sín. Einnig boðar verkefnisstjórn sérfræðinga og hagsmunaaðila á fundi til sín eftir þörfum. Öllum er frjálst að hafa samband við verkefnisstjórn hvenær sem er með fyrirspurnir og athugasemdir.