Innsend umsögn

Nafn: Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar
Númer umsagnar: 282
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Hrafnabjargavirkjun C - R3110C
Umsögn: Þann 31. mars 2016 lagði verkefnastjórn þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar fram drög að lokaskýrslu sinni. Í þeim drögum kemur meðal annars fram að Hrafnabjargavirkjun, ásamt öllum virkjunarkostum í Skjálfandafljóti, skuli sett í verndarflokk og fái ekki að njóta vafans enn um sinn með því að vera sett í biðflokk.

Af lestri ítarefnis með drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnarinnar er ekki að sjá að faghópar 3 og 4, sem meta skulu efnahagsleg og samfélagsleg áhrif virkjananna, hafi skilað nokkrum niðurstöðum eða gögnum og því hlýtur verndarflokkun sú sem kynnt er í drögum verkefnisstjórnar að vera verulega ábótavant, þannig að gangi þvert gegn fyrirmælum laga um verklag og málsmeðferð.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) er samnefnari sjö sveitarfélaga við Eyjafjörð, en alls búa um 25 þúsund íbúar á starfssvæði AFE. Öll hafa sveitarfélögin þurft að búa við langvarandi afhendingar-óöryggi og skort í orkumálum.
Möguleikar landshlutans til að draga til sín atvinnufyrirtæki, störf og fólk eru þannig nú þegar skertir og engan veginn á jafnræðisgrunni við flesta aðra landshluta.

Frekari erfiðleikar við orkuöflun og framleiðslu gera erfitt ástand verra og ekki skynsamlegt að útiloka frekari valkosti við orkuöflun fyrr en öllum stein hefur verið velt við. Þetta er ekki síst öryggismál, þar sem nánast öll orkuöflun landshlutans er á sama vatnasvæði eins og staðan er í dag.

Hér með er drögum um verndarflokkun allra virkjanakosta í Skjálfandafljóti mótmælt og óskað eftir endurskoðun á þeirri afstöðu sem svo birtist í drögum verkefnastjórnar.

Virðingarfyllst,
F.h. AFE
Þorvaldur Lúðvík SIgurjónsson
Framkvæmdastjóri
Fylgigögn: