Innsend umsögn

Nafn: Einar Sindri Ólafsson
Númer umsagnar: 276
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Urriðafossvirkjun - R3131A
Umsögn: Athugasemdir varðandi Urriðafossvirkjun og virkjanir í neðri hluta Þjórsár

Ég legg til að Urriðafossvirkjun og virkjanir í neðri hluta Þjórsár verði færðar í verndarflokk úr orkunýtingarflokk 3.áfanga verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar, til vara legg ég til að virkjunarkostirnir verði færðir í biðflokk.
Ég geri alvarlegar athugasemdir varðandi einkunnagjöf faghóps II varðandi Urriðafoss-svæðið. Það fær lægstu mögulegu einkunn fyrir hlut ferðamennsku sem er ekki hægt að skýra með öðru en óvönduðum vinnubrögðum. Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og er sá foss sem er í stystu fjarlægð frá Þjóðvegi 1. Nú hefur verið ráðist í þónokkrar framkvæmdir, að verðmæti 9 miljóna króna, til að auka aðgengi að fossinum. Bílastæði hefur verið stækkað, nýr göngustígur lagður, svæðið afgirt, upplýsingaskilti látið upp o.fl. Áætlað er að um 50.000 ferðamenn hafi komið og skoðað fossinn árið 2013 og töluvert fleiri bæði árið 2014 og 2015. Það eru gríðarlega mikil tækifæri sem liggja í þessu svæði til framtíðar. Ef að virkjunáformum verður, myndi fossinn að miklu leyti hverfa og ekki verða svipur hjá sjón. Það er því ljóst að Urriðafossvirkjun myndi eyðileggja framtíðarmöguleika svæðisins í ferðamennsku. Það er því mjög óraunhæft að gefa svæðinu 0 af 10 í einkunn fyrir ferðamennsku.
Einnig verð ég að gera athugasemdir varðandi laxstofninn í neðri hluta Þjórsár sem er, eins og segir í drögum að lokaskýrslu: „...laxastofn sem hafi sérstöðu á heimsvísu hvað varðar stærð og aðlögun að óvenjulegu umhverfi.“ Þessi laxstofn er líklega stærsti villti laxstofn í Evrópu og er það mikilvægur að ekki er hægt að fórna honum fyrir raforkuvinnslu. Ekki hefur verið sýnt fram á neitt sem styður það að laxstofninn muni lifa af fyrir ofan Urriðafoss. Ég gef lítið fyrir það að þessir hlutir eigi að meta í MAÚ, þetta á að vera ljós á fyrri stigum málsins svo engin vafi liggi á hvaða áhrif virkjunarkostir hafa m.v. aðra kosti. Varúðarreglan ætti því að gilda í þessu máli og virkjunarkosturinn ætti með réttu heima í verndarflokki.
Virðingafyllst
Einar Sindri Ólafsson
Selfossi
19.apríl 2016
Fylgigögn: