5. fundur faghóps 2, 03.02.2015

Fundarfrásögn

Faghópur 2 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

5. fundur, 03.02.2015, 13:30-16:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Áki Karlsson (ÁK), Guðni Guðbergsson (GG) og Sigrún Valbergsdóttir (SV). Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) tók þátt í fundinum símleiðis.

Fundarritari: Herdís Helga Schopka (HHS).

Fjarverandi: Einar Torfi Finnsson (ETF) og Sveinn Runólfsson (SR).


  1. Fundur settur kl. 13:40.  
  2. Þóknanir til fulltrúa í faghópum: ADS fór í gegnum nýja útgáfu af minnisblaði um þóknanir. Minnisblaðið hefur tekið verulegum breytingum frá því sem áður var í kjölfar funda formanna faghópa með skrifstofustjórum ráðuneytisins í desember 2014 og janúar 2015.   
  3. Fréttir af opnum kynningarfundi verkefnisstjórnar: ADS sýndi glærusýningu formanns verkefnisstjórnar frá kynningarfundi verkefnistjórnar þann 29. janúar 2015. Rætt var m.a. um umhverfismat áætlana og minnisblað Alta, sem er að finna á heimasíðu Orkustofnunar, og hvernig stofnanir geti metið hvort fyrirliggjandi gögn séu nægileg (slæða 7). Tímalínan var líka rædd og hvort raunhæft sé að leggjast í rannsóknir sumarið 2015 þar sem úrvinnsla rannsóknanna myndi að öllum líkindum teygjast fram á haustið og veturinn, þegar vinnu faghópa á að vera að ljúka. Einnig var rætt um forgangsröðun verkefnisstjórnar og viðbrögð Orkustofnunar við henni. 
  4. Umræða um stöðu þekkingar á virkjunarkostum í biðflokki og hugmyndir um nýjar rannsóknir sumarið 2015: Rætt um fyrirliggjandi gögn, aðferðir við að nálgast þau gögn sem fallið hafa til síðan í 2. áfanga og hvaða gögn séu til. Faghópur 1 vann svipaða vinnu og e.t.v. ástæða til að sækja í þeirra smiðju með aðferðir við heimildaöflun. AGS stakk upp á að virkjunaraðilar myndu kynna sína virkjunarkosti fyrir faghópum, líkt og gert var í 2. áfanga og vill faghópurinn beina þeirri hugmynd til verkefnisstjórnar að standa fyrir slíkum kynningum sem allra fyrst. Þá mætti nýta fundina til að spyrja sérfræðinga fyrirtækjanna um  þær skýrslur sem faghópurinn telur sig vanta. Mikilvægt að skýra hvað er í verkahring faghópa og hvað í verkahring verkefnisstjórnar, t.d. varðandi gagnasöfnun og mat á gæðum gagna. Rætt um að hópurinn tæki fyrir eina fimm virkjunarkosti til að æfa sig í matinu. AGS benti á að það þyrfti að ákveða hvort AHP-röðunin yrði notuð aftur.   
  5. Stella yfirgaf fundinn kl. 15:10 vegna tæknilegra örðugleika með fjarfundabúnaðinn.   
  6. Staða á vinnu við landfræðilegan gagnagrunn faghópsins: Ása hefur hafið störf við gerð gagnagrunnsins. Miðað er við að þegar vinna hennar og hópsins er komin vel í gang verði Ása á fundum faghópsins svo unnt sé að skoða einkunnagjöf hópsins á kortum í rauntíma. Stefnt að því að Ása komi á næsta fund hópsins til að ræða málin frekar.   
  7. Áframhald á æfingu faghópsins við að meta virkjunarkosti í biðflokki: Frestað til næsta fundar vegna tímaskorts.   
  8. Önnur mál: Stefán Gíslason mun hafa samband við Jóhannes Sveinbjörnsson varðandi hvort hann hafi áhuga á að koma aftur til liðs við faghóp 2 núna þegar nýtt greiðslufyrirkomulag er í höfn.   
  9. Fundi slitið kl. 16:25.


Herdís H. Schopka