14. fundur faghóps 2, 26.10.2015

Fundarfrásögn

Faghópur 2 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

14. fundur, 26.10.2015, 11:30-14:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Áki Karlsson (ÁK), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðni Guðbergsson (GG), Sigrún Valbergsdóttir (SV), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Sveinn Runólfsson (SR).

Fundarritari: Herdís Helga Schopka (HHS).


  1. Fundur settur kl. 11:30.
  2. Afhending og kynning á gagnamöppu faghóps 2: ADS dreifði möppu þar sem búið var að safna saman gögnum sem koma faghóp 2 að notum í vinnunni framundan við mat á virkjunarkostum. Faghópurinn fletti í gegnum gögnin til að átta sig á innihaldinu og ræddi um efni hennar.
  3. Þáttagreining á niðurstöðum faghóps 2 frá 2. áfanga RÁ: ADS kynnti lauslega niðurstöður þáttagreiningar sem Daði Már Kristófersson hefur unnið fyrir hópinn. Ákveðið var að bjóða honum á næsta fund hópsins til að kynna betur niðurstöður þáttagreiningarinnar. Þær niðurstöður verður mögulega hægt að nýta til að einfalda aðferðafræði hópsins.
  4. Kynning á drögum að spurningakönnun meðal ferðaþjónustuaðila: ADS hefur í samvinnu við Guðmund Björsson MS nema í ferðamálafræði verið að vinna að gerð spurningakönnunar sem leggja á fyrir ferðaþjónustuaðila. Markmið könnunarinnar er að kanna viðhorf ferðaþjónustuaðila til virkjunarframkvæmda. Drög að könnuninni voru send á meðlimi faghópsins til kynningar fyrir fundinn og voru rædd á fundinum. ADS mun vinna áfram að gerð könnunarinnar með hliðsjón af athugasemdum og ábendingum faghópsins. Næstu drög verða send á faghópinum þegar þau eru tilbúin.
  5. Önnur mál:
    1. ADS sagði frá fundi sem hún átti með ferðamálastjóra þann 21. október að ósk formanns verkefnastjórnar Rammaáætlunar. Á fundinum kynnti ADS fyrirliggjandi gögn sem faghópurinn mun vinna með. Óskaði ferðamálastjóri eftir formlegu erindi frá formanni verkefnisstjórnar um málið þannig að Ferðamálastofa geti metið hvort gögnin séu nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til, sbr. 10. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).
    2. GG sagði frá að skýrsla um rannsóknir á lífríki Skjálfandafljóts væri væntanleg frá Landsvirkjun.
    3. Rætt var um síðustu vettvanfsferð faghópsins um Hengilssvæðið og þá sérstaklega ábendingar frá oddvita og varaoddvita Grímsnes og Grafningshrepps sem telja mikilvægt að raflínur séu metnar með virkjunarframkvæmdum í ljósi þeirra miklu áhrifa sem þær hafa á aðra landnotkun.
  6. Fundi slitið kl. 13:55.

 

HHS