1. fundur faghóps 2, 15.05.2014

Fundarfrásögn

Faghópur 2 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

1. fundur, 15.05.2014, 09:00-12:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Áki Karlsson (ÁK), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðni Guðbergsson (GG), Sigrún Valbergsdóttir (SV), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Sveinn Runólfsson (SR) sem fór af fundi kl. 11.

Gestir: Björgvin Valdimarsson (BV) frá skrifstofu fjármála og rekstrar í UAR, Stefán Gíslason (SG) formaður verkefnisstjórnar.

Fundarritari: Herdís Helga Schopka (HHS).

Fjarverandi:  Jóhannes Sveinbjörnsson hafði tilkynnt forföll.

 1. Fundur settur kl. 09:10.  
 2. Kynning á meðlimum faghópsins – Fundargestir gerðu grein fyrir störfum sínum og aðkomu að rammaáætlun. 
 3. Kynning á viðfangsefni 3. áfanga rammaáætlunar – SG útskýrði grunnviðfangsefnið og fór stuttlega yfir atburðarás í RÁ3 fram að þessu.
  1. Fyrst ræddi SG lista Orkustofnunar yfir virkjunarkosta í RÁ3 og sýn hans á hvernig verkefnisstjórn beri að vinna úr honum. Formaðurinn benti einnig á að enn sé nokkur óvissa um hvaða kostir nákvæmlega munu lenda á borði faghópanna því ekki er enn víst að allir kostir muni uppfylla gagnakröfur væntanlegrar reglugerðar.
  2. Samkvæmt erindisbréfi verkefnisstjórnar þarf hún að skila tillögum til ráðherra í tæka tíð til þess að ráðherra geti lagt fram þingsályktunartillögu á vorþingi 2017. Tillögur verkefnisstjórnar þurfa því að fara í samráðs- og kynningarferli eigi síðar en í september 2016 og til þess að svo megi verða þurfa faghópar að skila niðurstöðum sínum á vordögum 2016. 
  3. SG lýsti forsendunum sem verkefnisstjórnin studdist við er fulltrúar í faghópa voru valdir. Hver og einn fulltrúi er í hópnum á forsendum eigin sérfræðiþekkingar en er ekki fulltrúi stofnana eða fyrirtækja og/eða atvinnugeira. Einnig var verkefnisstjórninni mikilvægt að fá sem blandaðastan hóp hvað varðar reynslu af störfum við rammaáætlun, starfsvettvang, kyn og búsetu.  
  4. Rætt um gagnakröfur, bæði varðandi virkjunarkosti og önnur gögn sem snerta hvern kost. SG ræðir mörk landsvæða sem til umræðu eru þegar verið er að skilgreina svæði til friðunar. Fulltrúar almennt á þeirri skoðun að faghópar 1 og 2 geti ekki notað sömu skilgreiningar. 
 4. Erindisbréf – ADS fór stuttlega í gegnum texta erindisbréfs hópsins.  
 5. Þóknun faghópa – HHS og BV fóru yfir hvernig þóknun til fulltrúa í faghópum verði háttað.
  1. Þau mál eru ekki fullfrágengin enn en ljóst er að samningar verða gerðir við hvern fulltrúa og tímakaup verður greitt, upp að ákveðnu þaki á tímafjölda. Gert er ráð fyrir að ekki sé greitt fyrir ákveðinn tímafjölda í mánuði, enda slíkt venja í nefndum hins opinbera. Fram kom að mikilvægt sé að stofnanir geri fulltrúum sem þar vinna kleift að vinna að faghópastörfum á dagvinnutíma og að nauðsyn sé að ganga frá þessum þóknunarmálum sem fyrst.
  2. Líklega munu fulltrúar úr einkageiranum fá sama tímakaup og fulltrúar sem vinna við stofnanir hins opinbera. 
  3. Ferðakostnaður vegna 5 funda á ári verður endurgreiddur. Sú ráðstöfun mætti mótstöðu fundarmanna. Í kjölfarið var rætt að mikilvægt væri að allur fjarfundabúnaður væri eins og best verður á kosið. 
  4. SG lagði til að uppgjör vegna vinnu við faghópa verði gert fyrir sem styst tímabil svo allir aðilar séu alltaf meðvitaðir um tímanotkun og kostnað. Hann lagði einnig til að einstök verkefni faghópanna verði kostnaðarmetin.  
 6. Kynning á aðferðafræði sem notuð var í RÁ2 – ADS kynnti aðferðafræðina sem notuð var í fyrri áfanga fyrir fundarmönnum. 
 7. Umræður um aðferðafræðina og mögulegar breytingar á henni – Nokkur umræða spannst um hvort þörf væri á að breyta aðferðafræðinni sem notuð var í RÁ2.
  1. Fram kom að hugsanlega þyrfti að breyta mörkum ferðasvæða vegna þróunar í ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar síðan í tíð RÁ2. 
  2. Bent var á ákveðna vankanta aðferðafræðinnar og að flöggunin, sem notuð var til að leiðrétta fyrir þessu, hefði ekki virkað fullkomlega. 
  3. Svokölluð Delphi-aðferð var rædd með það í huga að hópurinn nýtti sér afbrigði af henni í 3. áfanga eins og gert var í 2. áfanga. 
  4. Mikilvægt er að hópurinn velti fyrir sér frá byrjun hvernig eigi að halda utan um rökstuðning fyrir einkunnagjöf í viðfangamatrixunni, því nauðsynlegt er að fólk geti séð hvernig hver tala er rökstudd. 
  5. Kostir og gallar AHP-aðferðinnar voru ræddir. Sumir töldu ekki augljóst af hverju AHP-aðferðin hefði verið notuð til röðunar eftir að búið var að raða skv. einkunnagjöf fyrir hvert viðfang, enda væri sú aðferð mun huglægari en einkunnagjöf eftir viðföngum. Spurt var hvort áformað sé að nota AHP aftur. Bent var á að AHP hafi nýst til að bæta upp fyrir veikleika einkunnagjafaraðferðinnar fyrir staði sem eru einstakir á e-n hátt. Sem dæmi má nefna að  nokkrir staðir fluttust mun ofar í röð eftir AHP röðun (t.d. árnar í Skagafirði út af staðbundnu mikilvægi ferðaþjónustu og Urriðafoss vegna laxastofnsins) en aðrir fóru niður á við, t.d. Fremrinámur. Ekki er gott að segja hvort það sé vegna þess að Fremrinámur sé ekki áhugaverður ferðamannastaður eða vegna þess að fulltrúar í faghópnum þekki ekki svæðið og það hafi því ekki átt sér neinn málsvara. 
  6. Bent var á að aðferðafræðin hefði verið lengi í þróun og allir tilburðir í þá átt að breyta henni yrðu að vera vandlega ígrundaðir, ekki síst með tilliti til tímans sem slíkt myndi taka. Ekki var mikill hljómgrunnur fyrir róttækum breytingum og SR lýsti yfir ánægju með aðferðafræðina eins og hún er. 
  7. Rætt var um hagræði og aukin gæði sem myndi hljótast af því að nota LUK (Landfræðileg upplýsingakerfi) við vinnu faghópsins.  
 8. Fundaráætlun faghópsins – Tímabil sumarfría og vettvangsvinnu er að renna upp og helst er möguleiki á að ná næsta fundi í ágúst.  
 9. Önnur mál - HHS spurði hvort það væri möguleiki að láta vinna einhverjar rannsóknir í sumar, t.d. á þeim kostum sem eru í biðflokki og voru lagðir fram af virkjunaraðilum. ADS taldi það ómögulegt vegna þess tíma sem það tæki að móta rannsóknarverkefni auk þess sem flestir væru löngu búnir að ráðstafa sumrinu. GG benti líka á að það væri ekki góð nýting fjármuna að fara í rannsóknir nema að vel yfirlögðu ráði. SG fól HHS að fara að taka til gögn úr fyrri áföngum um kosti sem eru í biðflokki og voru lagðir fram af virkjunaraðilum.
 10. Fundi slitið kl. 12:30.

Herdís H. Schopka