6. fundur faghóps 1, 16.02.2015

Fundarfrásögn

Faghópur 1 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

6. fundur, 16.02.2015, 13:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Skúli Skúlason (SSk) formaður hópsins, Birna Lárusdóttir (BL), Gísli Már Gíslason (GMG), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Sólveig K. Pétursdóttir (SKP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG), Þorvaldur Þórðarson (ÞÞ) og Þorvarður Árnason (ÞÁ).

Forfölluð: Kristján Jónasson (KJ), Ása Lovísa Aradóttir (ÁLA).

Fundarritari: Herdís Helga Schopka

Auglýst dagskrá:

1) Verkferlið framundan

2) Virkjanakostir

3) Staða þekkingar og rannsóknarþörf - áframhald umræðu frá síðasta fundi

4) Vettvangsferð um virkjanasvæði

5) Skerpa á aðferðafræðinni – byrja umræðu um rök fyrir mati

6) Önnur mál – minnisblað um greiðslur

 

 1. Fundur settur kl. 13:10.    
 2. Verkferlið framundan:
  1. SSk kynnti tillögu að verkferli sem hópurinn gæti notað í vinnunni framundan. Lagt var til að við mat á heimildum, gögnum og þekkingu almennt yrðu notaðir þrír flokkar til að greiða fyrir vinnunni: a) gögnum/þekkingu um eitt eða fleiri viðföng er verulega ábótavant og mjög erfitt er eða ekki hægt að meta viðkomandi kost miðað við tímarammann, b) gæði gagna/þekkingar eru takmörkuð en hægt er að bregðast við með því að leita uppi frekari heimildir, gera einfaldar rannsóknir næsta sumar, skoða í vettvangsferð, c) gæði gagna/þekkingar eru nægileg til að hægt sé að meta virkjunarhugmyndir.
  2. Rætt var hvort það væri í verkahring faghópa eða verkefnisstjórnar að meta gæði gagna. SSk benti á að umrædd greining væri óformleg og til hægðarauka fyrir okkar vinnu sem sérfræðinga en við mundum að sjálfsögðu fylgja lögum og reglum um þessi mál við afgreiðslu virkjanahugmynda.
  3. SSk taldi ekkert því til fyrirstöðu að faghóparnir hæfust þegar handa við að meta gæði gagna. TGG tók að sér að útbúa drög að almennum viðmiðunum um hvaða lágmarkskröfur við gætum gert til gagna og þekkingar.
  4. Rætt var um með hvaða hætti væri best að tengja verðmætamat og mat á áhrifum framkvæmda.
  5. Að lokum yrðu niðurstöður teknar saman í lokaröðun með AHP-aðferðinni.
  6. Atriði sem þarf að hafa í huga á næstunni: Skilgreiningar svæða og framsetning á kortagrunni (LUK) og skilgreining viðbótarrannsókna.    
 3. Virkjanakostir. Verkefnisstjórn er með tillögur Orkustofnunar til umfjöllunar og mun afhenda okkur tillögur sínar á næstunni.      
 4. Staða þekkingar og rannsóknaþörf – áframhald umræðu frá síðasta fundi:  ÞÁ hélt kynningu um stöðu þekkingar hvað varðar landslag og víðerni. Hann fór yfir stöðu landslags og víðerna í íslensku lagaumhverfi og náttúruvernd, lýsti helstu rannsóknum á íslensku landslagi til dagsins í dag og setti svo fram hugmyndir um hvernig mætti standa að rannsóknum á landslagi og upplifun bæði almennings, útivistarhópa og ferðamanna á því í sumar og haust. Góðar umræður spunnust um efni kynningarinnar, t.d. var rætt hvernig mætti taka heimamenn meira með í umræðuna, menningarminjar í samhengi við landslag o.s.frv. ÞÁ minnti á að aðferðafræðin væri enn í þróun og að skýrslan um íslenska landslagsverkefnið sem unnin var á vegum RÁ2 væri afrakstur fyrstu grunnrannsóknar sem gerð hafi verið um náttúrlegt landslag á Íslandi. Engar ítarlegar rannsóknir á íslensku landslagi hafi verið unnar síðan því verkefni lauk árið 2009. Einnig var í þessu samhengi spurt um jaðarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og hvernig umræðan um þau stæði í dag.    
 5. Vettvangsferð um virkjanasvæði: SSk og ADS lögðu til að farið verði í vettvangsferð í vikunni sem byrjar 16. ágúst. Ákveðið var að HHS sendi öllum í faghópunum könnun um hvaða tími hentaði til fararinnar. Miðað var við að ferðin yrði farin einhvern tímann á bilinu 1. maí til loka september.     
 6. Skerpa á aðferðafræðinni – byrja umræðu um rök fyrir mati: SSk ræddi nauðsyn þess að hópurinn setji fram samræmda sýn á hvað hver einkunn fyrir hvert viðfang þýði (þ.e., röksemdafærslu). Á næsta eða þar næsta fundi verði svo rætt hvernig hver sérfræðingur lýsir viðmiðum um viðföng. Síðan þurfa sérfræðingar að meta viðföng fyrir allar virkjunarhugmyndir miðað við tiltæk gögn og þekkingu. Þetta gerist mishratt eftir gæðum gagna/þekkingar og hvort bíða þurfi eftir frekari rannsóknum o.s.frv. SUP tók að sér að búa til sniðmát fyrir framsetningu á verðmætamati og áhrifamati. Sambærilegt mat þarf að gerast á bæði verðmætum svæða og áhrifum framkvæmda.    
 7. Önnur mál:
  1. Kynningarfundur fyrirtækja um virkjunarkosti: Ákveðið var að bjóða Landsvirkjun á fund til faghópanna annaðhvort 2. eða 3. mars til að kynna virkjunarkosti sína.
  2. Áhrifasvæði virkjunarkosta – umfang áhrifasvæða er brýnt efni sem þarf að ræða betur.
  3. LUK (landfræðileg upplýsingakerfi) – Vinna faghóps 2 með landfræðileg upplýsingakerfi er komin vel af stað og faghópur 1 hefur fullan hug á að nýta sér þessa vinnu líka.    
 8. Fundi slitið kl. 16:00.

 

HHS


(Síðast breytt 15. mars 2015, stafsetning og orðalag lagfært á tveimur stöðum.)