56. fundur, 16.12.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða

56. fundur, 16.12.2015, 09:00-11:00, 13:30-17:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ) (kom á fundinn kl. 10:30), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Daði Már Kristófersson (DMK), formaður faghóps 4, sat fundinn kl. 09:20-10:00. Magnús Jóhannsson frá Veiðimálastofnun, sat fundinn kl. 13:30-14:30.

 1. Fundur settur kl. 09:20.
 2. Staða mála í faghópi 4: DMK greindi frá stöðu vinnu í faghópi 4. Hópurinn hefur hist nokkrum sinnum og átt góðar umræður um nálgunina. Ekki er fyrirsjáanlegt að hópurinn muni raða virkjunarkostum enda eru miklir aðferðafræðilegir annmarkar á því – efnahagslegt mat á virkjunarkostum er mjög háð því samhengi sem matið fer fram í og ræðst m.a. af orkuverði, hvaða aðrir orkukostir hafa verið nýttir, standa til boða og hafa verið verndaðir, viðhorfi á hverjum tíma til náttúruverndar og atvinnuuppbyggingar o.s.frv. Í störfum sínum mun hópurinn taka tillit til niðurstaðna hinna faghópanna þriggja því öll þau atriði skipta máli fyrir þjóðarhag. Afrakstur vinnu hópsins mun verða á formi greinargerðar með yfirliti yfir þær hagfræðilegu víddir sem taka þarf tillit til. Rætt var hvernig nýta mætti niðurstöður faghópsins í endanlegri niðurstöðu verkefnisstjórnar.
 3. Vinnulag verkefnisstjórnar við úrvinnslu á niðurstöðum faghópa: Áfram var haldið umræðum frá síðasta fundi, m.a. um það hvort raða skuli virkjunarkostum í tveimur skrefum til að endurspegla áhrif ráðstöfunar einstakra virkjunarkosta á einkunnir þeirra sem eftir standa. Einnig var rætt hvort gera skyldi klasagreiningu/þyrpingargreiningu til að einangra þá virkjunarkosti sem eru mjög frábrugðnir öðrum hvað einkunnadreifingu varðar.
 4. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir nr. 14-17 frá faghópi 2 voru lagðar fram. Fundargerðirnar liggja fyrir á vefsvæði rammaáætlunar.
 5. Fundarhlé var gert kl. 11:00-13:30.
 6. Umhverfisáhrif smávirkjana: Magnús Jóhannsson á Veiðimálastofnun kom á fundinn kl. 13:30 og kynnti skýrslu sína og Höllu Margrétar Jóhannesdóttur um smávirkjanir og áhrif þeirra á lífríki í vatni. Kynningin er liður í greiningu verkefnisstjórnar á því hvort rammaáætlun ætti hugsanlega að taka til smærri virkjana en 10 MW.
 7. Staða mála í faghópum 1-3: Skúli Skúlason, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Jón Ásgeir Kalmansson, formenn faghópa 1-3, mættu á fundinn kl. 14:40 til að gera grein fyrir stöðu mála í hópunum. Fram kom m.a. að aðferðafræði faghóps 1 væri nánast óbreytt frá 2. áfanga rammaáætlunar. Faghópur 2 hefur fækkað viðföngum í framhaldi af meginþáttagreiningu sem leiddi í ljós að nokkur viðföng höfðu nær engin áhrif á lokaniðurstöðu. Fyrsta skýrslan með niðurstöðum rannsóknaverkefna hópsins er komin út en unnið er að lokafrágangi annarra skýrslna. Faghópur 3 hélt íbúafund með íbúum sveitarfélaga við neðrihluta Þjórsár um sl. helgi. Fundurinn var haldinn með aðstoð Félagsvísindastofnunar HÍ sem mun vinna skýrslu um niðurstöður fundarins og skila snemma í janúar. Hópurinn sér ekki fram á að geta skilað af sér röðun fyrir 17. febrúar en mun vinna áfram að því að þróa aðferðafræðina fyrir seinni tíma. Fram kom að æskilegt væri að halda fleiri stýrða fundi eins og þann á Selfossi og lýsti verkefnisstjórn sig fylgjandi því.
 8. Önnur mál:
  • Fundaáætlun til febrúarloka: Ákveðnar voru dagsetningar funda verkefnisstjórnar fram í byrjun mars. Næstu fundir verða dagana 12., 19. og 26. janúar kl. 13-16. 
 9. Fundi slitið kl. 16:36.

 

Herdís H. Schopka