52. fundur, 14.10.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

52. fundur, 14.10.2015, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Forföll: Hildur Jónsdóttir (HJ) og Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH).

  1. Fundur settur kl. 09:10.
  2. Fundur með atvinnuveganefnd Alþingis 6. október sl.: Formaður mætti á fund atvinnuveganefndar í annað sinn á tveimur vikum þriðjudaginn 6. október sl. Á fundinn mættu einnig fulltrúar Skipulagsstofnunar, Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Fundurinn var boðaður að ósk varaformanns nefndarinnar til að fá fram sjónarmið umhverfisverndarsamtaka og Skipulagsstofnunar. Á fundinum spannst m.a. áhugaverð umræða um skilin á milli umhverfismats áætlana og mats á umhverfisáhrifum framkvæmda. Formaður gerði nánari grein fyrir fundinum.
  3. Faghópur um hagræna þætti: Skipunarbréf vegna faghóps 4 voru send út mánudaginn 12. október. Hópinn skipa Daði Már Kristófersson formaður, Brynhildur Davíðsdóttir og Sigurður Jóhannesson.
  4. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir nr. 9 og 10 frá faghópi 1 og fundargerð nr. 12 frá faghópi 2 voru lagðar fram. Fundargerðirnar liggja fyrir á vefsvæði rammaáætlunar.
  5. Staðan í vinnu faghópa: Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna á vegum faghóps 2 liggja nú fyrir. Áfangaskýrsla um eitt rannsóknaverkefni á vegum faghóps 1 hefur verið lögð fram. Allt bendir til að áætlanir um áfangaskil úr öllum yfirstandandi rannsóknaverkefnum fyrir 20. október gangi eftir.
  6. Opinn kynningarfundur: Undirbúningur kynningarfundar er hafinn en tillögur um dagsetningu liggja ekki fyrir. Gert er ráð fyrir að fundurinn verði haldinn í Þjóðminjasafninu, t.d. strax eftir hádegi á fimmtudegi.
  7. Aukaverkefni verkefnisstjórnar samkvæmt erindisbréfi: Í erindisbréfi verkefnisstjórnar eru nefnd nokkur atriði sem óskað er eftir að verkefnisstjórn vinni að umfram hin hefðbundnu verk sem tengjast mati og röðun virkjunarkosta. Formaður lagði fram stutt minnisblað um þessi verk. Meðal atriða sem verkefnisstjórn er ætlað að taka fyrir er nýtingarhlutfall jarðhita til raforkuframleiðslu, áhrif brennisteinsvetnis í lofti á lýðheilsu, stærðarmörk virkjunarkosta til umfjöllunar í rammaáætlun, hvort tímabært sé að fjalla um sjávarvirkjanir og raforkuframleiðslu með líforku, hvort æskilegt sé að endurmeta ónýttar virkjunarhugmyndir í orkunýtingarflokki þegar ákveðinn tími er liðinn og hvernig tengja megi vinnu og ákvarðanatöku í rammaáætlun við orkustefnu stjórnvalda. Rætt var hvernig staðið skyldi að þessum verkum og hvaða þörf sé fyrir sérfræðiaðstoð við framkvæmdina.
  8. Önnur mál: Skipulag vinnunnar framundan var rætt, skýrsluskrif og annað sem snýr að skilum verkefnisstjórnar á vinnu sinni, þ.m.t. möguleikinn á að útbúa læsilega einblöðunga með helstu upplýsingum um hvern virkjunarkost og niðurstöðum faghópa fyrir hvern þeirra um sig.
  9. Fundi slitið kl. 11:45.

 

Herdís H. Schopka