49. fundur, 02.09.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

49. fundur, 02.09.2015, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) (yfirgaf fundinn kl. 10:35), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

 

  1. Fundur settur kl. 09:15.
  2. Fundargerð síðasta fundar: Vegna sumarleyfa og annarra aðstæðna hafði ekki tekist að ganga endanlega frá fundargerð 48. fundar verkefnisstjórnar. Samþykkt var að fela formanni og starfsmanni verkefnisstjórnar að leggja endanlega útgáfu fundargerðarinnar fyrir til samþykktar að fundi loknum. Í framhaldi af þessu var rætt um frágang fundargerða almennt með hliðsjón af 9. gr. í starfsreglum verkefnisstjórnar nr. 515/2015. Samþykkt var að hér eftir verði gengið frá fundargerðum í öllum aðalatriðum fyrir lok viðkomandi fundar.
  3. Framkvæmd rannsóknarverkefna: Rætt var um framkvæmd rannsóknarverkefna í framhaldi af umræðum á síðasta fundi þar sem  formanni var falið að leita leiða til að endurskoða skipun faghópa til að komast hjá því að fulltrúar í þeim leiði jafnframt rannsóknarverkefni. Hugsanleg vandamál sem upp gætu komið vegna þessarar skörunar voru könnuð sérstaklega út frá lögfræðilegum, stjórnsýslulegum og siðferðilegum sjónarhornum, m.a. með aðstoð Vilhjálms Árnasonar, heimspekings. Meginniðurstaða þeirrar könnunar var sú að ekki sé rétt að gera breytingar á faghópunum, enda sé leitast við að tryggja, að þetta fyrirkomulag hafi ekki áhrif á endanlegar niðurstöður faghópa. Virkri aðkomu stofnana í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 sé ætlað að tryggja gæði gagna og einnig megi leita eftir óháðri ritrýni eftir því sem ástæða þykir til. Við val fulltrúa í faghópa var lögð mikil áhersla á að fá til verksins færustu sérfræðinga landsins á hverju sviði, en sömu einstaklingar eru oftar en ekki leiðandi í rannsóknum á viðkomandi sviði. Því er skörun nær óhjákvæmileg, sérstaklega að teknu tilliti til knappra tímamarka og fámennis innan fræðasamfélagsins. Meirihluti verkefnisstjórnar studdi þá meginniðurstöðu sem lýst er hér að framan en HB og ERL lýstu yfir efasemdum.
  4. Virkjunarsvæði Hverahlíðarvirkjunar: Í framhaldi af áliti verkefnisstjórnar og faghópa þess efnis að Norðurhálsar teldust ekki hluti af virkjunarkostinum Hverahlíðarvirkjun eins og hann er skilgreindur í núgildandi rammaáætlun hefur Orka náttúrunnar (ON) sent erindi til verkefnisstjórnar, dags. 25.8.2015, þar sem á það er bent að tvær borholur sem skáboraðar hafi verið frá Hverahlíð í átt að Norðurhálsum séu engu að síður innan umrædds virkjunarkosts, enda séu þær í fullu samræmi við þau gögn sem lögð voru til grundvallar rammaáætlun 2. Til að taka af allan vafa fer ON þess því á leit „að verkefnisstjórn staðfesti að núverandi borholur í Hverahlíð og nýting þeirra sé í samræmi við Rammaáætlun 2 og þau gögn sem lögð voru til grundvallar við undirbúning hennar“. Í erindinu kemur fram að ON geri ráð fyrir að senda verkefnisstjórn tillögu að frekari stækkun Hverahlíðarsvæðisins suður á Norðurhálsa sem nýjan virkjunarkost, Hverahlíð II, enda hafi verkefnisstjórn lýst sig reiðubúna að taka slíka tillögu til umfjöllunar. Samþykkt var að leita eftir staðfestingu faghópa á að umræddar borholur séu innan virkjunarsvæðis Hverahlíðarvirkjunar eins og það var afmarkað í 2. áfanga. Í framhaldi af þessu kom fram að þörf væri á að hnitsetja bæði framkvæmdasvæði á yfirborði og nýtingarsvæði neðanjarðar á þeim jarðhitasvæðum sem sett verða í orkunýtingarflokk, þannig að ævinlega sé ljóst hvaða svigrúm sé til staðar til skáborana. 
  5. Andmælabréf virkjunaraðila og Orkustofnunar vegna forgangsröðunar verkefnisstjórnar: Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn andmæli vegna þeirrar fyrirhuguðu ákvörðunar verkefnisstjórnar að taka tiltekna 27 virkjunarkosti í verndarflokki og orkunýtingarflokki ekki til endurmats þrátt fyrir óskir þar um, en verkefnisstjórn telur að um heimildarákvæði sé að ræða sem ekki skuli beitt nema fyrir liggi nýjar og betri upplýsingar um einstaka virkjunarkosti, breytta tækni og aðra breytilega þætti sem geti haft áhrif á flokkun virkjunarkosta og að það eigi ekki við um þessi 27 tilvik. Orkustofnun hefur einnig framsent andmælabréf orkufyrirtækja vegna nokkurra umræddra virkjunarkosta. Andmælabréfin voru lögð fyrir fundinn. Samþykkt var að fela formanni að leggja drög að svarbréfum í samráði við lögmenn og leggja þessi drög fyrir næsta fund verkefnisstjórnar til afgreiðslu.
  6. Hagkvæmnimat virkjunarkosta: Þann 21. ágúst afhenti Orkustofnun verkefnisstjórn endanlega útgáfu af skýrslu sinni um virkjunarkosti þar sem fram kemur m.a. niðurstaða úr röðun virkjunarkosta í hagkvæmniflokka. Rætt var um hvernig nýta beri þessar niðurstöður, m.a. með hliðsjón af því sjónarmiði sem fram kemur í andmælabréfum virkjunaraðila og í athugasemdum LV við starfsreglur verkefnisstjórnar að verkefnisstjórn taki ekki nægt tillit til hagrænna þátta í starfi sínu. Samþykkt var að leita álits lögmanna á því hvernig eðlilegast sé, m.t.t. laga nr. 48/2011, að flétta hagkvæmnimat virkjunarkosta inn í niðurstöður verkefnisstjórnar.
  7. Athugasemdir Landsvirkjunar við starfsreglur verkefnistjórnar: Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur borist bréf frá forstjóra Landsvirkjunar (LV), dags. 17. ágúst 2015, þar sem gerðar eru „verulegar athugasemdir“ við einstök efnisatriði í starfsreglum verkefnisstjórnar. Í bréfinu koma fram ábendingar sem nýtast í umræðum innan verkefnisstjórnar, en þar sem bréfinu er ekki beint til hennar kallar það ekki á sérstök viðbrögð á þessu stigi.
  8. Vettvangsferðir: Rætt hefur verið um að fara í vettvangsferðir að Austurgilsvirkjun og á Reykjanes. Lagður hefur verið vegarslóði að Austurgilsvirkjun, en hann er þó enn torfær. Samþykkt var að stefna að vettvangsferð að Austurgilsvirkjun í september og að dagsferð á Reykjanes í október.
  9. Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.
  10. Fundi slitið kl. 12:00.


Herdís H. Schopka