39. fundur, 10.02.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

39. fundur, 10.02.2015, 12:00-15:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Elín R. Líndal (ERL) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Fjarverandi: Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) tók þátt í fundinum símleiðis síðasta hálftímann.

  1. Fundur settur kl. 12:30.  
  2. Forgangsröðun virkjunarkosta til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn: 
    • Ólíklegt er að verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar muni á starfstíma sínum geta lokið umfjöllun um alla þá virkjunarkosti sem óskað hefur verið eftir að verkefnisstjórnin fjalli um. Á opnum kynningarfundi sínum þann 29. janúar sl. kynnti verkefnisstjórnin hugmynd að forgangsröðun. Verkefnisstjórn hefur óskað eftir áliti UAR um lagalegar forsendur slíkrar forgangsröðunar.                         
    • Formaður kynnti drög að forgangsröðun í takti við það sem sett var fram á kynningarfundinum, þ.e. að virkjunarkostir sem virkjunaraðilar hafa óskað eftir að teknir verði til umfjöllunar njóti forgangs í vinnu verkefnisstjórnar. Þann 21. janúar 2015 afhenti Orkustofnun verkefnisstjórn fullfrágengin gögn um 50 virkjunarkosti, en tveir þeirra (R3112A Arnardalsvirkjun og R3152A Vetrarveita í Hálslón) hafa síðan verið dregnir til baka þar sem í ljós kom að framkvæmdasvæði þeirra var að hluta innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta á reyndar einnig við um þriðja kostinn (R3113A Helmingsvirkjun), en hann var ekki á fyrrnefndum lista þar sem gögn voru ekki fullfrágengin. Eftir standa þá 48 virkjunarkostir, en væntanlega munu um 40 bætast á listann á næstu vikum þegar gögn um þá verða tilbúin til afhendingar. Af þessum 48 kostum eru 6 í orkunýtingarflokki skv. gildandi rammaáætlun og 6 í verndarflokki. Eins og fram hefur komið telur verkefnisstjórn að túlka beri ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun svo að ekki skuli taka virkjunarkosti og landsvæði í orkunýtingarflokki og verndarflokki til umfjöllunar á nýjan leik nema breyttar forsendur séu til staðar. Þetta álit styðst við athugasemdir með frumvarpi því er varð að lögunum, sjá einnig álit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 12. mars 2014.                                
    • Samkvæmt samantekt formanns eru forsendur óbreyttar í öllum aðalatriðum hvað varðar umrædda 6 virkjunarkosti og landsvæði í orkunýtingarflokki. Því lítur verkefnisstjórn svo á að þessir kostir skuli ekki teknir til umfjöllunar í 3. áfanga og verði því áfram í orkunýtingarflokki. Um er að ræða eftirtalda virkjunarkosti og landsvæði:  
    1. R3104B Hvalárvirkjun  
    2. R3105A Virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar  
    3. R3262A Stóra Sandvík  
    4. R3263A Eldvörp  
    5. R3264A Sandfell, Krísuvík  
    6. R3266A Sveifluháls, Krísuvík                                  
    • Samkvæmt samantekt formanns eru forsendur óbreyttar í öllum aðalatriðum hvað varðar fjóra virkjunarkosti í verndarflokki. Því lítur verkefnisstjórn svo á að þessir kostir skuli ekki teknir til umfjöllunar í 3. áfanga og verði því áfram í verndarflokki. Um er að ræða eftirtalda virkjunarkosti og landsvæði:   
      1. R3120A Hólmsárvirkjun – miðlun í Hólmsárlóni   
      2. R3122A Markarfljótsvirkjun   
      3. R3132A Gýgjarfossvirkjun   
      4. R3268A Brennisteinsfjöll                                                   
    • Samkvæmt samantekt formanns hafa forsendur breyst hvað varðar lónhæð eða rúmtak miðlunar í tveimur virkjunarkostum í verndarflokki. Samþykkt var að óska eftir því við faghópa 1 og 2 að þeir skili verkefnisstjórn áliti varðandi það hvort þessar breytingar gefi tilefni til að umræddir virkjunarkostir og landsvæði verði tekin til endurmats. Um er að ræða eftirtalda virkjunarkosti og landsvæði:  
      1. R3124B Tungnaárlón
      2. R3127A Norðlingaölduveita                                           
    • Í framlögðum gögnum kemur fram að virkjunarkosturinn R3156A Kjalölduveita geti komið í stað Norðlingaölduveitu, enda er þar fyrst og fremst um að ræða nýja útfærslu þar sem lónið hefur verið fært neðar í ána með lægri lónhæð og minni áhrifum á nærliggjandi svæði. Verði Norðlingaölduveita tekin til umfjöllunar telur verkefnisstjórn því eðlilegt að fjalla einnig um Kjalölduveitu. Verði Norðlingaölduveita hins vegar ekki tekin til umfjöllunar þarf að meta hvort þær breytingar sem Kjalölduveita felur í sér miðað við þá útfærslu Norðlingaölduveitu sem fjallað var um í 2. áfanga séu e.t.v. minni en svo að tilefni sé til að taka Kjalölduveitu til umfjöllunar. Samþykkt var að óska eftir því við faghópa 1 og 2 að þeir skili verkefnisstjórn áliti varðandi þetta atriði.                             
    • Til viðbótar þeim 13 virkjunarkostum sem tilgreindir hafa verið hér að framan, liggja fullfrágengin gögn Orkustofnunar fyrir um 35 virkjunarkosti. Þar af hafa virkjunaraðilar óskað eftir að 15 virkjunarkostir verði teknir til umfjöllunar en Orkustofnun hefur að eigin frumkvæði óskað eftir umfjöllum um 20 virkjunarkosti. Þar af eru tveir sem stofnunin leggur fram í samráði eða samvinnu við tiltekna virkjunaraðila.                           
    • Samþykkt var að fresta umræðu um hugsanlega forgangsröðun umræddra 35 virkjunarkosta þar til álit UAR um lagalegar forsendur forgangsröðunar liggur fyrir.    
  3. Gagnakröfur vegna mats á virkjunarkostum: 
    • Fram hefur komið að þörf sé á að skilgreina nánar hvaða lágmarksgagna um náttúrufar, menningarminjar, aðra nýtingu o.s.frv. skuli krafist áður en hægt sé að taka virkjunarkosti og landsvæði til umfjöllunar í faghópum og að ákvæði um þetta þurfi að fella inn í starfsreglur verkefnisstjórnar. ÞEÞ lýsti kröfum um náttúrufarsgögn í 2. áfanga og í framhaldi af því var rætt hvernig skilgreina mætti kröfurnar með sem samræmdustum hætti þrátt fyrir mikinn breytileika milli svæða.
    • Skv. 10. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun skal verkefnisstjórn leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort fyrirliggjandi gögn um einstaka virkjunarkosti séu nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til. Rætt var um hvað þetta hlutverk stofnananna fæli í sér í reynd og hvort þær ættu að vera með í ráðum við umrædda skilgreiningu á gagnakröfum.
    • Samþykkt var að fela formanni að vinna drög að gátlista um nauðsynleg gögn út frá viðföngum faghópa í 2. áfanga og hafa um það samráð við formenn faghópanna. Umrædd drög verði lögð fyrir næsta fund verkefnisstjórnar.              
  4. Aðferðafræði faghópa: Fram hafði komið fyrirspurn frá faghópi 2 um það hvort hópnum beri að nota svonefnda AHP-aðferðafræði. Verkefnisstjórn vísar í 10. gr. laga nr. 48/2011, en skv. henni skal beita „samræmdum viðmiðum og viðurkenndum aðferðum“. Í athugasemdum með frumvarpinu er varð að lögunum kemur fram að við það sé miðað að verkefnisstjórn „beiti svipuðum aðferðum við undirbúning og gerð tillagna sinna og þróaðar hafa verið á vegum fyrri verkefnisstjórna og faghópar vinni að endurbótum á þeim eftir því sem aukin þekking og aðrar aðstæður gefa tilefni til“.             
  5. Kynningar virkjunaraðila fyrir faghópa og verkefnisstjórn: Fram hafði komið ósk frá faghópi 2 um að faghópurinn bjóði virkjunaraðilum að halda kynningar á virkjunarkostum sínum. Verkefnisstjórn er hlynnt þessu og leggur til að faghópar velji tíma og bóki kynningar þannig að þær nýtist þeim sem best.    
  6. Næstu fundir verkefnisstjórnar: Staðfest var eftirfarandi fundaráætlun til aprílloka: 
    • Miðvikudag 18. febrúar kl. 13-17
    • Föstudag 27. febrúar kl. 10-12
    • Þriðjudag 10. mars kl. 12-15
    • Miðvikudag 18. mars kl. 13-16
    • Miðvikudag 25. mars kl. 14-16
    • Þriðjudag 7. apríl kl. 13-17
    • Miðvikudag 15. apríl kl. 13-16
    • Þriðjudag 28. apríl kl. 13-17       
  7. Fundi slitið kl. 15:00.


Herdís H. Schopka