34. fundur, 09.12.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

34. fundur, 09.12.2014, 09:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir úr faghópum: Anna G. Sverrisdóttir, Guðni Guðbergsson, Anna Dóra Sæþórsdóttir, Sveinn Runólfsson, Skúli Skúlason, Birna Lárusdóttir, Sólveig K. Pétursdóttir, Ása L. Aradóttir.

Gestir, fyrirlesarar: Sveinn Þorgrímsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun, Edward H. Huijbens frá Rannsóknamiðstöð ferðamála, Guðni Axelsson frá ÍSOR og Kristín Linda Árnadóttir og Hildur Vésteinsdóttir frá Umhverfisstofnun.

 1. Fundur settur kl. 09:20. 
 2. Kynningar sérfræðinga:.  
  1. Umfang og nýtingarmöguleikar sjávarorku: Sveinn Þorgrímsson frá ANR kynnti vinnu í ráðuneytinu um þennan orkugjafa. Kynning. Upptaka á YouTube.
  2. Loftmengun vegna jarðhitavirkjana: Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun, sagði frá rannsóknum og útreikningum á þessu sviði.  Kynning. Upptaka á YouTube.
  3. Staða þekkingar og rannsókna í ferðamennsku, einkum á hálendinu: Edward H. Huijbens frá Rannsóknamiðstöð ferðamála kynnti rannsóknir í ferðamennsku á Íslandi.  Kynning. Upptaka á YouTube.
  4. Friðlýsingarferli: Kristín Linda Árnadóttir og Hildur Vésteinsdóttir frá Umhverfisstofnun lýstu ferli Umhverfisstofnunar við að vinna friðlýsingar frá hugmynd til frágenginnar friðlýsingar.   Kynning. Upptaka á YouTube.
  5. Sjálfbærni jarðhitavirkjana: Guðni Axelsson hjá ÍSOR sagði frá nýjustu fræðum á þessu sviði.  Kynning. Upptaka á YouTube.
 3. Vindorka í rammaáætlun: Lagt var fram afrit af bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til Orkustofnunar, dags 27. nóv. 2014, sem er svar við bréfi Orkustofnunar til ráðuneytisins, dags. 29. okt. 2014, og meðfylgjandi minnisblaði stofnunarinnar um rammaáætlun og heimild Orkustofnunar til útgáfu virkjunarleyfa fyrir vindorkuver og aðra óhefðbundna virkjunarkosti. Í svari ráðuneytisins kemur fram það mat ráðuneytisins að sú „ákvörðun Orkustofnunar að veita virkjunarleyfi fyrir virkjunarkosti vegna vindorku þar til þriðji hluti rammaáætlunar hefur verið samþykktur“ sé ekki í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Því beini ráðuneytið þeim tilmælum til stofnunarinnar að taka við beiðnum er varða virkjunarkosti í vindorku.Verkefnisstjórn er alfarið sammála túlkun ráðuneytisins og gerir því ráð fyrir að Orkustofnun skili verkefnisstjórninni gögnum um virkjunarkosti í vindorku með sama hætti og í vatnsafli og jarðvarma, í samræmi við lögin og reglugerð nr. 530/2014 um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun.  
 4. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Formaður lagði fram drög að breytingartillögum við ákvæði starfsreglnanna um verksvið og verklag verkefnisstjórnar í samræmi við ábendingar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá því í nóvember. Samþykkt var að skerpa á orðalagi í 6. gr. starfsreglnanna um að niðurstöður faghópa skuli vera gagnsæjar og rekjanlegar. Þá var samþykkt að yfirfara orðalag 5. og 6. gr. enn frekar áður en starfsreglurnar verða samþykktar, einkum m.t.t. til verklags við gagnaöflun. 
 5. Ferðamennska og ferðaþjónusta: Borist hafði ábending frá Önnu Dóru Sæþórsdóttur, formanni faghóps 2, um að skerpa þyrfti á orðalagi í skipunarbréfi faghóps 2 varðandi það hvort hópnum sé aðeins ætlað að fjalla um virkjunarkosti út frá „ferðaþjónustu“ eða hvort umfjöllunin eigi að taka til „ferðamennsku“ almennt. Hugtakið „ferðaþjónusta“ nái yfir atvinnugreinina sem þjónustar ferðamenn en hugtakið „ferðamennska“ sé mun víðtækara og nái yfir athafnir ferðamanna. Verkefnisstjórn var sammála um þá túlkun að faghópnum sé ætlað að fjalla um áhrif virkjunarkosta á ferðamennsku almennt, en ákvörðun um nánari túlkun og hugsanlega breytingu á skipunarbréfi var frestað til næsta fundar.  
 6. Fundi slitið kl. 15:05.  

Herdís H. Schopka