32. fundur, 03.11.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

32. fundur, 03.11.2014, 10:00-13:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð. ÓÖH yfirgaf fundinn kl. 11:57.

  1. Fundur settur kl. 10:09. 
  2. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Starfsreglurnar eru í skoðun í ANR og verður umfjöllun um þær frestað þar til athugasemdir ANR liggja fyrir. 
  3. Minnisblað Orkustofnunar um vindorku í rammaáætlun: Í síðustu viku barst UAR minnisblað frá Orkustofnun, „um rammaáætlun og heimild Orkustofnunar til útgáfu virkjunarleyfa fyrir vindorkuver og aðra óhefðbundna virkjunarkosti“, þar sem fram kemur það mat stofnunarinnar „að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun gildi ekki, að óbreyttu, um vindorku, sjávarföll eða aðra óhefðbundna virkjunarkosti, vegna skorts á lagaheimild um þau bönd sem þannig yrðu lögð á atvinnufrelsi manna“. Afrit var sent til verkefnisstjórnar. SG gerði stuttlega grein fyrir efni minnisblaðsins. Málið er til skoðunar hjá lögfræðingum ráðuneytisins. 
  4. Fjármál faghópa – Nýtt minnisblað: SG fór yfir endurbætt minnisblað um þóknanir til fulltrúa í faghópum, en eldra minnisblaði var breytt til að koma til móts við mikla óánægju fulltrúa.  
  5. Erindi frá forstöðumanni Minjastofnunar Íslands: Tekið var fyrir erindi forstöðumanns MÍ til verkefnisstjórnar, dags. 19. júní 2014, þar sem farið var fram á að fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar, sem er fulltrúi í faghópi, verði leyst undan skyldum sínum þar og núverandi starfsmaður MÍ komi í hennar stað. Verkefnisstjórnin var sammála um að ekki væri unnt að verða við þessari beiðni þar sem fulltrúar í faghópum hefðu verið valdir vegna sérfræðiþekkingar þeirra en ekki vegna tengsla við tilteknar stofnanir. HB benti á að nauðsynlegt sé að halda góðu samstarfi við stofnanir og lagði til að í tilfellum sem þessum tilnefndi viðkomandi stofnun tengilið við faghópa.  
  6. Bréfsefni: HJ benti á að í haus bréfsefnis þyrfti að koma skýrt fram frá hverjum bréfið væri og titillinn þyrfti einnig að vera stjórnsýslulega réttur. SG lagði til að lógóið væri látið halda sér eins og er en fullt stjórnsýslulegt nafn, „Rammaáætlun – vernd og orkunýting landsvæða“ eða „Rammaáætlun – verndar- og orkunýtingaráætlun“ komi fram. Fyrri titilinn var valinn.  
  7. Sérfræðikynningar: SG fór yfir tillögur sem fram hafa komið í verkefnisstjórninni um efni sem æskilegt væri að fá kynningar um. Rætt var um að hver gestur fengi 1 klst til umráða, þ.e. 30 mín fyrir kynningu og 30 mínútur fyrir fyrirspurnir. Faghópum verður boðið á allar kynningar.
    • Loftmengun frá jarðvarmavirkjunum
    • Sjálfbærni og endingartíma jarðvarmavirkjana
    • Niðurdæling við jarðvarmavirkjanir
    • Mótun stefnu um lagningu raflína í jörð
    • Skýrslan „Þjóðhagslegt gildi uppbyggingar flutningskerfis Landsnets“
    • Skýrsla um sjónræn áhrif línulagna
    • Friðlýsingarferli UST
    • Vindorka 
    • Sjálfbærni almennt
    • Umhverfismat áætlana og landskipulagsstefna
    • Staða þekkingar og rannsókna í ferðamennsku, einkum á hálendinu
    • Sjávarfallavirkjanir
    • Sæstrengur
    • Áhrif virkjana í jökulám á lífríki á grunnslóð  
  8. Fundi slitið kl. 12:13.

Herdís H. Schopka