10. fundur, 08.10.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

10. fundur, 08.10.2013, 10:20-12:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Guðjón Bragason (GB) varamaður Elínar R. Líndal, Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Fjarverandi: Hildur Jónsdóttir

  1. Fundur settur kl. 10:20.
  2. Fundargerð síðasta fundar: Stutt umræða og ákveðið að HHS sendi út uppfært uppkast til samþykktar.  
  3. Beiðni um framlengingu á skilafresti: SG sendi inn skriflega beiðni um frestun á skiladegi um fjórar vikur. Ekkert svar var komið frá ráðherra enn.
  4. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis: SG og HHS voru boðuð á fund nefndarinnar og verður sá fundur á morgun, miðvikudaginn 9.10.2013. Nefndin hefur áhuga á að kynna sér stöðu mála með vinnuna við Rammaáætlun.
  5. Fundarbeiðnir: Þrjár beiðnir um fundi með verkefnisstjórn og/eða formanni hennar liggja fyrir. Umhverfisnefnd SAF hefur beðið um að fá formann á fund, Orri Vigfússon og erlendir sérfræðingar hafa beðið um fund þann 20. nóvember og Samorka hefur beðið um tvo fundi með formanni. Annar fundurinn með Samorku hefur þann tilgang að fá svör frá verkefnisstjórn og Orkustofnun um frágang gagnaskila o.þ.h. og hinn fundurinn er veitustjórafundur sem haldinn verður 5. desember næstkomandi. Einnig ber að nefna Umhverfisþing 8. nóvember nk., en á því mun SG halda 10 mínútna erindi. Ræða þarf innan verkefnisstjórnar stefnu hennar varðandi fundi með hagsmunaaðilum. Í 2. áfanga voru auglýstir viðtalstímar við verkefnisstjórn og  var öllum umsækjendum úthlutað tíma til að gera grein fyrir máli sínu fyrir verkefnisstjórninni; vel mætti hugsa sér að svipað fyrirkomulag verði viðhaft í 3. áfanga. Í umræðum á fundinum var bent á valdahalla milli talsmanna nýtingar annars vegar og verndar hins vegar og rætt stuttlega hvort og þá hvernig verkefnisstjórn bæri að bregðast við því.
  6. Skýrsla Skúla Skúlasonar (SS) um laxfiska í Þjórsá var ekki alveg tilbúin fyrir fundinn eins og vonast hafði verið til en pappírseintökum af nánast fullbúnu uppkasti var dreift á fundinum. Nokkrar umræður spunnust um væntanlega beiðni verkefnisstjórnar til Landsvirkjunar um frekari upplýsingar, sem unnin verður upp úr skýrslu SS. Tekið verður fram í bréfi til LV að spurningalistinn sem þar verður afhentur sé ekki tæmandi.
  7. Fjármál faghópa/verkefnisstjórnar: Ákveðið var á 9. fundi verkefnisstjórnar að SG og HHS ynnu einfalda formúlu að greiðsluformi til meðlima faghópa. Þessi tillaga var lögð fram til umræðu á fundinum og kom fram ósk um að UAR geri formlega tillögu um greiðslu til faghópa, sem mætti byggja á þeim tillögum SG og HHS. Í fyrri áföngum fór 90% vinnunnar fram í faghópum. Þar var gert upp í lok hvers árs, aðeins fundartími borgaður en enginn undirbúningur. Einnig mælir verkefnisstjórn með að allir meðlimir verkefnisstjórnar fái greidda fasta mánaðarlega þóknun fyrir vinnu sína þannig að allir í verkefnisstjórninni sitji við sama borð.
  8. Auglýsing Orkustofnunar eftir umsóknum um að virkjunarkostir verði teknir til afgreiðslu hjá verkefnisstjórn 3. áfanga Rammaáætlunar var birt í fjölmiðlum og á heimasíðu Orkustofnunar í síðastliðinni viku. Í auglýsingunni var gefinn frestur til 1. nóvember 2013 til að skila inn umsóknum. Verkefnisstjórn er þeirrar skoðunar að fresturinn sé of stuttur. Einnig telur verkefnisstjórn mjög óheppilegt að auglýsingin hafi verið birt án undangengins samráðs við verkefnisstjórn.
  9. Heimasíða: Umræður.
  10. Starfsreglur og reglugerð fyrir verkefnisstjórn eru í vinnslu í UAR. Öll gögn sem þurfti frá verkefnisstjórn fyrir samningu reglugerðarinnar hafa borist lögfræðingum ráðuneytisins.
  11. Fundi slitið kl. 12:30.

Herdís H. Schopka