10. fundur faghóps 2, 06.12.2022

Fundarfrásögn

Faghópur 2  

5. áfangi rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

10. fundur, 06.12.2022, kl. 14:30-15:50

Fundur haldinn í netheimum

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Bryndís Marteinsdóttir (BM), Einar Torfi Finnsson (ETF) Guðni Guðbergsson (GG), Hjörleifur Finnsson (HF), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ), Skarphéðinn G. Þórisson (SGÞ) og Unnur Svavarsdóttir (US).

Fundarritari: SSJ

Fundur settur kl. 14:30 

  1. Fréttir af fundi með verkefnisstjórn. ADS sagði frá fundi formanna faghópa með verkefnisstjórn sem haldinn var föstudaginn 2. desember s.l. Þar voru m.a. rædd eftirtalin atriði: 
    • Þeir vindorkukostir sem voru kynntir verkefnisstjórn og faghópum á kynningarfundum í nóvember eru ekki allir komnir inn á borð Orkustofnunar. Orkustofnun á von að fá gögn frá 2-3 til viðbótar og eru þeir allir frá Zephyr. 
    • Jöfnunarorka fyrir vindorkuver. Landsvirkjun mun að öllum líkindum nota þá jöfnunarorku sem fellur til frá öðrum raforkuverum í hennar eigu fyrir Búrfellslund og Blöndulund. Eftir það yrði mjög lítil jöfnunarorka eftir í kerfinu fyrir önnur vindorkuver og óljóst hvaðan sú orka á að koma. 
    • Þriggja manna hópur er að skoða málefni vindorku (lagalega umgjörð og þ.h.) og mun hann skila af sér í febrúar en þá á málið eftir að fara í gegnum Alþingi. Verkefnisstjórn leggur áherslu á heildstæða nálgun. 
    • Verkefnisstjórn ætlar að taka saman öll gögn fyrir hvern og einn virkjunarkost sem mun nýtast fyrir vinnu faghópa. 
    • Áður en kostirnir koma til meðferðar hjá faghópum mun verkefnisstjórn fara yfir alla kostina, meta gögn og grisja út þá kosti sem ekki standast ákveðin skilyrði. 
    • Verkefnisstjórn hyggst koma á kynningarfundi/fundum með þeim aðilum sem hafa látið sig málefni vindorku varða út frá sjónarmiðum náttúruverndar, ferðamennsku, útivistar og annarra þátta sem vakin hefur verið athygli á á gagnrýnan hátt. Faghópar 1 og 2 hafa lagt inn hugmyndir að aðilum. 
    • AGS spurði hvort ósk Landverndar til verkefnisstjórnar um að taka aftur til skoðunar tvö landsvæði í orkunýtingarflokki, Hvalárvirkjun á Vestfjörðum og Eldvörp á Reykjanesi, hefði verið rædd á fundinum. ADS sagði að það hefði ekki verið gert. 
  2. Tillaga faghóps 2 um rannsóknarverkefni. ADS sagði frá því að hún hefði sent inn tillögu til verkefnisstjórnar að tveimur rannsóknarverkefnum. Annars vegar heimildarýni á áhrifum vindorkuvera á ferðaþjónustu og hinsvegar heimildarýni á áhrifum hennar á aðra landnotkun. 
  3. Umræða um kynningar á vindorkuhugmyndum. Á kynningunum kom í ljós að ekki er búið að ákveða hæð vindmylla í mörgum af þeim kostum sem kynntir voru. Ekki er hægt að gera endanlega sýnileikagreiningu fyrr en það liggur fyrir og þá um leið skoða áhrif þeirra á ferðamennsku. Þegar hæð vindmylla er óljós þarf að gera ráð fyrir áhrifum þeirra miðað við hæstu stöðu. Á kynningunum kom einnig fram að grunnvinnu skortir í einhverjum tilvikum. Því er nauðsynlegt að rýna gögnin og taka út þá kosti sem ónóg gögn eru um eins og verkefnisstjórn hyggst gera. 
  4. Hugarflug um viðfangsefni faghóps 2. 
    • GG benti á verið sé að gefa út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun og óskað hafi verið eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar m.t.t. vatnatilskipunar. GG benti á þann möguleika á að fá Eydísi Salome Eiríksdóttur hjá Hafrannsóknastofun til að kynna verkefnisstjórn og faghópum áhrif vatnatilskipunar á virkjunarkosti en miklar sveiflur í vatnsmagni straumvatna geta minnkað gæði vatns niður fyrir ásættanleg viðmið. Við mat á vindorku þyrfti einnig að taka tillit til vatnsfalla og áhrifa á þau ef þau verða notuð til raforkuframleiðslu á jöfnunarorku. 
    • Rætt var um hvort og þá hvernig ljós á vindmyllum yrðu tekin með í sýnileikagreiningu vindorkuvera. 
    • ADS leggur til að hefja vinnu við virðismat ferðasvæða eftir áramót. Hægt er að meta þau svæði sem verða fyrir áhrifum af þeim virkjunarkostum sem líklegt er að verkefnastjórn muni leggja fyrir faghópana. Bæði þarf að endurmeta svæðin sem metin voru í 4. áfanga en einnig þarf að meta þau svæði sem ekki hafa verið metin áður og munu verða fyrir áhrifum. Samhliða því yrði afmörkun og stærð ferðasvæða frá 4. áfanga endurskoðuð. BM lagði til að farið yrði í að skilgreina nauðsynleg gögn til að meta áhrif virkjunarkosta á aðra landnýtingu og safna þeim saman. 
    • ADS sýndi þrívíddargögn í kortagrunni sem Landmælingar hafa útbúið fyrir Rammaáætlun. Linkur á þrívíddarmynd í grunninum er DRAFT - Wind farms visualization - pokus doma (hrabalikova.github.io). Einnig sagði hún frá því að það sé verið að útbúa aðgang fyrir hvern og einn inn í grunninn en aðgangur að grunninum er á slóðinni https://atlas.lmi.is/mapview/?application=ramma og er farið í gegnum island.is. Mikilvægt er einnig að fá inn í grunninn gögn frá fyrri áföngum. 
  5. Sameiginlegur fundur F1 og F2 ADS sagði frá því að hún og formaður faghóps 1 hefðu rætt þann möguleika að hafa sameiginlegan fund faghópa 1 og 2 í janúar, m.a. til að fara yfir aðferðafræði hópanna. Tekið var jákvætt í það en talið gott að faghópur 2 yrði búinn að funda áður um aðferðafræðina og prófa virðismat á nokkrum svæðum. Ákveðið að hafa tvo vinnufundi í janúar, 10. og 18. janúar og stefna síðan að sameiginlegum fundi. ADS mun stinga upp á sameiginlegum fundi þann 24. janúar við formann faghóps 1. Fundur sem vera átti 13. desember n.k. fellur niður. 
  6. Önnur mál ADS sagði frá því að doktorsvörn Editu Tverijonaité yrði mánudaginn 19. desember n.k. en hún byggir m.a. á rannsóknum sem hún vann fyrir faghópinn í 4. áfanga.

Fundi slitið kl. 15:50