16. fundur faghóps 1, 06.12.2022

Fundarfrásögn

Fundur faghóps 1

Í 5. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða (RÁ).

16. fundur – 6. desember 2022.

Fjarfundur

Mætt: Hafdís Hanna Ægisdóttir (HHÆ) formaður, Birna Lárusdóttir (BL), Edda Ruth Hlín Waage (ERW), Guðný Zoëga (GZ), Ívar Örn Benediktsson (ÍÖB), Jón Einar Jónsson (JEJ), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristín Svavarsdóttir (KS) og Kristján Jónasson (KJ).

Fjarverandi: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir (GRJ)

Fundarritari: BL

Fundur hófst kl. 9

  1. HHÆ greindi frá fundi formanna faghópa með verkefnisstjórn 2. des. sl. Verkefnastjórn mun ræða þá vindorkukosti sem nú eru á borðinu og fela faghópum að meta kostina í kjölfarið á því.

  1. Fyrsti fundur ársins 2023:  Áætlað er að halda fyrsta fund ársins 2023 þann 10. janúar. Hann verður sameiginlegur með faghópi 2. Ræddar voru hugmyndir að umræðuefnum á fundinum, svo sem samlegð varðandi einstök viðföng (einkum landslag og minjar), aðferðafræði og þróun hennar og möguleika á sameiginlegum rannsóknum.

  1. Aðferðafræði faghóps 1:  Aðferðafræði faghóps 1 var rædd, m.a. um þróun hennar og einkunnagjöf og hvernig þetta tvennt fléttast saman í ferlinu. Ákveðið var að fara vel yfir aðferðafræðina til að meta hvort ástæða sé til að þróa hana frekar. Ákveðið var að óska eftir kynningu frá fyrrum formanni faghóps 1 til að fara yfir þróun aðferðafræðinnar í árdaga RÁ.

  1. Rannsóknir á fuglum:  JEJ greindi frá erlendum rannsóknum sem hann hefur kynnt sér um haferni og aðra fugla og hvaða skilyrði hafa verið sett í tengslum við nálægð vindorkugarða við búsvæði þeirra og farleiðir. Í þessu sambandi kom upp umræða um að fuglar gætu haft menningar- og tilfinningalegt gildi engu síður en líffræðilegt en ERW hefur skrifað greinar um slíkt sjónarhorn á æðarfugla og álftir. BL nefndi einnig stefnumótun English Heritage um vindorkugarða og áhrif þeirra á menningarlandslag. Ákveðið var að setja vísindagreinar og annað efni sem tengist einstökum viðföngum í möppur á Teams.

  1. HHÆ kynnti stöðu mála varðandi endurmat á virkjunarhugmyndum í Héraðsvötnum, sbr. breytingu á 3. áfanga rammaáætlunar síðastliðið sumar. Málið er komið í ferli; KS, HHÆ og JSÓ sinna málinu í samstarfi við aðra sérfræðinga.

Fundi slitið kl. 10:15