50. fundur, 27.11.2020

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar

um vernd og orkunýtingu landsvæða

50. fundur 27. nóvember 2020 kl. 11-13

Fjarfundur á Teams

Mætt voru

Verkefnisstjórn: Elín R Líndal, Guðrún Pétursdóttir, Guðrún Sævarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson, Magnús Guðmundsson, og Þórgnýr Dýrfjörð

Formenn faghópa: Ása L. Aradóttir, Anna Dóra Sæþórsdóttir, Jón Ásgeir Kalmansson, Sigurður Jóhannesson.

Umhverfisráðuneyti: Herdís Helga Schopka

Gestir: Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir (ABG), vrkefnastjóri vatnamála, Umhverfisstofnun

Boðuð forföll: Þóra Ellen Þórhallsdóttir


Fundarfrásögn

 1. Fundur settur kl. 11:05. 
 2. ABG Kynning Vatnaáætlun 2022-2027, sem send verður til opinberrar kynningar á næstunni. Þótt lög byggð á Vatnatilskipun Evrópusambandsins hafi tekið gildi 2011, hefur innleiðing þeirra tekið nær áratug. Glærukynning ABG um vatnaáætlun er aðgengileg á vef rammaáætlunar og nánari upplýsingar er að finna á www.vatn.is. Ákveðið að Umhverfisstofnun haldi sérstaka kynningu á næstunni fyrir RÁ4 um viðmið og aðferðir við mat á ástandi vatnshlota og mögulega áhrifavalda þeirra. Allir áhugasamir velkomnir, þótt kynningin sé einkum ætluð faghópi 1 og vatnasérfræðingi faghóps 2. 
 3. Staða mála hjá faghópum:  
  1. Faghópur 1
   1. Verið er að taka saman yfirlit yfir fyrirliggjandi gögn fyrir mat á virkjunarkostum vegna lögbundinna umsagna um gæði gagna, sem miðað er við að senda til viðkomandi stofnana á næstunni. 
   2. Afmörkun matssvæða er enn í vinnslu. Við mat á virkjunarhugmyndum í jarðvarma og vatnsorku hefur meginreglan verið sú að miða við sömu matssvæði fyrir öll viðföng og undirviðföng. Faghópurinn leggur áherslu á að að það gildi líka um vindorkuver, með þeirri undantekningu að sýnileiki og áhrif á landslag séu metin fyrir stærri svæði. Þar sem umfjöllun um vindorkuverk hefur verið takmörkuð í fyrri áföngum þarf að vanda vel til verka við afmörkun matssvæða, þar sem gera má ráð fyrir að niðurstaðan núna hafi fordæmisgildi fyrir síðari áfanga. 
   3. Vistun gagna og yfirfærsla til næstu áfanga RÁ og annarra notenda. Tryggja verður að gögn sem aflað er á vegum RÁ séu vistuð þannig að þau séu auðfundin, aðgengileg og nýtist til framtíðar. Finna þarf réttu fagstofnanirnar til að vista þessi gögn og gera þau aðgengileg eftir því sem við á. Vinnuhópur tekur þetta að sér (varaformaður vkst, formenn faghópa og HHS fulltrúi ráðuneytis). 
   4. Mat virkjunarkosta: Mikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og ætlað að vinna að mati í janúar. 
  2. Faghópur 2: 
   1. Er um það bil að skila af sér niðurstöðum tveggja rannsókna: · Viðhorf ferðaþjónustu og útivistariðkenda til nokkurra virkjanakosta í 4.áfanga rammaáætlunar · Mat ferðaþjónustuaðila á stærð áhrifasvæða virkjana 
   2. Vakin var athygli á að enn vantar kynningu vegna jarðhitakosts frá Svartsengi og verður brugðist við því án tafar. 
   3. ADS leggur til að allir faghópar noti sömu virkjunarkosti úr RÁ3 sem viðmið við röðunina á þeim 9 kostum sem koma til mats í 4. áfanga rammaáætlunar. 
  3. Faghópur 3: Þegar hafa verið könnuð viðhorf sveitarstjórnarmanna og annarra til fyrirliggjandi vatnsorkukosta og verið er að vinna að slíkri könnun fyrir vindorkukostina. Svartsengi stendur enn út af, ákvörðun tekin um það í kjölfar kynningar. Gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í janúar. 
  4. Faghópur 4
   1. Enn er unnið að gerð leiðbeininga um hagrænt mat og er viðhorfskönnun nú í gangi á ákveðnum virkjunarkosti. Þessar leiðbeiningar munu nýtast við gerð ítarlegs hagræns mats sem tekur til allra þátta sem meta þarf. Slíkt mat þarf að vinna, en ætti að framkvæma á svipuðu stigi og umhverfismat, þar sem það er of umfangsmikið, tímafrekt og dýrt til að falla að tímaramma RÁ. 
   2. Formaður minnti á að hávært kall er og hefur verið eftir efnahagslegu mati á virkjunarkostum sem RÁ metur. Því verði F4 að finna leið til að gefa a.m.k. umsögn um hagræna þætti hvers kost, sem RÁ4 er að meta, þótt sú umsögn henti mögulega ekki til röðunar kostanna. Formaður leggur áherslu á að F4 geri það fyrir alla kosti sem faghópar RÁ4 eru nú að meta. 
 4. HHS vakti máls á að nokkuð vanti upp á varðandi nýjar upplýsingar um starf RÁ4 á vefnum. Formaður og hún munu vinna annálinn Framvinda 4. áfanga og setja inn á næstunni. 
 5. Næsti fundur verður kynning á Svartsengi í næstu viku og kynning Umhverfisstofnunar fyrir faghópa. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.

GP/HHS