5. fundur verkefnisstjórnar, 30.08.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

5. fundur 30.08. 2017 09:30-12:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD), Magnús Guðmundsson (MG) og Herdís Helga Schopka (HHS).

Gestir: Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, heimsótti fundinn kl. 10:30-11:30. Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, heimsótti fundinn kl. 11:45-12:30.

1.      Fundur settur kl 9:30.

2.      Fundartímar haustsins 2017: Fastsettir voru fundir í verkefnisstjórninni á mánudögum kl 13-16 sem hér segir:  6.fundur 11.9., 7.fundur 18.9., 8.fundur 2.10., 9.fundur 9.10., 10.fundur 23.10., 11.fundur 6.11., 12.fundur 20.11., 13.fundur 4.12.  kl. 13-16.

3.      Vinna verkefnisstjórnar haustið 2017: Skipulag vinnu verkefnisstjórnar á næstu mánuðum rætt. Helstu atriði eru: Farið verður yfir lagaramma og reglugerðir. Skýra þarf óljós atriði, eins og áhrif þess að Alþingi hefur ekki enn afgreitt tillögu ráðherra úr 3.áfanga RÁ. Skipun formanna faghópa og verklag faghópa skýrt.

4.      Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri: Rætt var hvernig samvinna verkefnisstjórnar og Orkustofnunar (OS) geti orðið sem skilvirkust, hvernig samnýta megi upplýsingar og bæta verklag.

Menn voru sammála um að brýnt er að haga vinnunni þannig að sá knappi tími sem verkefnisstjórn er ætlaður nýtist sem best, og þótt  tillaga 3.áfanga RÁ hafi enn ekki verið afgreidd, sé rétt að hefjast handa við að afla gagna sem vantar svo taka megi ákvarðanir um virkjunarkosti sem nú eru í biðflokki.

GAJ bauð aðgang að marglaga kortavefsjá sem OS hefur unnið að í samvinnu við ýmsar stofnanir og nýtast mun vel við þá vinnu sem nú fer í hönd. MG var falið að vinna með starfsmanni OS að uppsetningu á því samstarfi.

Aðspurður taldi GAJ að um 3-4 mánuði þyrfti frá því OS auglýsir eftir virkjunartillögum þar til tillögurnar eru lagðar fyrir verkefnisstjórn. Hann minnti á mikilvægi þeirra virkjanakosta sem OS leggur til, í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar stofnunarinnar, sem m.a. leggur áherslu á orkuöryggi um land allt.

OS hefur greint á við UAR og verkefnisstjórn RÁ um ákveðin atriði í túlkun laga og aðferðafræði RÁ. Ákveðið að lögfræðingar UAR og OS greini álitamálin.

5.      Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ: SJ inntur eftir því  hvernig verkefnisstjórn geti best sinnt þeirri skyldu að meta hagræn áhrif virkjunarkosta. SJ telur að best sé að gera skilyrt verðmætamat fyrir hvern virkjunarkost, sé þess kostur. Hins vegar er sú aðferð bæði tímafrek og dýr,  kostnaður geti hlaupið á nokkrum milljónum króna fyrir hvern virkjunarkost. Þó verði aðferðin skilvirkari eftir því sem fleiri virkjunarkostir eru metnir og ferlið betur skilgreint. Erlendis er mjög alengt að gerð sé kostnaðar- og ábatagreining fyrir alla virkjunarkosti. Ræddir voru mismunandi valkostir í ljósi þess þrönga tíma- og fjárhagsramma sem verkefnisstjórn eru settir. Samvinnu við SJ verður fram haldið til að skýra þá möguleika sem verkefnisstjórn hefur í þessu sambandi.

6.      Fleira ekki gert og fundi slitið kl 12:39

HHS ritaði fundargerð.