49. fundur, 13.10.2020

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar

um vernd og orkunýtingu landsvæða

49. fundur 13. október 2020 kl 14:00-18:00

Fjarfundur á Teams

Mætt voru

Verkefnisstjórn: Elín R. Líndal, Guðrún Pétursdóttir, Guðrún Sævarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson, Magnús Guðmundsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Þórgnýr Dýrfjörð

Faghópur 1: Ása Aradóttir, Jón S. Ólafsson, Kristján Jónasson, Sólborg Una Pálsdóttir, Tómas Grétar Gunnarsson, Þorvarður Árnason

Faghópur 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir, Anna G. Sverrisdóttir, Einar Torfi Finnsson, Guðmundur Jóhannesson, Guðni Guðbergsson, Ólafur Örn Haraldsson, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, Sveinn Runólfsson.

Faghópur 3: Jón Ásgeir Kalmansson, Hjalti Jóhannesson, Magnfríður Júlíusdóttir, Sjöfn Vilhelmsdóttir.

Faghópur 4: Sigurður Jóhannesson.

Umhverfisráðuneyti: Herdís Helga Schopka, Jón Geir Pétursson, Þorbjörg Auður Ævarr Sveinsdóttir.

Gestir: Ágúst Arnórsson, Margrét Wendt, David C. Ostman, Aðalbjörg Egilsdóttir


 1. Formaður verkefnisstjórnar setti fundinn og bauð alla velkomna. Markmið fundarins er að fá yfirsýn yfir stöðu verkefna í hverjum faghópi og leggja drög að framhaldi vinnunnar. 
 2. Skil RÁ4
  • Formaður minnti á að verkefnisstjórn bárust ekki virkjanakostir til mats frá Orkustofnun fyrr en í febrúar og apríl 2020. Nægileg gögn til að hefja mat fylgdu 14 þeirra: 7 vatnsorkukostum 5 vindorkuverum og einni jarðvarmavirkjun. Faghóparnir hafa unnið að mati þeirra, en ekki er ljóst á þessu stigi hversu langt verður komist á þeim tíma sem til umráða er. Ljóst er að ekki er heppilegt að bera saman svo fáa kosti innbyrðis, en til greina kemur að setja þá inn í röðun virkjanakosta sem RÁ3 afgreiddi. JGP tók undir að sú lausn kæmi vel til greina. 
  • Leitast verður við að ljúka umfjöllun og röðun kosta svo fljótt sem auðið er. Í því sambandi verður sérstaklega hugað að beiðnum um stækkun starfandi virkjana. 
  • Áhersla verður lögð á að skila afurðum RÁ4 með svo skýrum hætti í hendur næstu verkefnastjórnar, að  vinnan sem unnin hefur verið við hvern virkjunarkost í RÁ4 nýtist beint í áframhaldandi vinnu. 
 3. Verkefnisstjórn og faghópar hyggjast vinna eftir eftirfarandi tímaáætlun
  • Haust 2020-lok febrúar 2021: Faghópar vinna mat á virkjunarkostum  
  • 1.mars 2021: Faghópar skila niðurstöðum til verkefnisstjórnar  
  • Janúar-mars 2021: Verkefnisstjórn tekur saman skýrslu um starf sitt í heild
  • F.hl. mars 2021: Samráð faghópa og verkefnisstjórnar um mat og röðun á virkjunarkostum
  • S.hl. mars 2021: Verkefnisstjórn vinnur úr samráði við faghópa
  • 1.apríl 2021: Verkefnisstjórn skilar ráðherra tillögu að röðun/flokkun virkjunarkosta
 4. Faghópur 1, yfirlit rannsókna og annarra verkefna: Á starfstímanum hefur faghópur 1 lagt áherslu á rannsóknir sem nýtast almennt við mat á náttúru- og menningarverðmætum og áhrifum mögulegra virkjanakosta á þau, án tillits til þess hvaða virkjanakostir eru til skoðunar. Um er að ræða tíu verkefni sem snúa að því að bæta nýtingu og aðgengi að tiltækum gögnum um náttúru- og menningarminjar, afla nýrra gagna fyrir viðföng og undirviðföng þar sem takmarkaðar upplýsingar eru fyrir hendi og rannsóknir sem styrkja aðferðafræðina við matið. Þetta er þekking sem gagnast mun í starfi rammaáætlunar bæði nú og til framtíðar Síðan virkjanakostir bárust hefur verið aflað gagna fyrir mat á þeim. Hingað til hafa verið birtar eða eru í birtingu átta skýrslur, greinar og bókakaflar um niðurstöður rannsóknanna—flestar aðgengilegar á heimasíðu Rammaáætlunar—og nokkrar skýrslur til viðbótar eru væntanlegar á næstu mánuðum. Niðurstöður þessara verkefna eru mikilvægt framlag til þekkingar á náttúru og menningarminjum landsins. Verkefnin voru kynnt af umsjónarmönnum þeirra innan faghópsins: 
  1. Tómas Grétar Gunnarsson kynnti verkefni um flokkun lands eftir mikilvægi fyrir algenga landfugla. Verkefnið var unnið af Rannsóknasetri HÍ á Suðurlandi í samstarfi við Náttúrufræðistofnun íslands og náttúrustofur. Talningagögnum sem til voru á mismunandi stofnunum var safnað saman í einn gagnagrunn og þau notuð til að gera spálíkön um útbreiðslu 12 tegunda út frá upplýsingum um landslag, veðurfar og gróðurfar. Niðurstöðurnar bjóða upp á margvíslega myndræna framsetningu, svo sem útbreiðslukort og kort af tegundafjölbreytni. Skýrslu hefur verið skilað. 
  2. Sólborg Una Pálsdóttir kynnti verkefni um skráningu á fornum ferðaleiðum á miðhálendinu, sem unnið var af Ragnheiði Gló Gylfadóttur. Auk skráningar leiða yfir miðhálendið út frá heimildum var ein leið hnitsett á vettvangi. Á grundvelli niðurstaðna var lögð fram tillaga að nýrri flokkun fornra ferðaleiða. Skýrslu hefur verið skilað. Sólborg sagði einnig frá vinnu við fornleifaskráningu á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum á Glámusvæðinu og í Hamarsfirði sumarið 2020 sem unnin var af Náttúrustofu Vestfjarða og Byggðasafni Skagfirðinga. Vettvangsvinnu er lokið en loftmyndagreining er eftir og eru skýrslur áætlaðar fyrir árslok. Þá greindi hún frá vinnu Minjastofnunar Íslands við að afmarka eldri fornleifaskráningaverkefni inn í minjaskrá.
  3. Þorvarður Árnason kynnti nokkur verkefni: 
   1. Rannsókn á minjum og menningarsögulegu gildi landslags á hálendi Íslands, sem unnið var af Ragnheiði Gló Gylfadóttur og Birnu Lárusdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands. Verkefnið gefur meðal annars yfirlit yfir alla hnitsetta minjastaði á miðhálendinu sem eru í mörgu frábrugðnir minjum á láglendi, auk yfirsýnar yfir heildir og menningarsöguleg einkenni landslagsins. Skýrslu hefur verið skilað.
   2. Rannsóknir á fagurferðilegu gildi landslags á áhrifasvæðum nokkurra virkjunarkosta, sem unnin var af Eddu R.H. Waage og Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur fyrir hönd HÍ. Könnuð var upplifun mismunandi hópa af þáttum sem einkenna landslag viðkomandi svæða og leggur verkefnið grunn að aðferðafræði við mat á fagurferðilegu gildi landslags. Skýrslu hefur verið skilað. 
   3. Framhaldsverkefni um þróun aðferðafræði við kortlagningu víðerna á miðhálendinu, sem unnið var af Rannsóknasetri HÍ á Hornafirði, mest af David Ostman. Í verkefninu var bæði tekið mið af nýjum upplýsingum um mannvirki á miðhálendinu en einnig breyttu mati á skerðingaráhrifum mismunandi mannvirkja. Það síðarnefnda byggir á rannsókn HÍ á mati almennings á skerðingaráhrifum mismunandi mannvirkja sem einnig var kynnt stuttlega. Skýrslu hefur verið skilað.  
   4. Að auki fjallaði Þorvarður um þróunarvinnu þeirra Davids um notkun þrívíddarlíkana og nýrra forrita til að greina sýnileika mannvirkja í landslagi og sýndi á mjög myndrænan hátt hvernig hægt er að beita þessari tækni við mat á áhrifum einstakra virkjunarkosta. Þessi tækni styrkir verulega mat á landslagsáhrifum mannvirkja, þó að hún komi ekki í staðinn fyrir skipulagða myndatöku á vettvangi sem David hefur sinnt undanfarin sumur. 
  4. Jón S. Ólafsson sagði frá greiningu á tiltækum gögnum um lífríki straumvatna, stöðuvatna og tjarna með tilliti til sérstöðu og verndargildis þeirra. Verkefnið, sem unnið er í samvinnu Hafrannsóknastofnunar, HÍ, Náttúrustofu Kópavogs og fleiri aðila snýst um að ljúka úrvinnslu og birta niðurstöður úr stórum yfirlitsverkefnum á íslenskum ferskvatnsvistkerfum, þannig að þær nýtist við mat á verðmætum svæða og áhrifum einstakra virkjunarkosta. Verkefnið er langt komið og er von á skýrslum á næstu mánuðum. Þá sagði Jón frá vettvangsrannsókn haustið 2020 til að bæta upplýsingar um vatnalíf á áhrifasvæðum fyrirhugaðra virkunarkosta á Vestfjörðum og sýndi ljósmyndir og drónamyndir sem teknar voru í þeim ferðum. 
  5. Kristján Jónasson sagði frá loftljósmyndun á áhrifasvæði Hamarsvirkjunar og virkjunarkosta á Vestfjörðum sumar og haust 2020. Teknar voru samtals nærri 4 þúsund myndir sem hafa verið hnitsettar og lýsing lagfærð eftir þörfum. Um er að ræða skámyndir sem teknar eru með 2/3 skörun þannig að allir punktar í landinu sjást á tveimur eða fleiri myndum út frá mismunandi sjónarhornum. Þetta gerir kleift að skoða myndirnar í þrívídd og útbúa loftmyndalandlíkön. Myndirnar nýtast til að greina afstöðu jarðlaga, fossa eða flúðir í vatnsföllum og fleira, t.d. hugsanlegar menningarminjar. Þær geta því að einhverju leyti bætt úr skorti á gögnum um viðkomadi svæði. Loftmyndalandlíkön ættu að liggja fyrir á næstu vikum. 
 5. Faghópur 2, yfirlit rannsókna og annarra verkefna 
  1. Heimildarýni um áhrif vindmylla á beit. Aðalbjörg Egilsdóttir kynnti. Verkefninu er lokið og er búið að skila inn lokaskýrslu til ráðuneytisins.
  2. Heimildarýni um áhrif vindmylla á ferðamennsku og útivist. Anna Dóra Sæþórsdóttir kynnti. Verkefninu er lokið og er búið að skila inn lokaskýrslu til ráðuneytisins. 
  3. Áhrifasvæði virkjana: kynning á frumniðurstöðum. Edita Tverijonaite kynnti. xxMarkmið verkefnisins er að meta stærð áhrifasvæða virkjana á ferðamennsku að mati ferðaþjónustunnar. Rannsóknin varpar ljósi á hvaða áhrif ferðaþjónustuaðilar telja að virkjanir hafi á ferðamennsku, hversu stórt svæðið er þar sem ferðamenn verða fyrir áhrifunum og hvaða atriði hafa áhrif á stærð áhrifasvæðisins. Fjallað var um áhrif sex virkjana og voru samtals tekin 49 viðtöl við ferðaþjónustuaðila sem nýta svæðin í kringum virkjanirnar fyrir sína starfsemi. Af umræddum virkjunum eru þrjár í notkun í dag (Þjórsár/Tungnaárvirkjanir, Blönduvirkjun og Kröfluvirkjun) og þrjár voru til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar (Hrafnabjargavirkjun, Hágönguvirkjun, og Búrfellslundur). Notast var við tölvubúnað sem gerði viðmælendum kleift að teikna stærð áhrifasvæðanna á rafrænt kort. Nú er unnið að gagnagreiningu og má búast við niðurstöðum eftir nokkrar vikur. Niðurstöðurnar munu byggja á áhrifasvæðunum sem viðmælendur teiknuðu og röksemdafærslum þeirra um stærð svæðanna. Þá verða áhrifasvæðin sem viðmælendurnir teiknuðu borin saman við áhrifasvæðin sem faghópur 3 skilgreindi í þriðja áfanga RÁ. 
  4. Viðhorf ferðaþjónustuaðila til 8 virkjunarkosta í RÁ4: kynning á frumniðurstöðum. Margrét Wendt kynnti. Unnið er að rannsókn á viðhorfi ferðaþjónustunnar til átta virkjanahugmynda sem eru til skoðunar í 4. áfanga RÁ (Búrfellslundur, Garpsdalur, Sólheimar, Vindheimavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Tröllárvirkjun, Skúfanvatnavirkjun og Hamarsvirkjun. Alls var rætt við einstaklinga frá 51 ferðaþjónustufyrirtæki víðsvegar á landinu, sem buðu upp á mismunandi þjónustu (t.d. gistingu, jeppaferðir, hestaferðir o.s.fv.). Kynntar voru frumniðurstöður sem benda til þess að viðmælendur meti virkjunarhugmyndirnar út frá fjórum atriðum: hversu margir ferðamenn fara um fyrirhuguð virkjunarsvæði, hversu mörg mannvirki eru nú þegar á svæðinu, hversu stór er nýja virkjunin (og þar með raskið) og hvort ferðamenn staldra við þar til að skoða eitthvað sem hefur ákveðið aðdráttarafl eða keyra bara í gegn.
  5. Skilgreining ferðasvæða. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir kynnti. Í 3. áfanga rammaáætlunar var unnið með 58 ferðasvæði hjá faghópi 2 en nú, þegar búið er að skipta öllu landinu, hafa 133 ferðasvæði bæst við. Afmörkun nýrra ferðasvæða byggir að miklu leyti á sömu forsendum og lagðar voru til grundvallar við afmörkun ferðasvæða í RÁ 3, en að auki var horft til þess að afmarka byggðarlög á láglendi frá hálendissvæðum upp frá byggð. Þá var einnig stuðst við aðferðir við kortlagningu víðerna. 
 6. Faghópur 3, yfirlit rannsókna og annarra verkefna: Jón Ásgeir Kalmansson fór yfir störf faghóps 3 í 4. áfanga rammaáætlunar á þeim rúmu tveimur árum sem hann hefur starfað. Faghópurinn hefur unnið að því meginverkefni að móta aðferðafræði við mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta. Í því sambandi hefur hann einkum einbeitt sér að þrennu. Í fyrsta lagi hefur verið safnað upplýsingum er lúta að tekjum sveitarfélaga af virkjunum og virkjunarmannvirkjum, störfum í tengslum við byggingu og rekstur virkjana, og öðru sem kann að skipta máli við mat faghópsins á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta. Í öðru lagi hefur hann í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð HA rannsakað áhrif af byggingu og rekstri virkjana annars vegar í Norður-Þingeyjarsýslu og hins vegar Austur-Húnavatnssýslu á sveitarfélög á þessum landssvæðum. Í þriðja lagi hefur faghópurinn, í samvinnu við verkefnisstjórn, boðið alþjóðlegum sérfræðingum á sviði mats á samfélagslegum áhrifum, þeim Frank Vanclay og Ana Maria Esteves, hingað til lands til að fjalla um mat á samfélagslegum áhrifum framkvæmda og til að ræða við fulltrúa í verkefnisstjórn og faghópum um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta sem liggja fyrir Rammaáætlun. Af þessu tilefni stóðu faghópurinn og verkefnisstjórn fyrir málþingi um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta haustið 2019. Þá kannaði faghópurinn sumarið 2020, einnig í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð HA, viðhorf sveitarstjórnarfólks, hagaðila og sérfræðinga til þeirra vatnsaflsvirkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 4. áfanga Rammaáætlunar. 
  1. Magnfríður Júlíusdóttir kynnti framkvæmd og hluta af niðurstöðum viðtalsrannsóknar faghóps 3 frá árinu 2019: Samfélagsleg áhrif virkjana í Suður-Þingeyjarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu - „Eitt er að fá virkjun, en ef það er ekki lína niður í samfélagið, þá er kannski ekki mikið að gerast“. Markmið rannsóknarinnar var að kanna langa sögu samfélagsáhrifa orkuvinnslu á svæðunum og nýta niðurstöðurnar við að aðlaga alþjóðleg viðmið um mat á samfélagsáhrifum að íslenskum aðstæðum. Samfélagsáhrif á nærsamfélög virkjana voru greind bæði af virkjunum í rekstri og áhrifum áforma um virkjanir. Niðurstöður sýna m.a. að dregið hefur úr mikilvægi starfa tengdum virkjunum í nærsamfélögum þeirra og að sveitarfélög vilja fá meiri fastar tekjur af nýtingu orkuauðlindarinnar til að standa undir þjónustu við íbúa. Jákvæð þróun hefur orðið í samtali virkjanaaðila í vatnsorku og jarðhita við heimafólk, miðað við upplifun af yfirgangi áður. Harðar deilur urðu um Laxárvirkjun III og Blönduvirkjun, sem settu sitt mark bæði á nærsamfélögin í langan tíma og á sögu umhverfisverndar á Íslandi. xx5.3 Hjalti Jóhannesson gerði grein fyrir athugun sem fór fram á vegum faghópsins sumarið 2020 vegna sjö vatnsvirkjana: Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Tröllárvirkjun á Vestfjörðum, Hamarsvirkjun á Austurlandi og stækkun Hrauneyjafoss-, Sigöldu- og Vatnsfellsstöðva á Suðurlandi. Athuguð voru viðhorf til þessara virkjana meðal sveitarstjórnarmanna, sérfræðinga um staðbundin flutningskerfi raforku og fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga. Alls var rætt við 16 manns á 10 fjarfundum og stuðst við viðtalsvísi sem byggður var á leiðbeiningum IAIA (International Association of Impact Assessments). Á Vestfjörðum var mikil áhersla lögð á raforkuöryggi og framboð á raforku fyrir atvinnulífið og byggðaþróun. Almennt voru jákvæð viðhorf til virkjana. Það hafa verið truflanir á flutningi raforku til Vestfjarða, enda einföld tenging. Varaorka byggist á dísilstöðvum. Endurbætur á flutningskerfi raforku gætu jafnvel komið í stað virkjana að mati sumra viðmælenda. Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun eru háðar tengipunkti Landsnets í Djúpi en Tröllárvirkjun er nálægt núverandi flutningskerfi. Það hefur skapast talsverður núningur milli Vestfirðinga og aðila utan svæðis um auðlindanýtingu. Lítil umræða hefur farið fram um Tröllárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun, þekking á þeim kostum er takmörkuð meðal sveitarstjórnarfólks enda höfðu virkjunaraðilar ekki kynnt áform sín meðal viðkomandi sveitarstjórna. Á Austurlandi átti sér stað mikil umræða um raforkuöryggi og framboð á raforku fyrir atvinnulífið og byggðaþróun, svipað og á Vestfjörðum. Byggðalínan er úrelt að mati viðmælenda og endurnýjun hennar nauðsynleg. Framleiðsla á orku innan svæðis væri jákvæð, Fljótsdalsstöð er frátekin í framleiðslu fyrir Alcoa Fjarðaál og frátengd frá byggðalínunni þegar miklar truflanir eru á flutningi línunnar. Meiri arður sveitarfélaga af virkjunum væri æskilegur og verið að vinna í því á vegum samstaka orkusveitarfélaga. Eignarhald virðist skipta máli um viðhorf til virkjana þar sem opinbert eignarhald og innlendir aðilar eru taldir æskilegri. Bent var á að Hamarsvirkjun gæti orðið deilumál vegna umhverfismála. Lítil umræða hefur annars farið fram um Hamarsvirkjun og þekking á virkjunarkostinum er ekki mikil hjá sveitarstjórn enda hefur virkjunaraðilinn enn ekki kynnt hann á þeim vettvangi. Á Suðurlandi lögðu viðmælendur áherslu á að svæðið þyrfti að fá meiri atvinnuuppbyggingu í tengslum við virkjanir og orku sem þar er beisluð. Sunnlensk orka renni fyrst og fremst annað og búi til störf þar. Reynsla af stækkun Búrfells var jákvæð, efnahagsleg áhrif verða einkum vegna útsvars á byggingatíma og af fasteignasköttum á rekstrartíma. Litlar líkur eru taldar á að stækkanirnar þrjár verði umdeildar. Hins vegar hefur lítil umræða farið fram um þær hjá sveitarstjórn Ásahrepps. Samandregið virðist umræðan mikið fara eftir stöðu raforkumála í viðkomandi landshluta. Efnahagslegir þættir standa upp úr. Ef raforkuskortur er þá snýst umræðan um það hvernig má auka framboð og orkuöryggi og nýta raforku til að efla byggð og atvinnulíf. Leiðin að því markmiði getur í huga fólksins bæði snúist um að virkja eða bæta flutningskerfi raforku sem er talið vera orðið úrelt víða um land. Ef um er að ræða orkuríkt svæði sem er aflögufært um raforku þá snýst umræðan í meira mæli um það hvort fáist nóg fyrir orkuna og hvort hún skapi störf og tækifæri í heimabyggð. Þá er minni áhersla á styrkingu flutningskerfis enda flytur það orkuna annað og skapar tækifæri þar. 
  2. Sjöfn Vilhelmsdóttir dró saman niðurstöðurnar og gerði að umtalsefni þá staðreynd að virkjunarkostir hafa í mörgum tilfellum ekki verið kynntir fyrir sveitarstjórnum áður en þeir voru lagðir fram og teknir til umfjöllunar í 4. áfanga Rammaáætlunar. Í viðtölum faghóps 3 við fulltrúa sveitarfélaganna kom fram að  sveitarstjórnir Reykhólahrepps (v. Tröllárvirkjunar), Standabyggðar (v. Skúfnavatnavirkjunar), Djúpavogshrepps (v. Hamarsvirkjunar), og Ásahreppar (vegna stækkunar stækkun Hrauneyjafoss-, Sigöldu- og Vatnsfellsstöðva) höfðu hvorki verið formlega upplýstar um virkjunaráformin né fengið kynningu á þeim. Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps sagði að Vesturverk hefði verið í góðu sambandi við hann um áhuga fyrirtækisins  á virkjunarframkvæmdum á nokkrum stöðum inn Djúpið, og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps upplýsti að áform Landsvirkjunar um stækkanirnar í Þjórsá hefðu verið ræddar í sveitarstjórninni hjá honum. Það að virkjunaraðilar hafa ekki kynnt áform sín meðal viðkomandi sveitarstjórna gerir mat faghóps 3 á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta mun vandasamara þar sem hvorki hefur farið fram umræða um virkjunaráformin né mat á þeim á vettvangi sveitarfélaganna. Einnig veki það spurningar um stjórnsýslu og fyrirkomulag Rammaáætlunar að fyrirtæki geti gert áform um virkjunarframkvæmdir sem hafa óafturkræf áhrif á umhverfið án þess að þurfa að gera grein fyrir þeim hjá viðkomandi sveitarstjórnum.
  3. Staðan í faghópi 3 varðandi mat á virkjunarkostum í 4. áfanga. Faghópur 3 hefur, eins og að ofan greinir, kannað viðhorf sveitarstjórnarfólks og annarra til þeirra vatnsaflskosta sem til umfjöllunar eru í 4. áfanga Rammaáætlunar. Þá hefur faghópurinn unnið rannsóknar- og kostnaðaráætlun vegna samskonar könnunar á viðhorfum sveitarstjórnarfólks og annarra til 5 vindorkukosta í 4. áfanga og gerir faghópurinn ráð fyrir að sú rannsókn verði unnin á næstu mánuðum. Vegna minni reynslu af vindorkuverum hérlendis gæti þurft að kanna samfélagsárif þeirra með samtali við fleiri sem nýta sömu svæði. Þótt þessar viðtalskannanir séu ekki nægur grundvöllur að röðun, með tilliti til samfélagslegra áhrifa þeirra virkjunarkosta sem nú eru til umfjöllunar faghópa í 4. áfanga, þá varpa þær mikilvægu ljósi á viðhorf kosinna fulltrúa viðkomandi sveitarfélaga til þessara kosta. Jafnframt munu þessar rannsóknir faghópsins nýtast við áframhaldandi vinnu við mat á samfélagslegum áhrifum í komandi áföngum Rammaáætlunar. 
 7. Faghópur 4, yfirlit yfir rannsóknir 
  1. Sigurður Jóhannesson gerði grein fyrir starfi Faghópus 4, sem vinnur að gerð leiðbeininga eða handbókar um aðferðir við gerð hagræns mats á virkjunarkostum. Til grundvallar er lagt hagrænt mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar, sem faghópur 4 hefur unnið að á árinu. Sigurður Jóhannessin fór yfir stöðu verkefnisins. Markmiðið er að meta þann kostnað sem sá sem virkjar ber ekki. Ekki er til eiginlegur markaður með landslag og óspillta náttúru, sem almenningur getur notið. Þess vegna þarf að búa markaðinn til. Urriðafossvirkjun er fullmótuð virkjunarhugmynd og aðeins tvennt kemur til greina: Að virkja eða virkja ekki. Umhverfiskostnaðurinn er því metinn með skilyrtu verðmætamati. Spurningarnar hafa verið prófaðar á rýnihópum og í forkönnun og er ætlunin að Maskína sendi þær út á næstu dögum. Stefnt er að því að afla 3.000 svara við athuguninni, en sérstök áhersla er lögð á að kanna viðhorf fólks í grennd við virkjunina. Eins og áður segir verður aðferðum lýst í handbók um hagrænt umhverfismat, sem hugmyndin er að verði eins konar verklýsing fyrir seinni athuganir. Þar verði meðal annars lýst álitaefnum sem ráða þurfti úr í þessari athugun. Rætt verður hvernig best er að haga slíku mati þegar val stendur milli tveggja eða fleiri virkjunarleiða. Jafnframt verður rætt um muninn á hagrænu umhverfismati fyrir vatnsaflsvirkjanir og virkjanir af öðru tagi og hvað sérstaklega þarf að hafa í huga þegar jarðvarmi eða vindafl er virkjað. 
 8. Formaður bað formenn faghópa um að draga saman hvert faghópurinn er komin í mati hvers fyrirliggjandi virkjunarkosts og hvað vantar upp á að hægt sé að ljúka mati hans.

Fleira ekki gert, formaður þakkaði öllum fyrir vel unnin störf og góðan fund. Fundi slitið kl. 17:48

GP/HHS rituðu fundargerð.