33. fundur, 11.09.2019

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

33. fundur 11.09.2019 kl. 14:00-17:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Verkefnisstjórn RÁ4: Elín Líndal, Hilmar Gunnlaugsson, Guðrún Pétursdóttir, Guðrún Sævarsdóttir, Magnús Guðmundsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, og Þórgnýr Dýrfjörð;

Formenn faghópa: Anna Dóra Sæþórsdóttir, Ása L. Aradóttir og Jón Ásgeir Kalmansson.

Þorbjörg Auður Ævarr Sveinsdóttir sérfræðingur UAR sat fundinn í dagkrárliðum 1 og 2

Boðuð forföll: Sigurður Jóhannesson


1. Nýr stjórnarmaður, Hilmar Gunnlaugsson lögmaður, boðinn velkominn, en hann kemur í stað Helga Jóhannessonar.

2. Kynning á TEAMS nefndasviðinu

Þorbjörg Auður sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kynnti funda- og skjalakerfið Teams sem á hér eftir að nota við vinnu verkefnisstjórnar og faghópa RÁ4.

3. Auglýsing Orkustofnunar um virkjunarkosti

Rætt um kall OS eftir virkjanakostum 21.ág´stu 2019. Í auglýsingunni er tekið fram að ekki séu tímamörk fyrir innsendingu umsókna um nýja virkjanakosti.

Þetta er bagalegt fyrir vinnu RÁ4. Ákveðið að formaður verkefnisstjórnar RÁ4 sendi bréf til OS vegna þessa í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

4. Staða verkefna faghópa

Formenn faghópa lýstu stöðu vinnunnar, en gátu þess að oft er erfitt að fá fagfólk til rannsókna með stuttum fyrirvara á sumrin. Því voru lögð drög að mörgum verkefnum sem framkvæmd verða í haust:

Ása L. Aradóttir formaður faghóps 1: Fjögur rannsóknaverkefni voru samþykkt af verkefnisstjórn sl. vor. Flestir samningar eru nú frágengnir eða á lokastigi. Nánast öll gögn sem þurfti að safna í sumar eru komin í hús. Staðan á verkefnunum fjórum er eftirfarandi:

1) Kortlagning óbyggðra víðerna á miðhálendinu, vinna er langt komin.

2) Greining á lífríki og vistkerfi straumvatna, verið að ganga frá samningi.

3) Skráning á fornum ferðaleiðum á miðhálendinu mun fara af stað í september samkvæmt áætlun.

4) Landslagsáhrif vindorkuvera er um það bil að fara í gang.

Verkefni sem byrjuðu í fyrra eru langt komin eða búin. Skýrslum úr tveimur þeirra hefur verið skilað en eru ekki enn komnar á netið; von er á þeirri þriðju fljótlega. Loks sagi ÁLA frá vinnu faghópsins við endurskoðun á lýsingu aðferðafræði hans.

Í haust er fyrirhugað að funda með sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands og e.t.v. fleiri stofna til að fá yfirlit yfir nauðsynleg gögn um náttúru- og menningarminjar, og aðgengi. Einnig hóf ÁLA máls á því hvernig ber að taka á því þegar gögn um ákveðna þætti eru mjög rýr. Meta þarf mikilvægi hvers þáttar, en góð niðurstaða hlýtur að byggja á góðum gögnum.

Anna Dóra Sæþórsdóttir formaður faghóps 2 sagði frá því að í ágúst var gengið frá samningi við ráðuneytið varðandi eina verkefnið sem styrkt var fyrir faghóp 2 í sumar. Það er kortlagning á áhrifasvæðum virkjana, en það er atriði sem helst hefur fengið gagnrýni á fyrri stigum. Nú er verið að móta spurningar og undirbúa tæknilega þætti. Stefnt er að vettvangsvinnu eftir 3-4 vikur. ADS minnti á að faghópurinn hefði sett fram tillögu um annað verkefni, sýn og óskir ferðaþjónustunnar um nýtingu hálendisins og hvar hagsmunir orkunýtingar og ferðaþjónustu geti eða geti ekki farið saman. Vegna óvissu um fjármögnun hefur það verkefni ekki verið tekið formlega á dagskrá enn, en í umræðum á fundinum var ákveðið að nota tækifærið til að safna gögnum á sama tíma og unnið verður að verkefninu um áhrifasvæði virkjana. Úrvinnslan verður svo háð sérstakri fjárveitingu.

Jón Ásgeir Kalmansson formaður faghóps 3 sagði frá rannsóknum faghóps 3 á Norðurlandi í vor og sumar, þar sem gerð var könnuð voru viðhorf heimamanna til þeirra virkjana sem þar hafa verið reistar á undanförnum áratugum, Kröfluvirkjun, Þeistareyki, Laxárvirkjanir og Blönduvirkjun. Þetta er gert til að varpa ljósi á langtímaáhrif þessara mannvirkja á nágrannasamfélög. Úrvinnsla gagna er enn í gangi, en gert ráð fyrir að rannsóknin verði kynnt á opnu málþingi um samfélagsáhrif stórra mannvirkja, sem haldið verður á vegum faghóps 3 og verkefnisstjórnar þann 12. nóvember 2019.

Aðalfyrirlesari verður einn helsti sérfræðingur Evrópu á þessu sviði, Frank Vanclay prófessor í menningarlandfræði við Háskólann í Groningen í Hollandi https://www.rug.nl/staff/frank.vanclay/.

Sigurður Jóhannesson formaður faghóps 4 átti þess ekki kost að koma á fundinn, en verkefni faghóps 4 hefur samkvæmt ósk verkefnisstjórnar verið endurskilgreint frá því sem kynnt var í vor. Í haust verður unnið að leiðbeiningum um framkvæmd rannsókna á hagrænum áhrifum virkjana bæði í héraði og landsvísu með þeim hætti að þær séu framkvæmanlegar innan fjár- og tímaramma Rammaáætlunar.

5. Viðbrögð faghópa við athugasemdum haghafa

Í lok árs 2018 funduðu allir faghópar og verkefnisstjórn með mismunandi haghöfum, virkjanaaðilum, náttúruverndarsamtökum og ferðaþjónustuaðilum, og kallaði eftir ábendingum þeirra um það sem þeir telja að betur megi fara í verklagi rammaáætlunar.

Faghóparnir hafa farið yfir þessar ábendingar og breytt áformuðu verklagi þar sem ástæða hefur þótt til eða fært rök fyrir óbreyttu verklagi þar sem það á við.

Faghópur 1 fór í gagngera rýni með hliðsjón af ábendingum haghafa og reynslu frá síðasta áfanga. Faghópurinn telur ekki að mikilla breytinga sé þörf, en ákveðin atriði voru færð til betri vegar og mun faghópurinn skila skriflegu svari um þær á næstunni.

Faghópur 2 fékk hvað mesta gagnrýni, einkum vegna stærðar áhrifasvæða virkjana. Hópurinn hefur nú skilað ítarlegri skýrslu með viðbrögðum og svörum við athsemdum haghafa. Skýrslunni var dreift með síðasta fundarboði og verður sett á netið á næstunni.

Faghópur 3 fékk helst þær athugasemdir að það þyrfti að efla þátt samfélagslegra áhrifa í mati rammaáætlunar á virkjunarkostum. Faghópurinn vinnur að mótun síns verklags.

Faghópur 4 fékk heldur ekki beina gagnrýni heldur kölluðu haghafar mjög eftir auknu vægi hagrænna áhrifa í mati á virkjanakostum. Unnið er að mótun verklags til þess.

6. Áætlun haustsins tekur mið af því að enn er óljóst hvenær verkefnisstjórn má vænta þess að fá senda virkjanakosti til mats. Tíminn er nýttur til að bæta verkferla, afla þekkingar sem munu nýtast óháð virkjanakostum.

7. Mörk friðlýsingarsvæða voru rædd í ljósi þeirra umræðna sem skapast hafa undanfarið.

8. Önnur mál voru ekki tekin fyrir.

Næsti fundur verði haldinn 23. október 2019 kl. 10:00 – 12:00. Minnt er á fund verkefnisstjórnar með prófessor Frank Vanclay þann 12. nóvember 2019 kl 10-12 og málþing um samfélagsleg áhrif stórframkvæmda kl 13-16:30 sama dag.