30. fundur, 21.05.2019

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

30. fundur 21.05.2019 kl. 11:30-13

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Elín R. Líndal (ERL), Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður, Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) og Þorbjörg Auður Ævarr Sveinsdóttir starfsmaður verkefnisstjórnar frá UAR.

Boðuð forföll: Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS)

Gestir: Dr. Sigurður Jóhannesson, Kristín Eiríksdóttir, og Ágúst Arnórsson öll frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.


Fundur settur kl. 11:30

Skipaður hefur verið faghópur 4, sem fjalla mun um hagrænt mat á áhrifum virkjanakosta. Dr. Sigurður Jóhannesson forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ er formaður faghóps 4, en auk hans eiga þar sæti auðlindahagfræðingarnir Dr. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor og Dr. Daði Már Kristófersson prófessor og forseti Félagsvísindasviðs HÍ.

Efni fundarins var kynning Hagfræðistofnunar HÍ á hagrænu mati á áhrifum virkjunarkosta.

Kristín Eiríksdóttir kynnti hugmyndafræði og aðferðir við hagrænt mat á umhverfisgæðum – sjá meðfylgjandi glærur.

Farið var ítarlega í mismunandi aðferðir, og ræddir kostir þeirra og gallar. Sá rammi sem þarna var kynntur nær utan um flesta þætti sem taka verður tillit til þegar hagrænt mat er lagt á umhverfið.

Hugmyndin er að Faghópur 4 vinni eins konar handbók um hvernig framkvæma á hagrænt mat. Slík forskrift mun flýta fyrir framkvæmd á slíku mati í framtíðinni. Gert er ráð fyrir að fyrsta mat á virkjunarkosti (t.d. vatnsaflsvirkjun) fyrir slíka handbók taki um ár í framkvæmd og kosti amk 20 milljónir króna.

Það spurning hvort svona ítarlegar, tímafrekar og kostnaðarsamar rannsóknir eigi betur heima síðar í matsferli virkjana, með svipuðum hætti og mat á umhverfisáhrifum, sem nú er unnið á kostnað virkjunaraðila eftir að ákveðið hefur verið að fara í framkvæmd.

Rammaáætlun er hins vegar ætlað að raða fjölda kosta í fýsileikaröð. Finna þarf aðferðir til að meta hinn hagræna þátt við þær aðstæður.

Ákveðið að starfshópurinn leggi fram ítarlegri framkvæmda- og kostnaðaráætlun, en formaður vstj og formaður faghóps 4 ræði nánar saman um verkefnið, Einnig ákveðið að verkefnisstjórn fundi sem fyrst aftur til að ákveða hvort þessi leið verður farin .

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 13:30.

MG/GP rituðu fundargerð