29. fundur, 27.03.2019

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

29. fundur 27.03.2019 kl. 9-11

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður, Helgi Jóhannesson (HJ), Herdís Helga Schopka (HHS), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD á fjarfundi).

Gestur: Jón Geir Pétursson (JGP) skrifstofustjóri umhverfis- og auðlindaráðuneyti

  1. Fundur settur kl. 9:00.
  2. HHS og JGP skýrðu frá því að HHS muni hætta sem starfsmaður verkefnisstjórnar RÁ4. Staðgengill hennar verður fundinn hið fyrsta. Verkefnisstjórn þakkar Herdísi gott samstarf og óskar henni alls hins besta. HHS vék af fundinum kl 9:20.
  3. JGP ræddi stöðu mála í ljósi þess að þingsályktunartillaga RÁ3 hefur enn ekki náð fram að ganga. Hver afdrif hennar verða á vorþingi er enn ekki fyrirséð. JGP fagnar því hve vel verkefnisstjórn og faghópar hafa nýtt tímann til að endurbæta aðferðir RÁ og búa í haginn fyrir mat á virkjanakostum þegar þeir berast. Rætt var sérstaklega um aðkomu RÁ4 að vindorku og fyrirhugað samstarf RÁ4 við Skipulagsstofnun í því sambandi. JGP fagnaði þessu samstarfi og tók af allan vafa um að verkefnisstjórn hefði fullt umboð til að vinna að þróun aðferða til að meta vindorkukosti, þótt nefnd á vegum þriggja ráðuneyta ynni nú að úttekt á því með hvaða hætti sjálfu matsferli vindorkuvera yrði best skipað og hvort rétt væri að setja sérstakan kafla um vindorku inn í lög um rammaáætlun. Áform um rannsóknir tengdar vindorku rædd nánar. Loks voru fjármál stuttlega rædd og ítrekuð beiðni verkefnisstjórnar um sundurliðað yfirlit yfir útgjöld ársins 2018, sem GP hefur þrívegis óskað eftir. JGP tók að sér að leysa úr því. JGP og MG viku af fundi kl 9:50.
  4. Fjármálin rædd áfram og settur rammi um væntanleg útgjöld til rannsókna á næstu mánuðum. Formaður mun bera rannsóknaráætlanir undir vstj þegar þær liggja fyrir. 
  5. Fleira ekki gert og fundi slitið kl 11.

GP ritaði fundargerð